ImageHjá Leikfélagi Akureyrar eru æfingar hafnar á Maríubjöllunni eftir Vassily Sigarev. Hér er um að ræða kraftmikið og átakanlegt nútímaverk sem vakið hefur mikla athygli þar sem það hefur verið sýnt. Leiksýningin verður fyrsta uppsetningin í nýju leikrými Leikfélags Akureyrar, sem enn hefur ekki hlotið nafn. Frumsýning verður 17. febrúar.
 
Maríubjallan gerist á einu kvöldi. Við fáum magnaða innsýn í líf persónanna, kynnumst sorgum þeirra og þrám. Í ömurlegum aðstæðum er að finna allt litróf mannlegra tilfinninga og hver um sig hefur fundið sína leið til að lifa af.

Dima er 19 ára. Hann býr í blokk við hliðina á kirkjugarðinum, þaðan sem hann stelur legsteinum og selur. Á morgun hefur hann herþjónustu en í kvöld heldur hann vinum sínum kveðjupartý. Þangað koma vinir hans Slavik og Arkasha auk stúlknanna Leru og Yulka.

Vassily Sigarev er talinn eitt fremsta leikskáld nýrrar kynslóðar í Evrópu og hefur hlotið fjölda verðlauna á síðastliðnum misserum, bæði í heimalandi sínu, Rússlandi sem og öðrum löndum.

Leikstjóri er Jón Páll Eyjólfsson en hann var tilnefndur til menningarverðlauna DV í fyrra fyrir leikstjórn og gagnrýnandi Morgunblaðsins útnefndi hann „mann ársins í íslensku leikhúsi”. Hann setti upp leikritið Frelsi í Þjóðleikhúsinu í haust. Þýðandi er Árni Bergmann, leikmynd og búninga hannar Halla Gunnarsdóttir. Hallur Ingólfsson semur tónlist og hljóðmynd verksins og lýsing er í höndum Björns Bergsteins Guðmundssonar. Leikarar eru Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Esther Thalía Casey, Guðjón Davið Karlsson, Guðjón Þorsteinn Pálmarsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson og Þráinn Karlsson.

Leikhópurinn mun halda úti svokallaðri æfingadagbók á netinu allt fram að frumsýningu verksins, þar sem áhugasamir geta fylgst með æfingaferlinu. Þar verður einnig hægt að nálgast myndbandsbrot og hljóðupptökur. Slóðin er: www.mariubjallan.blogspot.com og mun síðan opna þriðjudaginn 17. janúar.

Hið nýja leikrými er að Hafnarstræti 74. Þar var hefur verið ýmis skemmtana- og menningarstarfsemi í gegnum tíðina undir ólíkum nöfnum, s.s. Lón, Dynheimar og nú síðast Húsið. Nýja leikrýmið verður mikil búbót fyrir leikhúsið enda verður leikrýmið mjög ólíkt núverandi aðstæðum í Samkomuhúsinu. Undanfarnar vikur hafa staðið yfir framkvæmdir sem snúa að því að búa til svokallaðan “svartan kassa”, þ.e. leikrými þar sem hægt er að leika á ólíka vegu og búa til óhefðbundið leikrými. Í hinu nýja rými rúmast um 150 áhorfendur, en  auk sýningahalds verður húsið nýtt sem æfingaaðstaða og leikmuna-, búninga og leikmyndasafn leikhússins flyst í húsið. Enn hefur ekki verið valið nafn á nýa rýmið.

Frumsýning á Maríubjöllunni verður 17. febrúar og hefst forsala 1. febrúar. Miðasala LA er opin alla virka daga frá kl. 13-17. Miðasölusími er 4 600 200 en einnig er hægt að kaupa miða á netinu, allan sólarhringinn. Slóðin er www.leikfelag.is