Ópera Vestfjarða vinnur nú að uppsetningu hinnar bráðskemmtilegu og ævintýralegu barnaóperu Litli sótarinn. Óperan er eftir Benjamin Britten og er í snilldarþýðingu Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar. Í stuttu máli fjallar Litli sótarinn um piltinn Bjart. Sökum fátæktar verða foreldrar hans að selja hann frá sér. Kaupandinn er hinn illkvittni sótari Surtur. Þegar svo sótarinn smái festist í einum reykháfnum taka leikar heldur betur að æsast.

Ópera Vestfjarða leitar nú til söngvara á ýmsum aldri, barna jafnt sem fullorðinna til að taka þátt í Litla sótaranum. Til að allir fái að njóta sín sem best hefur verið ákveðið að standa fyrir sérstökum áheyrnarprufum í söng og leik. Prufurnar verða haldnar 31. október kl. 17 í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar. Ef einhver vill syngja sérstakt lag í prufunni þá endilega komið með nótur með ykkur.

Allir velkomnir alveg frá 6 ára til 106 ára. Nánari upplýsingar um prufurnar veitir Sigrún Pálmadóttir, óperusöngkona, sem jafnframt verður söngstjóri sýningarinnar en leikstjóri er Elfar Logi Hannesson. Upplýsingasíminn er 845 2171.

Æfingar fara síðan að mestu fram í upphafi nýs árs en þó verða nokkrar æfingar í nóvember. Stefnt er að því að frumsýna Litla sótarann í byrjun febrúar 2017.

Ópera Vestfjarða er nýjung í hinu fjölbreytta listalífi Vestfjarða. Á síðasta ári var fyrsta verkefni hinnar vestfirsku óperu frumsýnt. Það var óperettueinleikur um vestfirsku söng- og leikkonuna Sigrúnu Magnúsdóttur frá Ísafirði. Sýnt var í Hömrum við frábærar viðtökur og aðsókn. Það var Sigrún Pálmadóttir sem brá sér í hlutverk nöfnu sinnar en höfundur og leikstjóri var Elfar Logi Hannesson. Þau eiga jafnframt sæti í stjórn Óperu Vestfjarða ásamt þeim Ingunni Ósk Sturludóttur og Sigríði Ragnarsdóttur. Öllum er frjálst að gerast félagi í óperunni en árgjaldið er aðeins 5.000.- kr.

Uppbyggingasjóður Vestfjarða styrkir Litla sótarann.