Það verður úr nógu að velja fyrir þá sem hyggjast dvelja í höfuðstað Norðurlands núna um páskana en Leikfélag Akureyrir býður uppá 4 sýningar yfir hátíðirnar. Þetta eru Fúlar á móti með þeim Eddu Björgvins, Helgu Brögu og Björk Jakobs sem slegið hefur rækilega í gegn, Tenórinn, sem saminn og fluttur er af Guðmundi Ólafssyni, Skoppa og Skrítla fyrir yngstu börnin og svo Þjónn í súpunni sem sýnt er í samvinnu við veitingahúsið Friðrik V.
Edda Björgvins, Helga Braga og Björk Jakobs eru Fúlar á móti í nýju skítfyndnu, frístandandi uppistandi í íslenskri útfærslu Gísla Rúnars Jónssonar. Þetta er í fyrsta skipti sem þessar vinsælustu uppistandsleikkonur þjóðarinnar stíga saman á stokk. Þær skauta af sinni alkunnu snilld í gegnum síðara skeiðið og gera óspart grín að sjálfum sér og öðrum. Nú fá karlmenn loksins að vita hvers vegna eiginkonur, systur og mæður þeirra eru eins og þær eru. Þetta er einstakt tækifæri til að skyggnast inn í hugarheim Fúlla á móti.
Hvað gerist þegar þessar fögru en viðsjárverðu dömur tipla saman um sviðið? Kviknar í þeim? Bíta þær áhorfendur? Allt sem þið vitið ekki um konurnar í lífi ykkar! Höfundar eru Jenny Eclair og Judith Holder og Leikstjóri María Sigurðardóttir
LA í samstarfi við Guðmund Ólafsson, leikara og tenór, buðu upp á Tenórinn 14. mars sl. Gríðarleg stemmning var á sýningunni og var Tenórnum og Undirleikaranum fagnað lengi og innilega í lok sýningar. Húsfyllir var og komust færri að en vildu og því hafa LA og Guðmundur ákveðið að endurtaka leikinn og sýna Tenórinn einu sinni um páskana. Sýningin verður á föstudaginn 10. apríl, föstudaginn langa kl. 20.00 í Samkomuhúsinu.
Í Tenórnum er sagt frá tenórsöngvara sem hefur verið langdvölum í útlöndum en er nú kominn heim í stuttan stans og notar tækifærið til að halda tónleika. Leikritið gerist á tæpum tveimur klukkutímum í búningsherbergi ónefnds tónlistarhúss þar sem söngvarinn og undirleikari hans eru að undirbúa sig fyrir tónleikana. Upphitun þeirra og undirbúningur taka á sig undarlegustu króka bæði til fortíðar og framtíðar og kemur ýmislegt í ljós þegar skyggnst er ofaní sálarkirnu söngvarans ekki síður en í ferðatösku hans.
Þær Skoppa og Skrítla eru norðlenskum börnum að góðu kunnar. Nú hefur LA boðið þeim í heimsókn um páskana og þær verða með sýningar í Rýminu frá og með 9. apríl. Þessi nýja sýning heitir Skoppa og Skrítla í Söng-leik, og með sér hafa þær fengið liðsauka en nokkrir dansarar héðan af Akureyri taka þátt. Í sýningunni er ferðast um öll heimsins höf og margar kunnar persónur heimsóttar, eins og Frelisstyttan í New York, Englandsdrottning og sjálfur Shakespeare. Sýningin er hugsuð fyrir yngsta leikhúsáhugafólkið sem er enn að æfa sig að sitja í leikhúsi, eða á aldrinum 9 mánaða til 6 ára.
Höfundur er Hrefna Hallgrímsdóttir, leikstjóri Þórhallur Sigurðsson, tónlist sér Hallur Ingólfsson um og búninga gerir Katrín Þorvaldsdóttir. Lýsingu hannar Ásmundur Karlsson og þær Skoppa og Skrítla eru Linda Ásgeirsdóttir og Hrefna Hallgrímsdóttir. Sýningin verður sýnd í Rýminu á skírdag og laugardaginn fyrir páskadag. Miðaverð er aðeins 1.500 kr.
LA í samstarfi við Friðrik V hefur í vetur boðið upp á 3ja rétta máltíð og "óhefðbundna þjónustu" á veitingahúsinu Friðrik V. Þetta er uppákoma sem byggir á spuna og stemmningu og aldrei að vita hvað gerist – og engin tvö kvöld eru eins. Óhætt er að segja að bæjarbúar og nærsveitamenn hafi tekið uppátækinu afar vel, því uppselt hefur verið á flest kvöldin og oft myndast biðlisti eftir borðum. Stemmningin á þessum kvöldum er með eindæmum skemmtileg, þjónarnir leika, leikararnir þjóna, allir leika á gesti og gestir leika við hvern sinn fingur! Matseðillinn er ekki af lakara taginu, enda Friðrik V þekktur fyrir dýrindis mat. Miða er hægt að panta á: fridrikv@fridrikv.is
{mos_fb_discuss:2}