Hálf öld að baki
Bjarni Guðmarsson sagnfræðingur hefur setið sveittur við að rita sögu BÍL í tilefni af 50 ára afmæli samtakanna árið 2000. Hann gefur okkur forsmekk að því sem koma skal í skemmtilegum útdrætti. Hálf öld að baki og alltaf batnar það! BÍL 1950-2000 í fáum dráttum Íslensk leiklist í þeirri mynd sem við þekkjum nú á sér ekki ýkja langa sögu. Þó má segja að á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. hafi myndast nokkur vísir að skipulegu leiklífi úti um land. Allt var það í höndum áhugamanna, venjulegt fólk lagði frá sér verkfæri sinna daglegu starfa og gekk leiklistargyðjunni á hönd. Eftir aldamótin 1900 vaknaði áhugi manna á að koma á fót ríkisreknu atvinnuleikhúsi í Reykjavík. Það varð að veruleika innan skamms og var Þjóðleikhúsið vígt árið 1950. Með því opnuðust ýmsar leiðir fyrir áhugaleikfélögin úti um landið og önnur þau félög sem höfðu leiklist á sinni könnu. Í lögum um leikhúsið frá 1947 var ma. ákvæði um að því bæri að vinna að eflingu leiklistar um allt land. Þá munaði ekki minna um að nú var kominn fram allnokkur hópur skólagenginna leikara, sem veitt gat félögunum mikinn stuðning í viðleitni þeirra til að leika.Um þessar mundir hafði verið lyft grettistaki í byggingu samkomuhúsa á Íslandi. Með lögum árið 1947 var félagasamtökum sem vildu ráðast í byggingu félagsheimila léttur róðurinn. Í kjölfarið tóku félagsheimili að rísa...
Sjá meira