Halaleikhópurinn: Farið e. Ingunni Láru Kristjánsdóttur
Leikstjóri: Margret Guttormsdóttir

Leikritið Farið er ísköld ádeila á bresti velferðarkerfisins. Hvernig hugmyndir yfirboðara geta stundum stangast á við eiginlegar þarfir mannfólks sem minna má sín. Farið er samið af Ingunni Láru Kristjánsdóttur og leikstýrt af Margreti Guttormsdóttur. Það er sett upp af Halaleikhópnum og sýnt í Halanum, sem er staðsettur í Hátúni 12. Þetta er frumflutningur á verkinu og er þessi ritdómur um frumsýninguna.

Verkið gerist í geimfari. Nánar tiltekið er þetta stór steypuklumpur á mörgum hæðum, þar sem farþegum er falið það verk að komast upp á efstu hæð. Hversu hátt, eða í hvaða átt skal halda er með öllu órætt. Allir hafa sinn farangur sem ekki er hægt að skilja við og enginn veit hvernig hægt er að komast á leiðarenda.

Texti verksins er fullur af tengingum við þær aðstæður sem fatlaðir einstaklingar búa við í samfélaginu. Að sama skapi koma viðhorf þjónustuaðila þeirra bersýnilega í ljós. Þó tilætlun þeirra sé oft góð, þá geta viðhorf þeirra stangast á við þarfir þeirra sem þjónustuna hljóta. Hver persóna er skýr og hefur tilgang í verkinu og leikurum gekk ágætlega að ljá þeim rödd sína. Sigurður Örn Pétursson í hlutverki Herðar og Guðný Ósk Árdal sem lék Þjálfarann voru áberandi í verkinu, orkumikil og hávær, það var gaman af þeim. Stundum mátti samt hemja orkuna örlítið, svona til að gefa persónum meiri fjölbreytni. Flestar persónur voru viðhafnarmiklar og táknrænar. Virtust margar þeirra frekar vera myndlíking á hugmynd eða almennum skoðunum frekar en trúverðugar persónur. Sem dæmi var Hver, sem er listalega leikinn af Kristinni Sveini Axelssyni, tákn um þær hugmyndir sem lagt er upp með þegar innviðir velferðakerfisins eru þróaðir. Björn, sem var leikinn af Alexander Inga Arnarsonar, skar sig þó úr þessum hópi. Björn var einlægari í túlkun Alexanders en aðrar persónur verksins og skapaði það skemmtilega andstæðu við háfleyga og táknræna þráðinn sem einkenndi aðra.

Leikstjóri verksins hefur haft vandasamt verk fyrir höndum. Helst það að finna lausn á örum skiptingum á milli atriða í verkinu, því mikið var flakkað á milli hæða í farinu. Lausnin var argur og óræður vinnumaður sem færði hluti á rétta staði, og gaf þar með þá hugmynd að nýtt rými hefði myndast. Þetta var skemmtileg lausn og var látbragð vinnumanns, eða sviðsmanns, oft á tíðum skoplegt. Satt best að segja kom það á óvart að sviðsmaðurinn, hann Snorri Emilsson, hefði ekki verið talinn upp meðal leikara í leikskrá heldur með öðrum sem komu að sýningunni. En eins skemmtileg og þessi lausn var, þá tók hún of langan tíma og sleit að einhverju leyti verkið úr samhengi. Þetta átti sérstaklega við í seinni hluta verksins, þar sem þörf var á að auka hraðann, eða þéttleikann, til að halda boltanum á lofti, eða verkinu lifandi. Myndi það þjóna verkinu betur ef skiptingar gengu hraðar fyrir sig, þó svo að hlutverk Snorra yrði minna. Gekk Margréti leikstjóra samt prýðisvel að skerpa á hlutverki hverrar persónu í verkinu, enda hafði hún góðan texta í höndunum til að vinna úr. Það var aldrei vafi á valdastöðu persóna og úrlausn á praktískum vandamálum voru vel leyst. Til að mynda er ekki sjálfgefið að finna persónu stað á sviði, ef hún hefur engan búk, svo vel til takist.

Búningar voru notaðir til að skerpa á og hjálpa til við að sýna einfaldari persónur í sínu rétta ljósi. Til að mynda var dómari í dómarabúning, geimfari í geimfarabúning og geðveikt hressi þjálfarinn löðrandi í spandex. Leikmynd var einföld og fábrotin, átti það vel við stíl verksins, sem var að miklu leyti óhlutbundinn. Leikmynd var einungis í samhengi við það hlutverk sem hún hafði í verkinu og það sem ekki ekki hafði tilgang sást ekki á sviðinu. Þetta átti líka við um leikmuni. Hljóðmynd og ljósahönnun var ágæt að mestu leyti en örar skiptingar á milli atriða gengu ekki hnökralaust fyrir sig. Ljósamenn eru samt fljótir að slétta úr sínum nöbbum og láta ljós sitt skína í seinni sýningum, á það eflaust við í þessu verki líka.
Í heildina var upplifun áhorfenda misjöfn. Tenging við áhorfendur virtist vera góð í fyrstu en eftir því sem leið á verkið þá var erfiðara að samsama við verkið. Kannski var ástæðan hökt í flæði verksins, hvort sem það voru hæg skipti á milli atriða er ekki hægt að segja með vissu. Það vantaði einfaldlega aðeins upp á að verkið myndi halda athygli áhorfenda allan tímann.

Samt er þetta gimsteinn í íslenskum áhugaleikhúsum. Þó það þurfi kannski að slípa hann aðeins til þá er kjarni í Farinu sem vekur mann til umhugsunar. Maður fer að velta fyrir sér hvað einstaklingar sem ekki er ná að púsla sér saman við þá kassa sem samfélagið setur þeim, þurfa í raun á að halda. Verkið varpar líka ljósi á þá misskildu góðmennsku sem starfsmenn velferðakerfisins ala stundum í brjósti sér. Maður gengur ekki út hugsandi um hnökrana, heldur rýnir maður inn í sitt sálartetur og leitar að leiðum til að bæta sitt viðhorf gagnvart notendum velferðakerfisins. Hversu göfug er tilraun manns til að hjálpa öðrum, þegar allt kemur til alls. Er maður að hlusta á þá sem hjálpina þurfa, eða sínar eigin réttlætingar á gjörðum sínum. Eða er lausnin á öllum vandamálum þjóðfélagsþegnum bara að klæða sig í leikskólalituðan spandex og hreyfa sig smá?

Farið í flutningi Halaleikhópsins býður upp á þetta samtal. Hvort sem það er við mann sjálfan eða í næsta matarboði. Þeir sem vilja taka þátt í því samtali ættu að líta við, leggja bossann við sæti og horfa á Farið.

Hörður S. Dan.