ImageHin umtalaða leiksýning Forðist okkur eftir Hugleik Dagsson verður tekin til sýningar að nýju á Litla sviði Borgarleikhússins í mars. Sýningin fékk afar góðar viðtökur í haust jafnt hjá gagnrýnendum sem og almenningi og komust færri að en vildu.  Forðist okkur er samstarfsverkefni CommonNonsense og Nemendaleikhússins.  

Hugmyndaheimur verksins er sprottinn upp úr verkum Hugleiks myndasögubókunum Elskið okkur , Drepið okkur og Ríðið okkur. Sögur Hugleiks er skemmtilegar, kaldhæðnar, grófar, ljótar, fallegar, ósmekklegar, gróteskar og rómantískar. Það rúmast allt í þessum heimi. Hver saga lætur ekki mikið yfir sér. Ein teikning með örlittlum texta. Í einfaldleika sínum tekst Hugleik á skondinn og áhrifamikinn hátt að beina sjónum okkar að margs skonar meinsemdum í samskiptum fólks, brengluðu gildismati, brengluðu siðferði og hættulegum félagslegum doða og afskiptaleysi. Sögur hans eru eins og ljósmynd úr lífi fólks og hann lætur okkur eftir að filla upp í götin. Forðist okkur er saga um nútímamanninn í sinni nöktustu mynd.

Leikarar í sýningunni eru Birgitta Birgisdóttir, Dóra Jóhannsdóttir, Halldóra Malín Pétursdóttir, Jörundur Ragnarsson, Magnea Björk Valdimarsdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Víðir Guðmundsson, Valur Freyr Einarsson og Aðalheiður Halldórsdóttir

Leikstjórar eru  Stefán Jónsson og Ólöf Ingólfsdóttir, Ilmur Stefánsdóttir hannaði leikmynd, tónlist og hljóðmynd gerði Davíð Þór Jónsson, lýsing  hannaði Egill Ingibergsson,  búninga hönnuðu Rannveig Kristjánsdóttir og Elsa María Blöndal.

Aðeins er unnt að sýna 10 sýningar. Miðasala er hafin hjá miðasölu Borgarleikhússins í síma 568 8000.