Hugleikur hefur nú um nokkurra ára skeið staðið fyrir einþáttunga- og stuttverkasýningum undir nafninu “Þetta mánaðarlega”. Þarna hefur fjöldi höfunda, leikara og leikstjóra úr félaginu fengið tækifæri til að spreyta sig á styttri verkum sem bera littla eða enga fjárhagslega áhættu. Þarna er hægt að taka áhættu í verkefnum, leikurum og leikstjórn. Þrátt fyrir það hafa gæði þessara mánaðarlegu stuttverkasýninga verið ansi góð eða allavega sem ég hef séð og það á líka við um dagskrána sem ég sá í Kaffileikhúsinu síðastliðinn sunnudag.

Áður en ég byrja að fjalla um hvert og eitt verk þá langar mig aðeins að pirra mig á umgjörð dagskrárinnar. Kaffileikhúsið er afar óhentugt til leiksýninga og margir áhorfenda sjá lítið eða ekkert á svið. Þetta á eiginlega við allar leiksýningar og dagskrár sem ég hef séð þarna og á ekki aðeins við um sýningar Hugleiks. Vegna lítillar lofthæðar er nær ómögulegt að lýsa almennilega og hljómburður er ekki góður. Það eina sem Kaffileikhúsið hefur með sér er afar góður andi sem er fínn ef maður situr þar og sötrar bjór í góðra vina hópi. En það að fjöldi leikhópa í Reykjavík skuli sýna í þessu plássi sýnir aðstöðuleysið í borginni fyrir uppákomur að þessari stærð.

En aftur að sýningunni. Hugleikur bar nú á borð 6 einþáttunga eða stuttverk eftir jafnmarga höfunda og þar af voru tveir höfundanna að stíga sín fyrstu skref.

Fyrsta verkið á dagskránni var Án mín eftir Jónínu Óskarsdóttur, sem ég hef ekki séð til áður hjá Hugleik. Þarna var á ferðinni einleikur konu sem er að velta fyrir sér lífsleiðinni og nöldra í kallinum sínum í leiðinni. Skondin texti og lipurlega skrifaður á köflum en vantaði að ná einhverjum hæðum eða endapunkti og var þar af leiðandi ekki mjög eftirminnilegur. Sem fyrsta verk (allavega hjá Hugleik) lofar þetta góðu hjá Jónínu og það verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni. Leikstjórnin hjá Unni Guttorms var mjög góð og hún slapp alveg með að bæta kallinum inn í þennan einleik enda var Rúnar Lund afar skemmtilegur og undurfurðulegur. Jónína Björgvinsdóttir fór einnig vel með sitt hlutverk. Þarna var líka lögð natni í leikmynd og búninga sem skilaði sér vel.

Um næsta verk Af hverju láta fuglarnir svona eftir Ylfu Mist Helgadóttur hef ég skrifað áður en ég sá það í vor í Svarfaðardal. Ég hef engu að bæta við þá umsögn nema að þegar koma saman snilldarmelódrama, góð leikstjórn og leikur þá grenjar maður sama hvað maður er mikill harðjaxl.

Guðmundur eftir Hrefnu Friðriksdóttur var síðast á dagskrá fyrir hlé. Þetta er vel skrifaður þáttur um einn allsherjarmiskilning og síðan smá ástarævintýri. Ég veit ekki hvort að það var sviðsetningin eða verkið en mér fannst eins ég væri að horfa á tvö verk. Annað fyrir uppgötvun miskilnings og hitt eftir. Spurning hvort að seinni hlutanum var ekki ofaukið. Ýkjukenndur leikstíll þeirra Silju Huldudóttur og Sigurðar Pálssonar hefði mátt vera á hóflegri nótum og heldur þótti mér sviðsetning Rúnars Lund vera fátækleg. Spurning hvort að sviðsmynd og markvissari búningar hefðu verið til bóta.

Eftir hlé var sýndur þátturinn Leit eftir Júlíu Hannam. Það var gaman að sjá hvað Júlía hefur tekið miklum framförum sem höfundur frá því í fyrra og þetta var skemmtilegur og vel uppbyggður þáttur um heimsókn ungrar stúlku á elliheimili. Fín leikstjórn hjá Unni Guttormsdóttur og karlarnir Ragnar E. Ólafsson, Hjalti S. Kristjánsson og Sigurður Pálsson voru stórskemmtilegir og helvíti gamlir. Elísabet Indra Ragnarsdóttir hefði mátt setja meiri kraft í ungu stúlkuna og gæða hana þar með meira lífi.

Dagurinn í gær eftir Hildi Þórðardóttur var tvímælalaust eftirminnilegasti þáttur sýningarinnar á sunnudaginn og á eftir að sitja í manni lengi. Þetta litla samtal geðsjúkrar konu og geðlæknis er afar vel skrifað og hnitmiðað í uppbyggingu. Leikur þeirra Júlíu Hannam og Guðrúnu Láru Pálmadóttur var einstaklega fallegur þar sem hin stóíska ró og hluttekning geðlæknisins sem var leikin af Júlíu var alger andstæða manískra hæða og lægða hugsjúku konunnar sem Guðrún Lára leikur af mikilli næmni. Leikstjórn Rúnars Lund var einnig mjög góð og hraði og taktbreytingar hárréttar. Naumhyggja Rúnars í leikmynd hentaði líka þessu verki afar vel. Bravó.

Síðasta verkið á dagskránni var Á uppleið eftir Þórarin Stefánsson sem þarna er að setja á svið sitt fyrsta verk (að mér skilst). Þetta er skondin og absúrd þáttur um fólk sem festist í lyftu (ekki kannski það allra frumlegasta). En þetta eru skondnir karakterar og samskiptin varða fljótlega sálarheill þeirra. Það má segja það sama og um þátt Jónínu að ég hefði viljað sjá meiri átök í textanum og skýrari endapunkt en þetta lofar góðu um framhaldið hjá þessum höfundum og Hugleikur er ríkur að eiga svona mannval. Leikstjórnin var hnitmiðuð í þættinum og persónur skýrt markaðar. Ég vil þó setja spurningarmerki við að gera persónu Þórunnar Guðmundsdóttur að trukkalessu. Mér fannst það ekki alveg vera að gera sig. Og svo var Fríða Bonnie náttúrlega óborganleg með sín stóru augu.

Í heildina var þetta hin fínasta kvöldskemmtun hjá Hugleik og án efa sér maður einhverja af þessum þáttum á einþáttungahátíðinni „Margt smátt“ í Borgarleikhúsinu síðar í mánuðinum.

Og maður getur ekki sleppt stjörnunum í þessari umsögn og í þetta skiptið eru þær 2 og hálf.

Lárus Vilhjálmsson