Leikhópurinn Spindrift Theatre sýnir í fyrsta sinn á Íslandi 3 stuttverk byggð á þremur rannsóknarverkefnum þriggja meðlima hópsins. Hópurinn samanstendur af fimm ungum konum frá Finnlandi, Noregi, Skotlandi og Íslandi sem allar lærðu leiklist í Rose Bruford College í Bretlandi. Þríleikurinn er samsettur af mismunandi tilraunum, listastefnum og stílum og er hópurinn spenntur fyrir því að rannsaka verkin áfram útfrá viðbrögðum áhorfenda. Verkin verða sýnd hvert á fætur öðru og í lok sýninganna verður boðið upp á kaffi og umræður þar sem leikhópurinn vill gjarnan heyra skoðanir áhorfenda og fá spurningar frá þeim.

Þríleikur eru stuttverkin:

Me, Whilst Being Humane ..: verk sem felur í sér rannsókn á sjálfinu og hvernig manneskjan setur sig í mismunandi hlutverk í mismunandi aðstæðum. Hvernig mótumst við af umhverfi okkar og þeim sem eru í kringum okkur. Hvaða möguleika býður eigin persóna leikarans upp á sviði?

Cydonia: Marsiah sem er saga fjögurra geimfara og löngun þeirra til að verða meira en mennskir. Stuttverk um sköpun, heimþrá, umönnun, ótta og kynni mannsins við æðri verur. Hvað er mannlegt, og hvenær er það yfirgefið?

Phew: Kisuleikur. Stuttverk um völd og missi, ást og mannkynið. Absúrt og pólitískt leikverk sem færir þig inní heim hinna miklu Ofurkatta, innblásið af absúrdisma í teiknimyndabókum Hugleiks Dagssonar.

Sýningar verða laugardaginn 29. júní í Frystiklefanum í Rifi og 2. júlí í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði. Miðaverð er 2000 kr.