Lífið er stórskemmtilegt drullumall á mörkum leikhúss og myndlistar fyrir alla fjölskylduna. Leikhúsið 10 fingur, sem stendur að þessari sýningu, setti upp verðlaunasýninguna Skrímslið litla systir mín og hlaut Grímuverðlaunin sem besta barnasýning ársins 2012.

Lífið verður frumsýnt í 18. október í Tjarnarbíó.

Leiksýningin Lífið fjallar um sköpunarkraftinn, vináttu og hringrás lífsins, þar sem unnið er með mold. Sýningin er unnin á sama hátt og Skrímslið litla systir mín – með óvenjulegri aðferð þar sem sagan í verkinu fær að kvikna út úr efniviðnum sem notaður er í sýningunni.  Leikhópurinn vann spunavinnu í um þrjá mánuði og útkoman er stórskemmtileg, marglaga og óvenjuleg leikhúsupplifun sem getur heillað bæði börn og fullorðna.

Á einu plani er verið að búa til sögu um sköpun heimsins, hvernig landslag breytist í gegnum hamfarir og kraft náttúruafla, hvernig líf kviknar, hvernig fyrstu dýrin skriðu á land og goggunarröðina í náttúrunni – en á öðru plani má lesa úr þessari sömu leiksýningu einfalda sögu af tveimur krökkum að leik. Börnum sem uppgötva skugga sinn og sjálfa sig, finna mold í pokum og fara að drullumalla.

Charlotte Böving leikstýrir, Helga Arnalds hannar myndræna hlið verksins og leikarar eru Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Tónlist semur Margrét Kristín Blöndal og lýsingu hannar Björn Bergsteinn Guðmundsson. Höfundar eru: Sveinn Ólafur Gunnarsson og Sólveig Guðmundsdóttir, Charlotte Böving og Helga Arnalds.

Verkið er styrkt af Leiklistarsjóði og listamannalaunum.

Leikhúsið 10 fingur á 20 ára starfsafmæli á næsta ári þ.e. 2015. Það hefur verið í stöðugri þróun og vexti og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar bæði hérlendis og erlendis. Þar á meðal tvær Grímur fyrir bestu barnasýningarnar og íslensku bjartsýnisverðlaunin. Leikhúsið byrjaði sem einnar konu leikhús Helgu Arnalds sem ferðaðist milli leikskóla og skóla í landinu. Smám saman hefur bæst í hópinn og margir af okkar fremstu listamönnum hafa tekið þátt í starfinu. Þar má nefna Charlotte Böving, Eivöru Pálsdóttur, Ingvar Sigurðsson, Benedikt Erlingsson, Jón Pál Eyjólfsson, Sólveigu Guðmundsdóttur, Ragnhildi Gísladóttur, Svein Ólaf Gunnarsson, Þórhall Sigurðsson, Hallveigu Thorlacius, Áslaugu Snorradóttur, Eyþór Arnalds, Ólaf Arnalds, Pál á Húsafelli, Ásu Hlín Svavarsdóttur og Helgu Brögu Jónsdóttur.  Leikhúsið 10 fingur hefur sérhæft sig í æ ríkara mæli í listsköpun sem stendur á mörkum leikhúss og myndlistar og er nú eina leikhúsið í landinu sem helgar sig slíkum sýningum. Leikhúsið hefur einnig lagt áherslu á að gera sýningar sem börn og fullorðnir geta notið saman.