Þann áttunda mars sl. frumsýndu Leikfélögin á Ólafsfirði og Siglufirði nýtt íslenskt leikrit, Stöngin inn!, í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði. Höfundur og leikstjóri er Guðmundur Ólafsson. Þegar hafa verið fimm sýningar við feikigóðar viðtökur. Næsta sýning verður á Skírdagskvöld 28. mars. Þetta er fyrsta sameiginlega leiksýning leikfélaganna tveggja í Fjallabyggð og fyrsta skrefið í að sameina félögin.

Í stuttu máli þá fjallar verkið um það ástand sem skapast í litlu bæjarfélagi þegar konurnar fara í kynlífsverkfall til að mótmæla mikilli fjarveru manna sinna, sem eru flest kvöld að heiman að horfa á knattspyrnu í sjónvarpinu. Það sem er í fyrstu hugsað sem létt spaug og áminning til karlanna vindur upp á sig og skapar vandræðaástand í bænum. Fylgst er með framvindu mála og ýmiskonar uppákomum og sannast þar að „þótt náttúran sé lamin með lurk, leitar hún út um síðir“.

Alls taka 16 leikarar þátt í sýningunni ásamt fjögurra manna hljómsveit, en leikritið er stútfullt af frábærum ABBA-lögum sem höfundur hefur samið íslenska texta við.