Pörupiltar eru í útrás og verða með uppistandið sitt Homo Erectus í Pop Up Art House leikhúsinu, Diana scene í Finnlandi þriðjudaginn 4. júní nk. kl. 19.00. Uppistandið verður lokasýningin á leiklistarhátíð sem leikhópurinn Blaue Frau stendur fyrir. Það eru leikkonurnar Alexía Björg Jóhannesdóttir, María Pálsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir sem eru konurnar á bak við Pörupilta.

Pörupiltarnir Nonni, Dóri og Hemmi hafa verið að trylla lýðinn í Þjóðleikhúskjallaranum sl. tvö ár með Homo Erectus uppistandi sínu ásamt því að skrifa kvikmyndahandrit og vaska upp svart í frístundum. Þeir stefna á heimsfrægð, enda leika þeir uppistandið á ensku í Finnlandi. Þeir eru þó ekki alveg tilbúnir að yfirgefa klakann þar sem strákarnir eru einnig með nýtt uppistand í pokahorninu – Blómin og býflugurnar – sem sýnt verður í ónefndu leikhúsi á Íslandi nk. haust.