ImageLeikfélag Selfoss hefur hafið æfingar á sögulegu leikriti, „Þuríður og Kambsránið“, eftir Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson. Leikritið segir frá hinu fræga Kambsráni í Flóa árið 1827 og hvernig Þuríður formaður Einarsdóttir átti sinn þátt í rannsókn málsins. Og eins og margir vita þá var hún Þuríður þessi mikil baráttukona í hörðum karlaheimi. Stefnt er á að frumsýna í byrjun mars.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigurgeir semur fyrir leikfélagið, fyrst árið 1994 þegar hann samdi gamanleikinn „Leikið lausum hala“ og svo árið 2001 kom hann með „Á Suðurlandsvaktinni“ Sigurgeir á langa sögu að baki hjá leikfélaginu, fyrir utan að hafa samið fyrir leikfélagið, þá hefur hann margoft stigið á svið, verið í stjórn og er núverandi formaður leikfélagsins.

Leikstjóri „Þuríðar og Kambsránsins“ er Jón Stefán Kristjánsson og er þetta í þriðja sinn sem hann kemur með krafta sína til leikfélagsins en hann leikstýrði „Með vífið í lúkunum“ árið 1999 og einnig „Á Suðurlandsvaktinni“.

Leikarar í sýningunni eru á milli 14 og 18 auk þeirra sem leggja sýningunni lið bakvið tjöldin.