Oft hefur Listamaðurinn ógurlegi reitt hátt til höggs en aldrei eins og nú. Nú er það hvorki meira né minna en Tréhausinn, óopinber heiðursverðlaun áhugaleiklistarinnar.

Hver var besta sýningin? Bestu leikararnir? Besta handritið? Besta útlitið?


Tréhausinn 2003

Mín prívat áhugaleikhúsverðlaun eftir Þorgeir Tryggvason

Starfs míns vegna sé ég drjúgan hluta sýninga íslenskra áhugaleikfélaga. Af því tilefni, og vegna þess að senn er leikárið liðið og frumsýningum að linna, hef ég farið yfir það hvað mér þykir hafa tekist best í vetur. Ég hef því stofnað til verðlauna sem ég kýs af persónulegum ástæðum að kalla Tréhausinn. Enginn efnislegur verðlaunagripur verður afhentur, en þakkarræður óskast settar á spjallþræðina. Ég nota alvanalegt flokkakerfi Óskars frænda, með smá aðlögun að forsendum íslensks áhugaleikhúss. Einn sigurvegari í hverjum flokki, og nokkrir aðrir nefndir sem voru nálægt því og eiga skilið að á þá sé minnst.

Allt er þetta til gamans gert, og ekki má gleyma því að bæði sá ég ekki allar sýningar vetrarins og eins kom ég að gerð sumra þeirra, og þær þar með úr leik. Þetta er fúlt fyrir Hugleik, en það verður að hafa það. Ég læt fylgja með lista yfir þær sýningar sem ég sá.

En allavega, Tréhausinn hlýtur….

 
Besta sýning

Fuglinn minn heitir fótógen

Leikfélag Fjölbrautaskóla Suðurlands
Leikstjóri Sigrún Sól Ólafsdóttir

Þetta ómótstæðilega stefnumót Þriggja Systra, Máfsins og leikhópsins reyndist vera einhver sterkasta leiksýning sem ég hef séð í langan tíma. Vel útfærð á sviðinu, fantalega vel leikin. Tsékovsku minnin döfnuðu vel, endurgróðursett í íslenska smábæjarsamfélaginu. Falleg og fyndin – fínleg og groddaleg – ljóðræn og aggressív. Og síðast en ekki síst – algerlega óvænt.

Í humátt á eftir henni eru í huganum sýningar eins og Hundshjarta hjá Herranótt og Chicago hjá LMA.

 
Nýtt handrit

Beðið eftir Go.com Air

Ármann Guðmundsson
Leikfélag Mosfellssveitar

Frábær hugmynd, skrautlegt persónugallerí, hnyttin tilsvör, gaman og á endanum dauðans alvara. Hvað er hægt að fara fram á meira?

Alls tel ég fimmtán nýsköpuð verk í listanum hér að neðan, þó ekki styðjist þau öll við handrit. Þá má ekki gleyma því að Hugleikur er fjarverandi af listanum vegna þess að ég er ég. Ég ætla samt að leyfa mér að setja Undir hamrinum eftir Hildi Þórðadóttur á þennan “Runners up” lista, enda er þar á ferðinni frumlegt og gróteskt tilbrigði við þjóðlegt minni. Svo vil ég geta Káins, Ráðalausra manna Siguringa Sigurðssonar hjá Leikfélagi Keflavíkur, Ertu Hálf-dán? eftir Hávar Sigurjónsson hjá Leikfélagi Sauðárkróks og auðvitað, Fótógen.

 
Besta leikstjórn

Ólafur Egill Egilsson fyrir Hundshjarta

Herranótt

Með einfaldri leikmynd og sterkri stjórn náði Ólafur Egill að skapa sannfærandi Expressjóníska martröð úr dæmisögu Búlgakovs. Ekki síst er vinna hans hrósverð fyrir það hvað sýningin sem heild var sterk þrátt fyrir að lítið færi fyrir “briljans” í leik.

Svo má náttúrulega nefna Fótógen hjá Sigrúnu Sól Ólafsdóttur, vinnu Laufeyjar Brár Jónsdóttur með Chicago, Ingridar Jónsdóttur með Hrein mey á leiðinni hjá Thalíu, Sögu Jónsdóttur með Káinn í Freyvangsleikhúsinu og Odds Bjarna Þorkelssonar með Þrek og Tár á Egilsstöðum. Hörður Sigurðarson vann líka frábært starf með Leikfélag Kópavogs í Kolla og stöðumælaverðirnir. Þá var eftirtektarvert hvað Þröstur Guðbjartsson náði góðum tökum á erfiðu leikriti Hávars Sigurjónssonar, Ertu Hálf-dán?

 
Besta leikkona í aðalhlutverki

Ágústa Eva Erlendsdóttir í Kolla og stöðumælaverðirnir

Leikfélag Kópavogs

Þær stöllur Kolla mannæta og Ilse ráðskona voru hvor annarri óhuggulegri, skemmtilegri og kraftmeiri í þessum óborganlega hryllingsfarsa. Nákvæmni, fókus og virtúósaleg umskipti Ágústu voru kjarninn í sýningunni. Geggjað!

Aðrar góðar voru til dæmis Herdís Þorgeirsdóttir sem óviðjafnanleg drukkin mamma i Beðið eftir Go.com Air, Kolbrún D. Kristinsdóttir sem burðarásslegur leiklistarfræðingur í Á fjölum félagsins hjá Halaleikhópnum, Anna Ragnarsdóttir sem ættmóðirin í Þrúgum reiðinnar á Húsavík, Inga Valgerður Henriksen í hlutverki Lillu í Þú ert í blóma lífsins, fíflið þitt hjá Sauðkindinni og Gunnhildur Árnadóttir í titilhlutverkinu í Lýsiströtu hjá Fúríu, leikfélagi Kvennaskólans.

 
Besti leikari í aðalhlutverki

Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson í Gauragangi

Leikfélag Vestmannaeyja

Ég er búinn að sjá marga Orma Óðinssyni, og þessi er sá sem mér hefur þótt mest sannfærandi (þó söngurinn væri svona og svona). Guðmundur hvíldi þannig í hlutverkinu að snjallyrðin sem streyma frá Ormi urðu fullkomlega eðlileg, en á sama tíma tókst honum að bera sýninguna uppi með krafti og útgeislun. Og útlitið hárrétt – sannkallaður strákormur.

Fleiri áttu góðan leik í ár.  Ævar Þór Benediktsson var skotheldur Billy Flynn í Chicago  og Einar Rafn Haraldsson marghliða Jóhann í Þrek og Tár. Þá voru ræningjarnir þrír í Kardemommubænum í Hveragerði ekkert minna en dásamlegir í meðförum Hjartar Más Benediktssonar, Magnúsar Stefánssonar og Steindórs Gestsonar.

 
Besta leikkona í aukahlutverki

Þorbjörg H. Dýrfjörð í Hrein mey á leiðinni

Thalía, leikfélag Menntaskólans við Sund

Sædkikkið Melkorka, sem elskar Shakespeare, en fellur svo fyrir strák af holdi og blóði var alveg sérlega vel teiknað af Þorbjörgu, og svo gerði hún sér leikrænan mat úr laginu sem hún söng, sem alltof oft vill gleymast hjá sjóveikum framhaldsskólunum.

Af öðrum smærri hlutverkum sem tolla í heilaberkinum má nefna Hjördísi Pálmadóttur sem niðursetning í Káinn, Guðnýju Þorgeirsdóttur sem lögguvönkuð kona í Þrúgum reiðinnar og þær Önnu Hansen og Margréti Guðrúnardóttur, unaðslega ljóðrænar og lífrænar, í Fótógen.

 
Besti leikari í aukahlutverki

Bjartmar St. Steinarsson í Fótógen

Leikfélag Fjölbrautaskóla Suðurlands

Bjartmar fór með tvö hlutverk í sýningunni og bæði voru frábærlega unnin. Áhrifamest var þó sköpun hans á seinfærum Nóatónsstarfsmanni og föður, hlutverk sem geymdi hjarta þessarar frábæru sýningar, þó lítið væri (hlutverkið altsvo). Gersamlega ógleymanleg frammistaða.

Minnast má fleiri smárra en knárra. Stefán Guðlaugsson var óborganlegur Jón vinnumaður í Káinn (Káni?), Heimir Jón Bergsson sem mannýgur páfagaukur í Kardemommubænum á Fáskrúðsfirði var rétt ekki búinn að drepa okkur Odd Bjarna úr hlátri. Annar Fótógenmaður, Árni Grétar Jóhannsson, var einhver óhuggulegasta og hlægilegasta sviðsfyllibytta sem ég hef séð. Gylfi Ólafsson var og góður sem prestur í Að eilífu hjá Leikfélagi Menntaskólans Ísafirði og Þorsteinn Logi Einarsson og Valdimar Össurarson björguðu hinum hrútleiðinlega fyrir-utan-himnaríki-þætti í Gullnahliðinu í sýningu umf. Vöku.

 
Besti söngleikur

Chicago

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri

Þetta fannst mér skemmtilegur söngleikur! Vafalaust græddi hann á því hvernig hann greindi sig frá hinum stórsjóum framhaldsskólanna, en þetta var einfaldlega vel gert. Brechtískt formið, ís-kaldhæðin sagan og sjálfsöryggi flytjendanna: allt hjálpaði þetta til við að gera þetta að grimmilega góðri skemmtun.

Aðrir góðir voru Þrek og tár og Söngvaseiður á Ísafirði (en ekki hvað?).

 
Útlit

Þórarinn Blöndal og Ingvar Björnsson fyrir Káinn

Freyvangsleikhúsið

Einföld en snjöll og nosturssamlega útfærð – umgjörð sýningarinnar nær að skila sléttuvíðáttum Ameríku og dalalífi í Eyjafirði, inni- og útisenum og öllu heila ferðalaginu án nokkurra vandræða. Leikmynd og lýsing vinna óaðfinnanlega saman. Svona á að gera þetta!

Nokkrir fleiri náðu tökum á þessu. Hundshjarta, Hljómsveitin og Salka miðill hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar. Þá fær Leikfélag Húsavíkur sérstaka viðurkenningu fyrir brjálaða en bráðsnjalla hugmynd sem sýndi ferð Oklaranna til Kaliforníu í algerlega nýju ljósi, nokkurskonar niðurfærsluleið til að stækka sviðið í Samkomuhúsinu.

 
Tónlist

Gísli Galdur fyrir Lýsiströtu

Fúría, leikfélag Kvennaskólans

Frábærlega vel heppnuð endurvinnsla á klisjulegum lögunum sem þýðing Kristjáns Árnasonar gerir ráð fyrir og skemmtilega unnið með tónlist án þess að reiða sig um of á sönghæfileika hópsins.

Aðrir góðir voru LMA-menn með pottþétta hljómsveit og söng í Chicago, Verslóbandið Hanz sem áttu yndislega innkomu í Fullkomið brúðkaup hjá leikfélaginu Þrándi og stemmningsrík tónlist Björns Thorarensen og Eggerts Hilmarssonar við Beðið eftir Go.com Air.

 
Sérstakt frumkvæði

Leikfélag Hafnarfjarðar og Ármann Guðmundsson fyrir Sölku miðil.

Salka miðill var að mörgu leyti leikhúsviðburður ársins, þó ekki þætti mér hún í alla staði vel heppnuð leiksýning. En hugmyndin og útfærsla hennar niður í smáatriði var tilraun sem gekk upp og nam um leið ný lönd fyrir leikhúsið á afréttum raunveruleikans (ekki alveg viss um hvað ég er að fara með þessu, en mér finnst þetta hljóma flott. Svona fer Salka með mann!)

Fleiri frumkvæðismenn eru náttúrulega Leikfélag Kópavogs fyrir Hljómsveitina og fleiri “Devised” verk, Júlíus Júlíusson fyrir vetrarstarfið og Leikfélagið Þrándur fyrir tilraun (skammlífa sýnist mér) til að mynda n.k. “Leikfélagið Sýnir” fyrir framhaldsskólaleikfélögin.

 
Það sem séð var:

Að eilífu – Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði,
Auga fyrir auga – Leikfélag Vestmannaeyja,
Á fjölum félagsins – Halaleikhópurinn,
Beðið eftir Go.com Air – Leikfélag Mosfellssveitar,
Blái hnötturinn – Leikfélag Sauðárkróks,
Bullets over Broadway – Leikfélag Menntaskólans að Laugarvatni,
Chicago – Leikfélag Menntaskólans á Akureyri,
Emil í Kattholti – Leikfélag Hornafjarðar,
Frá myrkri til ljóss – Leikfélagið Platitude,
Fuglinn minn heitir Fótógen – Leikfélag Fjölbrautaskóla Suðurlands,
Fullkomið brúðkaup – Leikfélagið Þrándur,
Gauragangur – Leikfélag Vestmannaeyja – í samvinnu við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum,
Gengið á hælinu – Leikfélag Dalvíkur,
Góðverkin kalla! – Umf. Reykdæla,
Grease – Verkmenntaskólinn á Akureyri,
Gullna hliðið – Ungmennafélagið Vaka – Villingaholtshreppi,
Hljómsveitin – Leikfélag Kópavogs,
Hrein mey á leiðinni – Thalía – leikfélag Menntaskólans við Sund,
Hundshjarta – Á Herranótt,
Í bænum okkar er best að vera – Leikfélag Keflavíkur,
Íbúð Soju – Stúdentaleikhúsið,
Johnny Casanova – Ofleikur,
Káinn – Freyvangsleikhúsið,
Kardemommubærinn – Leikfélag Hveragerðis,
Kardemommubærinn – Leikhópurinn Vera,
Kolla og stöðumælaverðirnir – Leikfélag Kópavogs,
Kverkatak – Leikfélag Dalvíkur,
Lífsháski – Leikfélag Seyðisfjarðar,
Lýsistrata – Fúría – leikfélag Kvennaskólans,
Made in USA – Nemendamót Verzlunarskóla Íslands,
Óþekk(t) kona – Leikfélag Kópavogs,
Píla Pína – Pýramus og Þispa, leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík,
Portrett – Leikfélag Kópavogs,
Ráðalausir menn – Leikfélag Keflavíkur,
Rocky Horror – Leikhópur nemendafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ,
Salka miðill – Leikfélag Hafnarfjarðar,
Sex í sveit – Leikfélag Hólmavíkur,
Söngvaseiður – Litli leikklúbburinn og Tónlistarskóli Ísafjarðar,
Þrek og tár – Leikfélag Fljótsdalshéraðs,
Þrúgur reiðinnar – Leikfélag Húsavíkur,
Þú ert í blóma lífsins – fíflið þitt! – Sauðkindin – Leikfélag Menntaskólans í Kópavogi,
Örlagasystur – Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð.