Leiklistarsamband Íslands hefur ávallt fengið íslenskan leikhúslistamann til að semja sérstakt ávarp í tilefni Alþjóða leiklistardagsins. Hefur sú hefð skapast að það hafi verið flutt af höfundi í útvarpi þann dag, sem og af stóra sviði Þjóðleikhússins fyrir sýningu. Þá hafa leikhúslistamenn um allt land stigið fram fyrir tjald leikhúsa sinna og flutt ávarpið íslenska þetta kvöld. Ávarpið semur að þessu sinni Sigrún Edda Björnsdóttir leikkona.

Frá árinu 1962 hefur Alþjóða leiklistardagurinn verið haldinn hátíðlegur um allan heim. Þá hefur heimskunnur leikhúslistamaður verið fenginn til að semja ávarp í tilefni dagsins af Alþjóða leiklistarstofnuninni, ITI, sem hefur aðsetur í Unesco-byggingunni í París. Að þessu sinni er það brasilíski leikhúslistamaðurinn Augusto Boal sem semur alþjóðaávarpið í tilefni dagsins.

 

Ágætu leikhúsunnendur.

Hvers vegna viljum við hafa leikhús? Þetta furðulega fyrirbæri sem þó hefur fylgt manninum frá ómunatíð. Í dag, þann 27. mars er Alþjóða leiklistardagurinn. Hann er haldinn hátíðlegur um heim allan í þeim tilgangi að vekja athygli á leiklistinni og mikilvægi hennar í mannlegu samfélagi. Því er vert að staldra við og velta ofangreindri spurningu fyrir sér.

Það fallegasta sem sagt hefur verið um leiklistina og hægt er að taka undir af heilum hug er að löngun mannsins til að leika, sé sprottin af þörf hans til tengjast því sem býr innra með öllum mönnum, þessu innra ljósi sem við búum öll yfir og finnum svo sterkt fyrir. Það er vegna þessarar tengingar, þessarar samkenndar sem við getum skapað nýjan veruleika. Veruleika leikhússins. Fátt er eins dýrmætt fyrir leikara og að finna þessa tengingu og taka þátt í leiksýningu sem á erindi við áhorfandann og hreyfir við honum, hvort sem er í gleði eða sorg. Við mannfólkið erum þelið sem draumar spinnast úr, þessir dýrmætu draumar sem eru eins og gullþráður í því margbrotna mynstri sem tilvist okkar mótast af. Þessi þráður kemur fram í skáldskapnum, myndmálinu, tónlistinni og hreyfingunni. Ekkert er leiklistinni óviðkomandi. Hún á að endurspegla tilvist okkar, sameina upplifun okkar og stuðla að samkennd og skilningi meðal manna.

Í viðleitni sinni til að tjá og spegla veruleikann leitar leiklistin að mismunandi formum. Þess vegna er engin ein tegund leiklistar mikilvægari en önnur.

Til er gamanleikur, harmleikur, grímuleikur, látbragðsleikur, brúðuleikur, einleikur, trúðleikur. Götuleikhús, kaffileikhús, pólitískt leikhús, stofuleikhús, barnaleikhús, vasaleikhús, útileikhús, skuggaleikhús, lítið leikhús, stórt leikhús, útvarpsleikhús, meira að segja ósýnilegt leikhús. Og áhorfendur hafa dregist að leikhúsinu í gegnum aldirnar, alveg eins og þið gerið hér í kvöld. Hvers vegna? Jú, við viljum verða fyrir áhrifum. Við viljum hlæja saman, gráta saman, láta hreyfa við hugsunum okkar og hugmyndum. Og í síbreytilegum heimi þar sem hugmyndafræði og áherslur geta kollsteypst á einni nóttu, eins og við þekkjum svo vel einmitt nú, á leikhúsið brýnt erindi. Það er ekki síst á þannig tímum sem við höfum þörf fyrir leikhús og því ber leikhúsið mikla ábyrgð. Leiklist breytir kannski ekki heiminum en við getum öll verið sammála um að í leikhúsi búi leyndur sannleikur sem hjálpar okkur í þeirri viðleitni að skilja líf okkar og viljann til að búa til betri heim.

Sigrún Edda Björnsdóttir.


augusto_boal.jpgAugusto Boal:
Ávarp á alþjóða leiklistardaginn 27. mars 2009

Allt mannlegt samfélag er sýning og við ákveðin tækifæri býr þetta samfélag til sýningar. Það er sýning í sjálfri samfélagsgerð sinni og býr til sýningar eins og þá sem þú ætlar að sjá hér í kvöld.

Jafnvel þótt við komum ekki auga á það, þá eru mannleg samskipti byggð upp eins og í (leik)sýningu. Rýmisnotkun, líkamstjáning, orðaval og tónfall, framsetning hugsana og tilfinninga – allt sem við höfumst að á leiksviðinu, gerum við jafnframt í daglegu lífi: Allt er leiksvið.

Brúðkaup og jarðarfarir eru sýningar, en einnig hversdagslegir siðir sem við þekkjum svo vel, að við áttum okkur ekki á því að þeir eru sýningar. Stórar hátíðarsamkomur eru sýningar og athafnir okkar við morgunverðinn eru það einnig. Að skiptast á kveðjum, óframfærin og varfærnisleg fæðing ástarinnar, eldheitar orrustur tilfinninganna, fundir Alþingis og samkomur stjórnarerindreka, – allt eru þetta sýningar.

Eitt höfuðhlutverk listar okkar er að benda á hinar hversdagslegu sýningar þar sem leikararnir eru jafnframt eigin áhorfendur, þar sem leiksvið og áhorfendasalur eru eitt. Öll erum við leikarar. Með því að leika lærum við að sjá það sem blasir við okkur hvern einasta dag  en sjáum samt ekki þar sem við erum ekki vön að skoða það.  Allt sem við þekkjum svo vel verður ósýnilegt  – en að leika er að varpa ljósi á  sviðið sem er okkar daglega líf.

Í september síðast liðnum urðum við óvænt vitni að leikrænni opinberun: Við sem héldum að við byggjum í tryggum heimi, þrátt fyrir stríð og þjóðarmorð, þrátt fyrir fjöldamorð og pyntingar, – í fjarlægum löndum. Okkur, sem lifðum í öryggi og vorum fullviss um að fjármunir okkar væru í öruggum höndum  virtra bankastofnana eða heiðvirðra verðbréfamiðlara, var nú sagt að þessir eignir okkar væru alls ekki lengur til, væru sýndarveruleiki, ömurlegur uppspuni einhverra viðskiptafræðinga sem hvorki voru sýndarveruleiki, áreiðanlegir né heiðvirðir.

Allt var bara léleg sýning með sorglegum söguþræði, þar sem nokkrir græddu mikið og margir töpuðu öllu. Stjórnmálamenn ríku landanna funduðu fyrir luktum dyrum og komu með töfralausnir. Og við, fórnarlömb ákvarðana þeirra, sitjum enn á aftasta bekk áhorfendasalarins.

Fyrir tuttugu árum síðan setti ég „Fedru“ eftir Jean Racine á svið í Ríó de Janeiró. Sviðsmyndin var fátækleg: Kálfskinn á gólfi og bambus allt um kring. Fyrir hverja sýningu sagði ég við leikarana: „Sögunni sem við höfum skáldað frá degi til dags lýkur þegar þið gangið inn fyrir bambusvegginn, inn á sviðið, og þá hefur ekkert ykkar leyfi til að ljúga. Sýningin er hinn faldi sannleikur.“

Þegar við virðum heiminn fyrir okkur handan við það sem við höfum fyrir augum okkar, sjáum við kúgara og hina kúguðu, alls staðar, í öllum samfélögum, hjá öllum þjóðflokkum, í öllum þjóðfélagsstéttum og hópum. Við sjáum óréttlátan og grimman heim.  Við verðum að búa til annan heim, vegna þess að við vitum að hann er hugsanlegur. Það er undir okkur komið að byggja af eigin rammleik upp slíkan heim með því að ganga á svið, bæði á svið leikhússins og lífsins.

Takið þátt í sýningunni sem nú er að hefjast og þegar þið komið heim til ykkar leikið þá með vinum ykkar eigin leikrit og skoðið það sem þið gátuð aldrei áður séð: Það sem er augljóst. Leikhús er ekki einungis viðburður, það er lífsmáti
Við erum öll leikarar. Að vera þegn er ekki einungis að búa í samfélagi.  Þegn er sá sem breytir því!

Þýðandi Hafliði Arngrímsson.


Augusto Boal er fæddur í Rio de Janeiro í Brasilíu 1931. Hann starfar sem leiks
tjóri, leikskáld og leikhúshugsuður og er einn fremsti leikhúsfrömuður heims. Hann þróaði leiklistaraðferðir á fimmta áratug síðustu aldar sem hann nefndi „Leikhús hinna kúguðu“ og breiddist út um alla latnesku Ameríku. Síðar þróaði hann „Ósýnilega leikhúsið“ og loks „Löggjafarleikhúsið“.  Hann var tilnefndur til Friðarverðlauna Nóbels 2008.