Þrjár sýningar verða á einleiknum Skjaldbakan á Hólmavík í júlí og ein á einleikjahátíðinni Act alone á Ísafirði í ágúst. Skjaldbakan er gamansamur einleikur leikinn af Smára Gunnarssyni og saminn í samstarfi við leikstjórann Árna Grétar Jóhannsson. Verkið er byggt á þeim stóratburði þegar risaskjaldbaka kom að landi á Hólmavík árið 1963. Verkið var frumsýnt 1. júlí á Hólmavík.

Þetta var fyrsta sinn sem Leðurskjaldbaka, stærsta skjaldbökutegund sem til er, finnst svo norðarlega en þær búa yfirleitt sunnan við miðbaug. Skjaldbakan sem kom að landi var 2 metrar að lengd og 360 kg, og í kjölfar hófst mikið fjölmiðlafár… enginn atburður fyrr né síðar hefur komið Hólmavík jafn rækilega á kortið. Næsta víst er að sýningin um Skjaldbökuna mun gera slíkt hið sama og koma hennar 1963, vekji umtal og hrifningu þeirra sem fá að berja hana augum. Frumsýningargestir voru hæstánægðir með atburðinn sem var sagður bæði stórfyndinn og fallegur.

Ungur maður kynnist veiðimanninum og þótt þeir fari í sitt hvora áttina þá eru á milli þeirra órjúfanleg tengsl. Veiðimaðurinn tekur loforð af hinum unga manni að passa upp á bát fyrir sig þegar hann flytur frá þorpinu. Þegar báturinn dúkkar upp aftur mörgum árum seinna og minningar um veiðimanninn og skjaldbökuna sem hann dró að landi streyma fram þá koma fram leyndir draumar hins unga manns um veiðimennsku, sjómennsku og almenna karlmennsku. Allt kristallast þetta auðvitað í einu merkasta afreki veiðimannsins, skjaldböku ævintýrinu.

Verkið verður sýnt í Bragganum á Hólmavík:
Föstudag 8. júlí 20.00
Föstudag 15. júlí 20.00
Föstudag 22. júlí 22.00

og á Act Alone einleikjahátíðinni á Ísafirði
Föstudag 12. Ágúst 22.00

Smári Gunnarsson útskrifaðist sem leikari frá Rose Bruford College árið 2010 og Árni Grétar Jóhannsson sem leikstjóri frá sama skóla, en þetta er fyrsta sinn sem þeir leiða hesta sína saman. Leikfélag Hólmavíkur er 30 ára í ár og afmælisárið er einstaklega glæsilegt en þau eru nýlokin sýningum á farsanum Með táning í tölvunni þar sem sett var aðsóknarmet. Það er ljóst að það er verið að sinna menningarþorstanum á Hólmavík af miklum hug.

Miðapantanir í síma 867-3164 eða smari.gunn@gmail.com

{mos_fb_discuss:2}