Í tilefni 10 ára afmælis Richard Wagner félagsins á Íslandi býður það öllum áhugamönnum um óperutónlist til fyrirlestrar Dr. Oswald Georgs Bauer í Norræna húsinu sunnudaginn 16. október klukkan 16. Fyrirlestur Bauers, sem verður á ensku, nefnist: „Tálvonir og listræn staðfesta – Wagner og Parísaróperan”. Greint verður frá því hvað Wagner sá og lærði við Parísaróperuna, aðdáun hans og gagnrýni.  Franski óperustíllinn  var ekki  í anda fyrirmynda Wagners þeirra Glucks, Mozarts og Beethovens  en varð undanfari að skemmtiiðnaði 20. aldar á Broadway og í Hollywood.
Fyrirlesturinn hefst klukkan 16. Aðgangur ókeypis og öllum heimill

Oswald Georg Bauer er leikhúsfræðingur og einn af helstu kunnáttumönnum um uppsetningar á Wagneróperum frá upphafi til okkar daga. Hann er höfundur hinnar virtu bókar  „Richard Wagner – Die Bühnenwerke von der Uraufführung bis heute”, sem út kom árið 1982 hjá Propyläen forlaginu í Frankfurt. Bauer starfaði um árabil við Bayreuthhátíðina sem listrænn ráðgjafi og gegndi auk þess  starfi  fjölmiðlafulltrúa hátíðarinnar í nokkur ár. Hann er nú forstöðumaður Listaakademíunnar í München.