Halaleikhópurinn hefur unnið hörðum höndum síðustu vikur við að setja upp nýtt íslenskt leikverk, Farið eftir Ingunni Láru Kristjánsdóttur í leikstjórn Margrétar Guttormsdóttur. Frumsýnt verður fös. 4. nóv. kl. 20.00.

Verkið var sérstaklega samið fyrir leikhópinn í kjölfar samtals milli höfundar og félaga og byggir það á reynslu og skoðunum þeirra. Farið er pólitískt leikrit sem gerist um borð í 100 hæða, steinsteyptu geimskipi á ferð um geiminn. Farþegar eiga þar í samskiptum við kerfið um borð og mæta örlögum sínum þegar þeir rekast í horn og passa ekki inn í réttu rammana. Áhorfendur mega búast við sótsvartri háðsádeilu á þá þrautagöngu sem margir notendur velferðarkerfisins upplifa.

Ingunni hefur tekist vel að ljá sögunum rödd í ólíklegustu persónum. Meðal þeirra eru búklausir, fólk sem heyrir raddir, fólk í fjötrum og með þungar byrðar. Í farteskinu er allt þetta venjulega, gamlar ástarsorgir, biturð, hatur og þráhyggja, draumar og þrá eftir viðurkenningu, jafnvel frægð.

Um leikstjórann
Margrét Guttormsdóttir er leikhópnum að góðu kunn. Hún hefur leikið í tveimur uppfærslum, verið aðstoðarleikstjóri og setið í stjórn félagsins. Hún lauk BA námi í leiklistarfræðum frá Washington háskóla í Seattle. Við heimkomuna leikstýrði hún meðal annars skóla- og áhugasýningum, starfaði með Eggleikhúsinu og ýmislegt fleira leiklistartengt. Lengst af kenndi hún leiklist við MH.

Um höfundinn
Ingunn Lára Kristjánsdóttir er leikskáld sem útskrifaðist frá Rose Bruford College of Theatre and Performance árið 2014. Hún skrifaði og leikstýrði sýningu á Edinburgh Fringe leiklistarhátíðinni í ágúst á þessu ári. Fyrr á árinu vann hún með Aequitas Collective, óperu-leikfélagi frá Manchester, þar sem hún skrifaði og leikstýrði óperu um samfélagsmiðilinn Twitter með leikskáldinu Michael Betteridge. Þar á undan skrifaði hún Toward the Unknown, leikrit um tungllendinguna, sem var sett á svið í London Theatre Workshop með enska leikfélaginu Old Sole Theatre Company. Hún stundar meistaranám í Ritlist við Háskóla Íslands.

Miðasala í síma 897 5007 á tix.is og midi@halaleikhopurinn.is.
Miðaverð 2500 kr. 20% afsláttur fyrir lífeyrisþega.

Sýningartímar eru sem hér segir:
Frumsýning föstud. 4. nóv. kl. 20.00
Sunnudag 6. nóv. kl. 17.00
Laugardag 12. nóv kl. 20.00
Sunnudag 13. nóv kl. 17.00
Laugardag 19. nóv kl. 17.00

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á halaleikhopurinn.is
Sýnt er í Halanum í Hátúni 12, 105 Reykjavík gengið inn að norðanverðu austurinngangur.