Hugleiksmenn fóru í stúdíó fyrir nokkru og tóku upp lag úr sýningunni Rokki, enda varla annað hægt þar sem verkið fjallar ekki síst um hljómsveitir og meikdrauma. 27 heitir lagið (eða XXVII ef nördatilhneygingum textahöfundar fá að ráða) og fjallar um nokkur helstu rokkgoð sögunnar sem öll dóu á því aldursári.

Þrátt fyrir svartan húmor í textanum er boðskapurinn engu að síður jákvæður og myndi sóma sér vel sem lokalag í væminni Disneymynd, ef það kompaní ákvæði að gera örlögum Morrison, Hendrix, Joplin og Cobain skil.

Lagið 27 er komið í hendur allra helstu útvarpsstöðva landsins og hefur þegar heyrst á Rás 2. Þangað er tilvalið að beina óskum um að heyra lagið. Það má líka hlusta á það hér. Höfundur lagsins er Eggert Hilmarsson en textann gerði Sigurður H. Pálsson.

Miðasala er í fullum gangi á midi.is á sýningu Hugleiks í Þjóðleikhúsinu 10. júní nk.

{mos_fb_discuss:2}