Leikfélag Selfoss sýnir um þessar mundir gamanleikinn Með táning í tölvunni eftir einn virtasta og vinsælasta farsahöfund heims í dag, Ray Cooney. Magnús J. Magnússon var á frumsýningunni þann 11. janúar og skemmti sér hið besta.

Föstudaginn 11. janúar frumsýndi Leikfélag Selfoss gamanleikritið Með táning í tölvunni eftir Ray Cooney í leikstjórn Jóns Stefáns Kristjánssonar. Leikrit þetta er fjallar um sömu aðalpersónur og leikritið Með vífið í lúkunum sem leikfélagið frumsýndi 1999. Ég sá sýninguna 1999 og var mjög hrifinn af henni, leikurinn hraður og uppsetningin afar skemmtileg. Það var því spennandi að sjá sýninguna núna, sami höfundur, leikstjóri og aðalleikarar og í fyrri sýningunni en allt gerist rúmum áratug seinna. Sýningin í Leikhúsinu við Sigtún var góð. Það er afar skemmtilegt að sjá sama leikaragengi takast á við sömu persónur um 10 árum síðar. Ég var afar forvitinn um þann hluta og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Sýningin rann í gegn, mikill hraði, flókinn dyrafarsi, nákvæmar innkomur, allt gekk upp í sýningunni. Leikgleði einkenndi verkið og það skilaði sér beint til áhorfandans.

Eyjólfur Pálmarson og Davíð Kristjánsson eru miklir reynsluboltar í gamanleiknum. Túlkun Eyjólfs á hinum lífshraða leigubílstjóra John Smith var frábær. Hann nær þeim tengslum að maður stendur alltaf með honum, berst með honum í lífsins ólgusjó. Það er sama hvað sagt er um hið tvöfalda líf hans þá er hann í því af fullum krafti og heilindum. John Smith í dag hefur þroskast eðlilega á þessum árum. Mikil keyrsla alla sýninguna og alltaf krafturinn sem Eyjólfur setur í leikinn er frábær.

Stanley Gardner, hinn kostulegi leigjandi Smith hjónanna er óborganlegur í túlkun Davíðs Kristjánssonar. Það er alveg aðdáunarvert það úthald sem Davíð hefur á sviðinu. Hann er inni  nánast alla sýninguna, á hlaupum, dragandi og berandi ýmsa hluti, hlaupandi og gangandi. Maður verður svo þreyttur með honum, upplifir sig nánast nærri alltaf í vonlausri aðstöðu en alltaf tekst  Stanley að bjarga sér fyrir horn. Túlkun þessara tveggja frábæru gamanleikara var óviðjafnanleg og samleikur þeirra nákvæmur og gekk upp.

Eiginkonurnar tvær, Mary Smith í túlkun Guðrúnu Höllu Jónsdóttur og Barbara Smith í túlkun Guðfinnu Gunnarsdóttur eru ólíkar og það kemur vel fram. Mary er í verri málum. Hún er ekki eingöngu með þennan mann sem lifir tvöföldu lífi heldur situr hún einnig uppi með Stanley, leigjandann og á milli þeirra er sífelld spenna. Líf Mary er því mun yfirspenntara en Barböru. Auk þess hefur táningurinn Vicki bæst við. Guðrún Halla túlkar Mary óhemju vel. Hún nær að sýna pirringinn, þreytuna, hraðann  en um leið ást og umhyggju. Hún stendur með dóttur sinni í hennar baráttu. Það er gaman að sjá Guðrúnu aftur með Leikfélaginu og  vonandi verður hún áfram á sviði leikhússins. Barbara er í öðrum gír. Hún lifir rólegra lífi, er örugg í sínum umhverfi og þarf ekki að glíma við einhvern leigjanda. Sonurinn Gavin er kominn til skjalana og ber hún mikla umhyggju fyrir honum. Hún er jákvæð og hrekklaus. Guðfinna nær mjög góðum tökum henni og nær að sýna okkur þennan karakter og undirstrikar vel hrekkleysi hennar og lífssýn.

Ungu leikararnir tveir, Kolbrún Lilja Guðnadóttir , sem leikur Vicki, barn Mary og Johns og Eyþór Helgason sem leikur Gavin, son Barböru og Johns, stóðu sig afar vel. Kolbrúnu hef ég séð áður og fannst mér leikur hennar í hlutverki Vickiar afar áreynslulaus og afslappaður. Þarna er reglulega skemmtileg leikkona á uppleið, mjög vel farið með hlutverkið og óx jafnt og þétt í gengum sýninguna. Eyþór Helgason er að stíga sín fyrstu spor með leikfélaginu og var þessi frumraun hans honum til sóma. Hann túlkaði Gavin, þennan þrjóska strák, skemmtilega og maður stóð með honum í þessum hremmingum allan tímann. Gaman að sjá svona unga leikara koma svona sterkir inn. Pabba Stanleys lék Hermann Dan Másson og gerði það vel. Verð að viðurkenna að ég skildi ekki alltaf veru pabbans í verkinu en það breytir því ekki að Hermann lék hlutverkið af innlifun og kom þessum gamla karli vel til skila.

Leikmynd sýningarinnar var mjög góð og það verður að koma fram að sá hópur innan Leikfélags Selfoss er vinnur á bak við tjöldin við leikmyndagerð, lýsingu, búninga og annað er afar sterkur og er leikfélagið öfundsvert af þeim sterka hóp.

Þessi afmælissýning var mjög góð. Hún er 67. sýningin á 50 ára starfi Leikfélagsins sem sýnir öflugt starf félagsins í gegnum árin og að hlutverk þess í menningarlífi Selfoss í gegnum tíðina er afar mikilvægt og ómetanlegt. Ég og mitt fólk skemmtum okkur konunglega, hlógum allan tímann. Við gengum út í janúarnóttina og okkur leið vel. Það er alltaf gott að að vera í góðu Leikhúsi og horfa á góða leiksýningu.

Til hamingju!

Magnús J. Magnússon

{mos_fb_discuss:2}