Sigurður Ingólfsson brá sér á frumsýningu hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs um helgina. Hann hafði þetta að segja:
Um helgina var frumsýnt á Iðavöllum nýtt leikrit eftir ungan höfund, Listin að lifa.
Þetta er góð sýning og vel uppfærð. Þarna eru þrír leikarar sem skila sínu afskaplega vel.
Það að skrifa leikrit um mannsæfi er stórt verkefni og auðvitað eru þarna hnökrar sem að kannski eru viðeigandi þegar þetta verkefni er tekið fyrir. Ein æfi er ekkert hnökralaus.
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir skrifar verkið sem síðan verður á vissan hátt til í meðförum Odds Bjarna Þorkelssonar, leikstjóra og svo leikaranna. Þráinn Sigvaldason leikur mann sem breytist úr vesældarlegum krakka í fullorðinn mann og síðan gamalmenni og þær Oddný Ólafía Sæmundsdóttir og Eygló Daníelsdóttir, konurnar í lífi hans. Þau gera þetta feykilega vel og margt í leikstjórninni er verulega gott. Það ert til dæmis gaman hvernig er unnið með liti í sýningunni, Dúa, sem leikin er af Lóu (Ólafíu Oddnýju) er oftast nær rauðklædd og ber þennan lit spillingar og hita af kynferðislegum þunga, Didda, sem leikin er af Eygló Daníelsdóttur er bláleit eins og himinninn og sakleysið og svo er Dúddi, Þráinn Sigvaldason, í þessum grænleita jarðbundna lit og fyrir vikið einhver sem sameinar í sinni vorkunnnsömu viðleitni til þess að fullorðnast, eiginleika kvennanna beggja, himinn og jörð. Þetta er á margan hátt margslungið leikrit og það er tekið á mörgu, framhjáhaldi, ást og dauða, æskunni, lífinu og listina við að dansa þennan línudans sem það er. Og eins og ég segi, það er vandmeðfarið verkefni. Það sem mér fannst vera hnökrar eru kannski einna helst það að orðræðan, myndmálið, það hvernig persónurnar tala saman, virðist á köflum vera eins og ekkert hafi gerst í þjóðfélaginu á þessu tímabili. Það er eins og þetta fólk sé alltaf í sama samfélagi, með sömu vandamál og í raun fyrir framan sama spegil. En það er hugsanlega eins og líf okkar velflestra.
Kannski erum við alltaf að burðast með sömu hluti og við munum eftir frá því við vorum krakkar. Og í því samhengi fannst mér skemmtilega unnið með skugga í þessari sýningu. Það var stundum eins og skuggarnir sýndu manni fortíð og fyrrverandi veruleika persónanna sem fylgir þeim endalaust og í gegnum hvað sem fyrir mann kann að koma.
Allt í allt var ég mikið sáttur við þessa sýningu. Oddur Bjarni gerir þetta aftur, að taka leikverk og vinna með það og leikendur og búa til leikhús. Það er nefnilega stórmunur á texta og sýningu og þar kemur til kasta þess sem heldur utan um allt saman. Til dæmis það að vinna með þetta litla rými sem er á Iðavöllum, snúa salnum við, setja áhorfendur upp á svið og láta þá horfa ofan í þessi líf á gólfi þar sem fólk hefur andast ofan í rófustöppuna sína á þorrablótum, það að nýta sér mjög mismunandi hæfileika mjög mismunandi fólks og búa til með því sýningu sem spannar heila æfi. Það er leikhús og það er skammarlegt að láta slíkt fram hjá sér fara. Nú og að lokum þá spyr ég, hvenær verður hægt að sýna leikrit á Egilsstöðum, sýna bíómyndir á Egilsstöðum (eins og gert er með sóma á Reyðarfirði og á Seyðisfirði) Hver er stefnan í slíkum málum í þessu bæjarfélagi?
Listin að lifa er ekki bara leikrit, í þessu felst líka spurning sem varpað er fram með þessari sýningu og maður bíður spenntur eftir svari. Hluti svarsins er á Iðavöllum, þessa dagana.