Þann 5. maí sl var stuttverkahátíðin Margt smátt haldin með pompi og prakt í Borgarleikhúsinu. Eins og venja er hjá Bandalagiu voru valinkunnir leikhúsmenn fengnir til þess að fjalla um sýningar hátíðarinnar og að þessu sinni voru það Þorvaldur Þorsteinsson, leikskáld m.fl. og Þorsteinn Backmann, leikari og fyrrverandi leikhústjóri á Akureyri. Hér má sjá hvað þeim þótti um einstakar sýningar. Þann 5. maí sl var stuttverkahátíðin Margt smátt haldin með pompi og prakt í Borgarleikhúsinu. Eins og venja er hjá Bandalagiu voru valinkunnir leikhúsmenn fengnir til þess að fjalla um sýningar hátíðarinnar og að þessu sinni voru það Þorvaldur Þorsteinsson, leikskáld m.fl. og Þorsteinn Backmann, leikari og fyrrverandi leikhústjóri á Akureyri. Völdu þeir sýningu Hugleiks, Í öruggum heimi, sem bestu sýningu hátíðarinnar en tilnefndu jafnframt Hannyrðir Hugleiks og Geirþrúður svarar fyrir sig sem Leikfélag Selfoss sýndi. Hér má sjá hvað þeim þótti um einstakar sýningar en inngang ritaði Þorvaldur.
Ágætu þátttakendur í Stuttverkahátíðinni Margt smátt.
Það var mér sönn ánægja að fá að takast á við þetta verkefni sem þið voruð svo rausnarleg að treysta mér fyrir. Það kom á daginn, líkt og svo oft áður, að ég lærði mest á því sjálfur að þurfa að taka eftir því sem ég tek eftir og miðla því til annarra. Það að skila stuttum umsögnum um verkin ykkar og þó einkum að eiga við ykkur spjall á aðalfundinum í kjölfar hátíðarinnar hefur vakið mig til umhugsunar um ótal margt sem snýr að minni eigin vinnu og skilar mér endurnýjuðum krafti í því verkefni sem ég er að sinna um þessar mundir. Það er vel þegið – og kann ég ykkur bestu þakkir fyrir aðstoðina. ÞÞ
KRATAVAR
Hugleikur
Höfundur: Sigurður H. Pálsson
Leikstjóri: Sigríður Lára Sigurjónsdóttir
Leikendur: Hjörvar Pétursson og Hafdís Hansdóttir
Einföld og falleg saga sem afhjúpar inntakið smám saman. Samtöl eðlileg án óþarfa útúrdúra og áhorfendum gefið rými til að draga eigin ályktanir. Leikur var hins vegar mjög ýktur og nánast um hreina skopstælingu að ræða sem freistandi er að skrifa á reikning leikstjóra. Það samræmdist illa eðli sögunnar og einlægni textans og dró úr áhrifamætti verksins í heild. Eftir stendur þó minning um einfalt, fallegt verk sem auðvelt ætti að vera að skapa úr hreina perlu. ÞÞ
Kratavar er ágætlega skrifað verk. Lengd verksins og bygging heldur vel utan um einfalda og fallega hugmynd. En eitthvað var það í úrvinnslu verksins sem gekk ekki upp fyrir mér. Mér fannst persónurnar of dæmigerðar, sérstaklega karlmaðurinn (með buxurnar allt of hátt upp um sig o.s.frv.) Þau léku ágætlega bæði en kannski var leikstíllinn ekki alveg sá rétti. Þarna var verið Að SÝNA FREMUR EN AÐ VERA. Tilgangur hans hefði sennilega mátt leikast meir út. Þ.e. að hann léki markmið sitt, hvað svo sem það var nákvæmlega, t.d. Að sjá bros hennar. Samleikur hefði þá skerpst eitthvað og orðið meira spennandi, án þess að liggja endilega í augum uppi fyrir áhorefndum. Hugsanir og hugsanferli hefði líka skýrst fyrir vikið. Blokkeringar fínar en full tæknilegar. Hún brosti fyrr í verkinu, en maður mundi ekki eftir öðru en að leikarinn þættist ekki taka eftir því. Skemmtilegra hefði verið ef hann hefði snúið sér undan vegna ótta við að koma upp um sig gagnvart henni, heldur en að samskiptin væru leikin til áhorfenda. Annars er Kúrebíska greinilega skemmtilegt mál. ÞB
ÞAÐ ER FRÍTT AÐ TALA Í GSM HJÁ GUÐI
Leikfélag Mosfellssveitar
Höfundur: Pétur R. Pétursson
Leikstjóri: Ólafur Haraldsson
Leikari: Jóel Sæmundsson
Ágæt hugmynd í grunninn, vel afmörkuð í einfaldri umgjörð og lögn. Handritið vantar hins vegar hljómbotn þannig að áhuginn á því sem karakterinn hefur að miðla dvínar hratt í seinni hlutanum. Þetta verk vekur reyndar spurningar sem verða nokkuð áleitnar þegar hátíðin er skoðuð í heild, líkt og um hvað er verið að fjalla – hvert er erindið? Í þessu verki gæti það verið óréttlætið… dauðinn… sorgin… sambandsleysið… greddan… brandarinn… GSM síminn… Leikarinn hefur alla burði til að skila erindinu, gallinn er bara sá að höfundur virðist ekki hafa ákveðið hvert það er. ÞÞ
Mér þótti leikarinn ágætur. Sérstaklega þegar hann var á einlægu nótunum. Hann má passa sig að leika ekki niður til persónunnar og að leika ekki tilfinningarnar. Betra er í sumum tilfellum að vinna gegn textanum, þ.e. að smyrja ekki sömu tilfinningu og líkamlegu gerð og býr í textanum ofan á. En kannski var aðalvandamálið hér að verkið sjálft var hlaðið einhverri ódýrri biturð. Þó var þetta ágætis tilraun með stand-up formið sem náði að kreista fram stöku hlátur. Notkun stróps virkaði ekki sem skyldi fyrir mig. ÞB
SÚSANNA BAÐAR SIG
Leikfélag Hafnarfjarðar
Höfundur: Lárus Húnfjörð
Leikstjóri: Gunnar Björn Guðmundssson
Leikendur: Halldór Magnússon og Gunnar Björn Guðmundssson
Fannst ég staddur á árshátíð hjá ríkisstofnun. Verkið er óskrifað og leikstjórinn fjarverandi. Það er erfitt að dæma leikinn við þessar aðstæður en ég dáðist þó að leikaranum fyrir að standa með þeirri (hæpnu) ákvörðun að taka hlutverkið að sér. Hann sló hvergi af og gerði það sem hægt var til að blása lífi í leikrit sem helst mætti líkja við andvana fæddan fyrirbura. ÞÞ
Mér fannst Halldór standa ágætlega með persónu sinni. Verkið sjálft fannst mér ekki gera sig. Kannski var meining verksins að „Sú sanna“ baðaði sig í lokin, þ.e. að sú sanna væri Emmi á EX-finger, þar væri hinn sanni metnaður strípisins fólginn. Ef þetta er réttur skilningur hefði engu að síður mátt stytta verkið. Eintalið virkaði langt og innkoma Gunnars sem konunnar virtist til þess gerð að teyja lopann enn frekar. En salurinn skemmti sér, eins og var reyndar um önnur neðanbeltisverk. Kannski hefði þetta gert sig betur ef leikarinn hefði glaðst meira yfir því að fá loksins tækifæri til að strípa og algjörlega vera „sú sanna“ á sviðinu. ÞB
FRIÐARDÚFAN
Leikfélagið Sýnir
Höfundur: Unnur Guttormsdóttir
Leikstjóri: Hrund Ólafsdóttir
Leikari: Aldís Gyða Davíðsdóttir
Verkið byrjar mjög fallega og stefnir í að verða áhugavert framlag til sígildrar umræðu. Um miðbik verksins fór ég að upplifa að spurningin um hver hin eiginlega friðardúfa væri opnaði skemmtilega möguleika. Líkt og þann að það væri stúlkan sjálf, hvítklædd, barnsleg og saklaus. En í lokin er tekið fyrir allar slíka upplifanir og troðið upp á okkur einni melódramatískri niðurstöðu í mótsögn við sýnina sem lagt var upp með. Kannski hefði verið áhrifameira að halda hugmyndinni um friðardúfuna lengur opinni, þ.e.a.s. að gefa áhorfendanum meiri tíma til að skapa sína eigin mynd af því hvað um var rætt í stað þess að negla það niður með heiti leikritsins og endurtekinni notkun þess gegnum verkið allt. En eftir lifir ánægjuleg minning um fallegan leik. ÞÞ
Það var eitthvað við þetta verk einlægt og fallegt. Og þetta er trúlega eina verkið sem ég myndi vilja sjá aftur. Það virkaði á mig eins og ljóð. Einhver brilljans í því, óslípaður ef til vill – hugmyndin einföld, nánast naiv. Þessi höfundur á að halda áfram að skrifa. Stelpan frískleg og hentaði í hlutverkið, leikmáti opinn afar vel viðeigandi. Leikkonan mátti taka hljóðin betur inn þegar þyrlurnar komu. Fallegt hjarta í þessu.
BARA INNIHALDIÐ
Leikfélag Rangæinga
Höfundur: Sævar Sigurgeirsson
Leikstjóri: Margrét Tryggvadóttir
Leikendur: Eymundur Gunnarsson og Anna Ólafsdóttir
Hér er lagt upp með þá þakklátu hugmynd að tækla helstu klysjur íslenskrar mökunar og tuskast svolítið með þær í samtali fordrukkins karls og konu á skemmtistað. Það verður hins vegar að segjast eins og er að handritið virðist varla nema hálfunnið því uppistaða þess er svo undarlega máttlaus – einkum ef miðað er við þá margvíslegu möguleika sem liggja í klisju-orðaleik af þessu tagi. Það vantar allan takt í samtölin, þau eru ekki nærri jafn dínamísk og efnið heimtar, óvæntir uppásnúningar varla til staðar og áhorfandinn fyrir vikið fær um að botna flestar setningar sjálfur og sjá fyrir næstu reblikku þegar verst lætur. Ekki gott – en leikarar gerðu það sem þeir gátu úr efniviðnum og eiga inni að fá að leika verkið aftur þegar það er orðið bæði drepfyndið og dapurlegt. Höfundurinn getur skilað slíkri vinnu ef hann vill. ÞÞ
Ágætlega leikið, kómískt og fínar tæmingar, sannfærandi low class fyllibyttur. Verkið hélt lengi framan af en allt of mikil mötun í lokin. Það var alveg banalt að segja boðskapinn í lokin jafnvel þó um myndlíkingu við pylsu í brauði eða án brauðs hefði verið að ræða. ÞB
GEIRÞRÚÐUR SVARAR FYRIR SIG
Leikfélag Selfoss
Höfundur: Margaret Atwood og William Shakespeare
Þýðendur: Guðfinna Gunnarsdóttir og Helgi Hálfdánarson
Leikstjóri: Guðfinna Gunnarsdóttir
Leikendur: Hrefna Clausen og Víðir Örn Jóakimsson
Ég hafði töluverðar efasemdir um tilvist þessa leikrits á hátíðinni, enda eina verkið sem ekki var heimalagað að öllu leyti. Þegar upp var staðið reyndist þetta hins vegar eitthvert skemmtilegasta verk kvöldsins og lumaði þar að auki á mikilvægri aðlögunarvinnu leikstjórans, þannig að viðfangsefnið virtist eiga glettilega traustar rætur íslenskum samtíma. Frábær leikur Hrefnu Clausen í hlutverki Geirþrúðar gladdi þó mest. Þar verður hlutur leikstjórans auðvitað að reiknast inn, enda umgjörð og yfirbragð verksins til fyrirmyndar að flestu leyti. ÞÞ
Hún góð. Rosalega góð. Frábær. Textameðferð, skýrleiki, allt sem til þarf. Mótleikari féll óneitanlega í skuggann af slíkri drottningu en engu að síður mjög frambærilegt verk. Skemmtileg vinna með handrit. Lengd hárrétt. Listilega unnið frá hendi leikstjóra og greinilega vandað til verka. ÞB
MORÐ FYRIR FULLU HÚSI
Leikfélag Hafnarfjarðar
Höfundur: Lárus Húnfjörð
Leikstjóri: Halldór Magnússon
Leikendur: Dýrleif Jónsdóttir og Hildur Kristmundsdóttir
Klassísk pæling um samband höfundar og persóna, veruleika og ímyndunar. Viðfangsefni sem á alltaf erindi og mikilvægt að takast á við ekki síður en ástina, dauðann, hismið og kjarnann. Ekkert svo galið handrit, styrkt með nokkrum ágætum lykilsetningum og augnablikum, en kannski full götótt til að ganga alveg upp. Leikurinn nokkuð skemmtilegur en ýktari en svo að maður héldi einbeitingu allan tímann. Þar með varð trúverðugleikinn ekki nægur til að skapa nauðsynlegt mótvægi við hina einkennilegu stöðu karkateranna í veruleikanum. ÞÞ
Væri reyndar til í að sjá þetta aftur verksins vegna sem var ekki svo galið en mér fannst úrvinnsla of stíliseruð, of mikið leikin til áhorfenda. Sérstaklega var þetta áberandi í byrjun þegar persónurnar eru að sýna hversu ólíkar þær eru. Eftir því sem á leið fór samleikurinn að verða betri. Með öðrum orðum má segja að það er alveg hægt að eiga góðan samleik þó persónurnar séu ólíkar og fyrirlíti hver aðra og það þarf ekki að sýna svona mikið í byrjun. Verkið mætti trúlega endurskrifa og skerpa aðeins á því. ÞB
AÐGERÐ
Leikfélag Kópavogs
Höfundur: Guðjón Þorsteinn Pálmarsson
Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson
Leikendur: Erna Þorbjörg Einarsdóttir, Hörður Skúli Daníelsson, Guðmundur Lúðvík Þorvaldssson, Arnar Ingvarsson og Björn Elvar Sigmarsson
Saxi læknir í ómarkvissu, löngu atriði sem missir nokkurn veginn alveg marks. Sem er hálfgerð synd í ljósi þess að umgjörð og leikstjórn gefur til kynna augljósa hæfni og leikararnir tveir sem mest mæðir á, auk hinnar tindilfættu hjúkrunarstelpu, hafa alla burði til að gera mjög vel. Eftir stendur hins vegar að handritið stefnir í allar áttir og enga þó og megnar ekki að skila öðru en nokkrum smellnum augnablikum þegar upp er staðið. Þegar jafn mikið er í lagt og innstæðan augljós hjá aðstandendum freistast maður til að gera kröfu um að skemmtunin risti dýpra, persónur séu trúverðugri og löngunin til að eiga eitthvert erindi láti á sér kræla. ÞÞ
Hughrifin sem ég fékk af þessu verki var að ég upplifði þetta eins og vel útfært skemmtiatriði á árshátið. Það stóðu allir sig ágætlega en maður spurði sig; til hvers? Ef markmiðið var að vekja hlátur og skemmta þá náði þetta slíkum áhrifum að hluta til í vinveittum sal af fólki. Leikstíllin sem minnti á Saxa lækni var sennilega réttur og allir leikarar höfðu greinilega gaman af. Verkið sjálft hafði bara einhvern veginn ekki neinn botn með fullri virðingu fyrir höfundum.ÞB
Í ÖRUGGUM HEIMI
Hugleikur
Höfundur: Júlía Hannam
Leikstjóri: Nanna Vilhelmsdóttir
Leikendur: Jón Geir Jóhannsson, Silja Björk Huldudóttir, Loftur S. Loftsson, Sigurður H. Pálsson og Þorgeir Tryggvason.
Píanóleikur: Svavar Knútur Kristinsson
Þegar Jón Geir sagði fyrstu setninguna í þessu verki, hreifst ég ekki aðeins af röddinni, heldur myndaðist strax ákveðið andrúmsloft sem mér finnst alltaf jafn ómetanlegt í leikhúsi. Það má líkja því við eins konar trúnaðarsamband sem á rætur sínar m.a. í raunverulegri nærveru leikarans, trúverðugum texta höfundar og trausti leikstjórans á efniviðnum. Það sem gerði þetta verk svo hrífandi var líkast til einhvers konar kjörblanda þessara þátta, enda gekk nokkurn veginn allt upp. Reyndar hefði verið alveg óhætt að draga svona 20% úr ögn ýktri tjáningunni en í heildina stendur eftir minnisstæð smámynd sem áhorfandanum er látið eftir að fylla inn í og gera að sinni eigin ef hann vill. ÞÞ
Tvimælalaust besta verk kvöldsins. Vel skrifað og öll útfærsla fín..Helst að persónusköpun Jóns Geirs hafi verið fullýkt… gerðir hans í verkinu sögðu allt, óþarft að smyrja ofan á það. Þetta er þó einungis spurning um blæbrigði því sýningin gekk upp og þegar leiksýning gengur upp, gengur hún upp og galdurinn hrífur. Til hamingju, meira svona. Sérstaklega gott til eftirbreytni hvernig sýningin var alltaf á undan áhorfandanum, gaf ekki alveg allt upp fyrr en í lokin, án þess þó að predika eöa gefa manni það inn með skeið. ÞB
AFI BRENNDUR
Leikfélag Kópavogs
Höfundur: Oddur Bjarni Þorkelsson
Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson
Leikendur: Sigsteinn Sigurbergsson, Bylgja Ægisdóttir og Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir
Ekki svo galið verk, leikstjórnin örugg og leikur Sigsteins hreint ágætur, en… Kannski erum við komin þar í okkar ágætu menningu að kaldranalegur húmor og ofbeldistengdar afhelganir hafi misst mesta slagkraftinn – amk. þegar ekki tekst að tengja slíkt við einhvern marktækan streng í tilverunni. Að það sé ekki lengur frétt að buffa, brjóta og aflima nema í einhverju bitastæðu samhengi sem gefi groddanum merkingu. Það var vissulega frelsandi og um margt bráðnauðsynlegt á sínum tíma að sjá allt þetta splatter dæmi mæta á svæðið, SM klámið, gotíkina og gredduna, en mikið svakalega er ruddahúmorinn að verða þreyttur – einn og sér. Þetta verk kveikir, eins og sum önnur á þessari hátíð, hina óvinsælu spurningu um erindi eða erindisleysu. Spurningu sem enginn í skapandi starfsemi af neinu tagi kemst undan að takast á við – hvort sem menn telja sig tilheyra atvinnu- eða áhugamennsku. Og kannski það sé þrátt fyrir allt mikilvægasta erindi erindisleysunnar; að undirstrika fjarveru merkingarinnar í ofmerktum heimi. ÞÞ
Annar splatter frá Leikfélagi Kópavogs. Þessi minnti meira á Gervabælið sem sjónvarpið sýndi fyrir nokkrum árum. Svipaðar hugleiðingar og með fyrri „sketsinn“. Reyndar kom í ljós í umræðum daginn eftir sýninguna að bæði verkin hafi verið tekin úr stærra samhengi. Það útskýrir auðvitað alveg heilmikið en varpar líka fram spurningunni: er ekki komin tími til fyrir þessa hátíð að hún verði tekin á næsta stig og það verði hreinlega skrifuð sérstök verk fyrir hana. Annars stóðu leikarar sig ágætlega og Sigsteinn sem Skeini var sérlega fyndinn.Vel gert hjá honum og bar hann má segja uppi verk sem gekk að öðru leyti ekki sérlega vel upp, nema þá sem „skets“, en þó full langur sem slíkur. ÞB
DAGUR Í LÍFI MÖRTU ERNSTDÓTTUR
Freyvangsleikhúsið
Höfundur: Sverrir Friðriksson
Leikstjóri: Jónsteinn Aðalsteinsson
Leikendur: Þórný Barðadóttir, Elísabet Katrín Friðriksdóttir, Rósa Björg Ásgeirsdóttir, Ingólfur Þórsson, Jón Þorgrímur Friðriksson og Sindri Svan Ólafsson
Hér skorti hvorki einlægnina né erindið og skilaði sér hvort tveggja í einu eftirminnilegasta augnablik kvöldins – þegar þriðji keppandinn rennir sér inn á sviðið. Hins vegar sannast hér að jafnvel þótt hin göfugasta saga sé rakin af hjartans sannfæringu dugar það sjaldan eitt og sér til árangurs í leikhúsi. Áhrifamáttur verks eins og "Dagur í lífi…", byggist umfram allt á trúverðugleika persóna og aðstæðna og hér skorti nokkuð á hvort tveggja. Ég á erfitt með að setja fingur á vandann, en kannski liggur hann að einhverju leyti í öllum þáttum; fremur hráu handriti sem vísar í full margar áttir til að skapa áhuga, sviðsetningu sem litast um of af þröngum aðstæðum handrits og sviðs og leik sem hefði þurft að slípa betur og miðla af meira sjálfstrausti. Þessu nöldri leyfi ég mér að demba á þennan ágæta hóp vegna þess að ég treysti honum til góðra verka og er þess fullviss að bæði höfundur, leikstjóri og leikarar geti unnið mun betur úr þessum efniviði. ÞÞ
Enn ein anektótan eða skrýtluhugmyndin. Hugmyndin samt ágæt; að sýna hversu víðtæk áhrif eitt stykki víðavangshlaup hefur. Þ.e. Dagur í lífi Mörtu Ernst fjallaði meir um dag í lífi annarra og lítt þekktari karaktera en nokkurn tíma hennar. Náunginn í hjólastólnum er eftirminnilegasta persónan í mínum huga og nokkuð sterk hugmynd í byggingu verksins. Ég veit ekki alveg hvort leikhús var rétti vettvangurinn fyrir þessa hugmynd. Mér fannst sýningin svolítið tætingsleg og tæmingar eilítið skrýtnar. Mér kom til hugar að hugmyndin hefði gert sig í stuttmynd. Leikarar stóðu sig vel og stóðu með sýningunni. Mér fannst vera hjarta í þessu og einhver fallegur hreinleiki. Blokkeringar voru lítið eitt lokaðar út til hliðanna þegar konurnar þrjár töluðu saman, þ.e. þær stóðu of mikið í einum hnapp, of lengi, og skyggðu hver á aðra. ÞB
HANNYRÐIR
Hugleikur
Höfundur: Sigurður H. Pálsson
Leikstjóri: Guðmundur Erlingsson
Leikendur: Hjalti Stefán Kristjánsson, V. Kári Heiðdal, Eggert Hilmarsson, Einar Þór Einarsson og Gunnar Gunnarsson
Verulega skemmtileg hugmynd sem áhorfandinn fær að uppgötva smám saman. Umgjörðin öll var hrein og klár, notkun á tónlist og tækjum skínandi skemmtileg og myndirnar sem brugðið var upp hver annarrri fallegri. Ég er þess fullviss að hér höfum við eignast marktækt svar við Full Monty og öðrum slíkum verkum sem takast á við karlmennskuna af hrífandi innileik og æðruleysi. Það hefur amk. ekki yfirgefið mig hugsunin um þetta leikrit sem upptakt að kvikmynd í fullri lengd þar sem nákvæmlega þessir karakterar eru lagðir til grundvallar. Og hannyrðaklúbburinn. En auðvitað er sjálfsagt að byrja á að leyfa hugmyndinni að fylla út í lengra sviðsverk ef þannig verkast. Kannski til að komast að því að stuttverkið sé besta útgáfan… Það má etv. gagnrýna niðurlag verksins, þar sem gamalreyndur groddahúmor reynist ekki bæta neinu við en heldur draga úr áhrifunum. ÞÞ
Vel gert. Vel smíðað verk og úrvinnsla góð. Verkið náði að koma á óvart og endurnýja sig á undan áhorfendanum, þ.e. aldrei dautt moment. Leikararnir náðu að hvíla vel í hannyrðum sínum og fyrir vikið gátum þeir hleypt í gegnum sig einhverju stærra en rembingslegum sjálfbirgingshætti sem því miður er of tíður meðal leikara. Það var einhver hrífandi sannleikur í þessu þrátt fyrir að umgjörðin og bygging verksins væri eilítið absúrd. Mér fannst lokin ekki ganga 100% upp og er ekki tilbúinn að skrifa það á verkið. Mér fannst leikararnir ekki nógu drífandi og fókuseraðir í rifrildi sínu um hver væru kviðmágur hvers til að “gleyma” að einn væri dauður á meðal þeirra. Þvert á móti upplifði ég að leikarinn væri að reyna að þykjast ekki taka eftir því að einn væri dauður í stað þess að fókusera á óleystan konflikt. En heilt yfir; gott verk og vel gert. Takk fyrir það. Þessi sýning situr vel í minni. ÞB
Bandalagið þakkar þeim Þorvaldi og Þorsteini fyrir gagnlegar og vel unnar umsagnir.