Leikfélag Mosfellsbæjar
Ronja ræningjadóttir eftir Astrid Lindgren
Leikstjórn: Agnes Wild  
Tónlistarstjórn: Sigrún Harðardóttir  
Leikmynda-og búningahönnun: Eva Björg Harðardóttir

Ronja ræningjadóttir er saga um vináttu, kærleika og hugrekki. Vináttu sem sigrar þrátt fyrir erfiðar hindranir. Hvernig sigrast má á hindrunum og hvernig það er miklu auðveldara að vera ekki hræddur ef maður á einhvern að. Astrid Lindgren hefur alltaf svo fallega og fyndna sýn á lífið án þess að gera lítið úr þeim hættum sem steðjað geta að og alltaf er boðskapurinn sá sami, að öll séum við frábærar manneskjur sama hvaðan við komum eða hvernig við erum. 

Ronja er áhugaverð stelpa sem fer ótroðnar slóðir og hefur skoðun á flestu. Hún vill læra á hætturnar og alls ekki feta í fótspor föður síns Matthíasar sem ræningjaforingja.

Gríðarmikil vinna og metnaður hefur verið lagður í að búa til söguheim Ronju í  uppfærslu Leikfélags Mosfellsbæjar á söngleiknum í leikstjórn Agnesar Wild. Alla jafna hefði mátt ætla að uppsetning á jafn umfangsmiklu verki kallaði á aðstöðu eins og í stóru leikhúsunum með tilheyrandi tæknibúnaði og plássi. En afar vel tekst til í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ að segja stóra sögu í litlu plássi.

Leikmynd og lýsing ramma vel inn sýninguna og skapa afar sannfærandi ævintýraheim með alvöru Helvítisgjá.  Búningar, förðun og gervi spila stóra rullu í sýningunni með grimmum grádvergum, akkuru rassálfum og illræmdum skógarnornum. Þar hefur Eva Björg Harðardóttir unnið þrekvirki ásamt fólkinu á bakvið tjöldin, en Eva hannaði búninga, grímur og leikmynd. Allur söngur og tónlistarflutningur er til fyrirmyndar og sniðugt að nýta ræningja sem hljóðfæraleikara á sviðinu. Hópatriði eru vel útfærð og skemmtileg (sérstaklega vakti prumpulagið mikla kátínu hjá yngri kynslóðinni sem og undirritaðri).

Sýningin flæðir vel áfram að mestu leiti, en huga hefði mátt ögn betur að senuskiptingum þar sem atburðarás breyttist hratt og framvinda verður aðeins óskýr á köflum. Eitthvað bar á að framsögn væri ekki skýr, sérstaklega í söngatriðum, sem bætt var upp með sönggleði og góðum útfærslum á dansi.Allir leikarar standa sig með prýði, en mikið mæðir á þeim Ara Páli Karlssyni og Maríu Ólafsdóttur sem fara með hlutverk Birkis og Ronju. Þau standa sig vel og syngja afar vel.  Ræningjarnir voru skemmtilega skrýtnir hver um sig, en þar fóru fremst í flokki Dóra Wild í hlutverki Skalla-Péturs og Halldór Sveinsson í hlutverki fiðluspilandi ræningjans Bersa. Yngsti rassálfurinn, Úlfhildur Stefanía Jónsdóttir var af öðrum rassálfum ólöstuðum skemmtilega krúttlegust.

Ekki missa af þessari fallegu sýningu, tónlist, leikgleði og söngur og dálítið af mátulega hræðilegum skógarskrímslum sem gera ævintýrin alltaf skemmtilegri.Leikhúsgestir voru á öllum aldri og virtust allir skemmta sér konunglega og ekki skemmdi fyrir hjá þeim yngstu að fá að láta taka mynd af sér með aðalsöguhetjunum að sýningu lokinni.

Guðfinna Gunnarsdóttir