Hugleikur frumsýndi nýskeð í Möguleikhúsinu leikritið Systur eftir Þórunni Guðmundsdóttur í leikstjórn Þorgeirs Tryggvasonar. Lárus Vilhjálmsson brá sér á sýningu og greinir frá upplifun sinni. systur0.jpgÞað er alltaf eitthvað dramatískt við samband systkina. Þessi ósýnilegu bönd sem tengja okkur við bræður okkar og systur eru bæði óþolandi og æðisleg, dularfull og þreytandi en aldrei leiðinleg. Og höfundar hafa náttúrulega gert sér mat úr þvílíkum efnivið bæði í bókmenntum og ekki síður á leiksviðinu. Þórunn Guðmundsdóttir sem hefur til nokkurra ára skrifað fyrir Hugleik með góðum árangri skilar nú enn einu sinni góðu verki á fjalirnar.

Systur fjallar um þrjár systur sem hittast við dánarbeð föður síns og hvernig þær takast á við hvor aðra og fortíðina. Þetta er vel uppbyggt verk með hægum og þungum undirtóni. Manni finnst stundum eins og maður sé að horfa á tónverk enda er Þórunn nokkuð lagtæk á því sviði og var að frumsýna óperuna Mærþöll nú í vikunni. Þórunn skrifar snarpan og ísmeygilegan texta og teiknar persónur systranna skörpum dráttum. Oft brá fyrir bráðfyndnum atriðum í verkinu en það var þó ekki á kostnað alvörunnar og var frekar notað til að undirstrika persónur verksins. Mér fannst þó á stöku stað of snögglega farið úr fortissimo köflum yfir í pianissimo og öfugt. Fyrir viðkvæmar sálir eins og mig gæti svoleiðis valdið taugaáfalli.

rut2.gifLeikurinn í verkinu er af háum gæðastaðli eins og Hugleik er von og vísa. Hulda B. Hákonardóttir, Júlía Hannam og Elísabet Indra Ragnarsdóttir leika systurnar af þvílíkri innlifun að ég væri viss um að þær væru systur ef ég vissi ekki betur. Hulda er náttúrulega ein af bestu leikkonum landsins og bætir hérna enn einni frábæru persónunni í sarpinn. Það er nú orðin þreytt lumma að Júlía vaxi með hverri sýningu en ég meina það; hvar endar þetta. Hún verður bara betri og betri. Þetta er fyrsta skipti sem ég sé Elísabetu á sviði en þarna hefur Hugleikur fengið góðan liðsstyrk og frábært að sjá hve vel hún stendur sig með “primadonnunum”. Svo má ekki gleyma frammistöðu  Jónínu Helgu Björgvinsdóttur sem þarf í gervi hjúkrunarfræðingsins Elínar að takast á við fjölskyldumál systranna. Því skilaði Jónína af miklu öryggi og fagmennsku.
 
Leikstjórnin í verkinu er í höndum Þorgeirs Tryggvasonar og hann hefur valið þá hárréttu leið að leyfa verkinu að njóta sín í einfaldri sviðsmynd og gefa því þann tíma sem það þarf til að áhorfendur dragist inn í heim systranna. Notkun tónlistarinnar í verkinu var líka eitthvað svo hárrétt og dró fram ákveðna mynd af fortíð þeirra systra. Það eina sem ég hef út á að setja er eins og nefndi áður að stundum fannst mér heldur bratt farið úr sterkum dramatískum átökum niður í hina hægu framvindu.

Systur Þórunnar Guðmundsdóttur er firnagott verk sem fjallar um efni sem kemur okkur öllum við og á alltaf erindi í okkar samtíma. Það er okkur hollt að skoða samskipti okkar hvort við annað og sérstaklega okkar nánustu. Leikhúsið er sterkur miðill og þessu verki tekst að vekja mann til umhugsunar um lífið sjálft. Þetta er leikrit upp á þrjár og hálfa stjörnu.

Lárus Vilhjálmsson