Föstudaginn 4. nóvember kl. 20:00 frumsýnir Borgarleikhúsið á litla sviðinu Brot úr hjónabandi eftir Ingmar Bergman. Ólafur Egill Egilsson leikstýrir þeim Unni Ösp Stefánsdóttur og Birni Thors. Barði Jóhannsson semur nýja tónlist við verkið. Uppselt er nú þegar á 17 sýningar og ekki verður hægt að bæta við aukasýningum.
Jóhann og Maríanna hafa verið gift í tíu ár. Þeim gengur vel, hafa náð langt í starfi, eiga tvö börn og hjónaband þeirra virðist endalaus hamingja. Þangað til Jóhann tilkynnir Maríönnu að hann vilji skilja. Við tekur hressandi kvöldstund þar sem allt er gert upp: Hjónabandið, sambandið, vináttan, kynlífið, draumarnir, gleðin, sorgin, vonin og frelsið – og öll uppáhaldslögin.
Verkið byggir á tíu þátta sjónvarpsseríu Ingmars Bergman sem sýnd var í sænska sjónvarpinu árið 1973 við svo miklar vinsældir að götur Svíþjóðar tæmdust. Síðar voru þættirnir sýndir um allan heim. Leiksviðsútfærslan var frumsýnd í leikstjórn höfundar árið 1981 í München og hefur síðan verið sýnd í fjölda leikhúsa um allan heim.
Aðstandendur:
Höfundur: Ingmar Bergman | Þýðing: Þórdís Gísladóttir| leikstjóri: Ólafur Egill Egilsson | Leikmynd og búningar: Ilmur Stefánsdóttir| Lýsing: Kjartan Þórisson | Tónlist: Barði Jóhannsson | Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir | Hljóð: Baldvin Þór Magnússon | Leikarar: Björn Thors og Unnur Ösp Stefánsdóttir