ImageEnska leikskáldið Harold Pinter hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels, samkvæmt tilkynningu sænsku akademíunnar, sem birt var klukkan 11. Segir akademían, að Pinter sé fremsti fulltrúi leiklistarinnar í Bretlandi eftir síðari heimsstyrjöldina. Hann afhjúpi hengiflugið sem daglegt hjal fólks feli og ryðjist inn í lokuð herbergi kúgunarinnar.

Þá segir akademían, að Pinter hafi endurskapað leikhúsið og lagt áherslu á grunnþætti þess: lokað rými og óútreiknanleg samtöl þar sem fólk er á valdi hvers annars og uppgerðin verður að láta undan síga.

Pinter fæddist í Lundúnum árið 1930. Hann lék á sviði sem unglingur og fékk inngöngu í konunglega leiklistarskólann árið 1948 og lék á næstu árum í fjölda leikverka undir sviðsnafninu David Baron. Fyrsta leikrit hans, Herbergið, var sett upp árið 1957 í Bristol. „The Birthday Party" kom út sama ár og þótti fyrst algerlega misheppnað en hefur síðan orðið eitt af þekktustu verkum hans. Hann sló síðan í gegn með leikritinu „The Caretaker" (Húsvörðurinn) árið 1959.

Image Endurminningar leika æ stærri þátt í verkum Pinters en þegar á sjöunda áratugnum var ljóst hversu mjög hann sótti efnivið í leikritin í eigið líf. Hann var einkabarn, sonur gyðinga og varð að yfirgefa heimili sitt á stríðsárunum. Helstu mótunarárin voru þó eftir stríð er unglingurinn Pinter féll inn í hóp menningarvita af gyðingaættum sem lásu Kafka og Dostojevskíj og horfðu á myndir eftir Bunuel. Samskipti vinanna er efni einu skáldsögu Pinters „The Dwarfs" (Dvergarnir) sem kom út í upphafi sjötta áratugarins.

Fjölmörg dæmi eru um hvernig reynsla Pinters endurspeglast í verkum hans. „The Hothouse" (Gróðurhúsið), frá 1958, byggir á reynslu Pinters af því að vera tilraunadýr á spítala, er hann var ungur og félítill. Í „Old Times" (Liðnar stundir) er rakið bóhemlíferni hans tuttugu árum fyrr. Fyrirmyndirnar að aðalpersónunum í Húsverðinum eru menn sem bjuggu í sama húsi og Pinter. Þá er „Betrayal" (Svik) byggð á ástarævintýri sem Pinter átti er hann var giftur fyrri eiginkonu sinni, leikkonunni Vivien Merchant. Þau skildu árið 1980 og Pinter giftist þá sagnfræðingnum Antonia Fraser.

Auk leikrita hefur Pinter samið fjölda kvikmyndahandrita, þar á meðal The Servant (1963), The Accident (1967), The Go-Between (1971) og The French Lieutenant’s Woman (1981) sem hann skrifaði eftir sögu John Fowles.

Mörg verk Pinters hafa verið flutt á sviði hér á landi, nú síðast Svik, sem sýnt var á Akureyri og í Borgarleikhúsinu fyrr á þessu ári.