Leikfélag Ölfuss: Blessað barnalán eftir Kjartan Ragnarsson.
Leikstjóri Gunnar B. Guðmundsson
Elín Gunnlaugsdóttir skrifar


Inga sendir systkinum sínum skilaboð um að mamma þeirra sé dáin, þeim bregður óneitanlega við fréttirnar og drífa sig austur á land til hennar. En mamman er sko aldeilis ekki dáin, en hún hefur gaman af tiltæki Ingu og tekur þátt í gamninu af fullum krafti. Ýmsir aðrir flækjast í þennan lygavef þeirra mæðgna og má í því sambandi nefna prestinn og lækninn á staðnum.

Blessað barnalán er 40 ára gamall farsi eftir Kjartan Ragnarsson og segja má að hann eldist alveg ágætlega. Vissulega er verkið að einhverju leyti lýsing á tíðarandanum þegar hann var skrifaður eins og merkja má í umræðu um spírítismann. En leikhópurinn poppar verkið líka aðeins upp með sjálfustöngum og öðru sem var örugglega ekki til fyrir 40 árum.

Þannig virkar öll umgjörð verksins mjög sannfærandi á áhorfandann. Leikurinn gerist nær allur í húsi þeirra mæðgna, móðurinnar Þorgerðar og dótturinnar Ingu. Vandað hefur verið mjög til gerðar leikmyndarinnar og skapar hún góða umgjörð utan um verkið.

Leikararnir skila sínu einnig af stakri prýði. Þeir sem heilluðu hvað mest voru Ásta Margrét Grétarsdóttir í hlutverki móðurinnar Þorgerðar og Erla Dan Jónsdóttir í hlutverki einnar systurinnar. Helena Helgadóttir í hlutverki Ingu og Aðalsteinn Jóhannsson í hlutverki séra Benedikts áttu líka oft frábæra spretti. Önnur hlutverk voru einnig vel leikin og óhætt að segja að leikarahópur félagsins sé alltaf að verða betri.

Það sem helst truflaði undirritaða var að verkið fór dálítið hægt af stað og voru upphafssenurnar ekki alveg nógu líflegar. Skiptingar voru líka nokkuð hægar en það lagaðist þegar leið á sýninguna. Kannski skrifast þetta á það að frumsýningarskjálftinn var farinn úr leikurunum, en sýningin sem skrifað er um var 2. sýning verksins.

Ljósanotkun var góð og einkum í senunni með miðilsfundinum. Tónlistarnotkun er ekki mikil í verkinu, en meðan áhorfendur setjast og í hléi eru leikin gömul dægurlög og er það vel tilfundið þar sem lögin koma áhorfandanum í réttu stemmninguna.

Á heildina litið er uppsetning verksins með miklum ágætum og greinilegt að leikstjórinn Gunnar B. Guðmundsson hefur góð tök á leikhópnum. Það sem var skemmtilegast við sýninguna var þó leikgleðin sem skein úr andlitum leikaranna og hún smitaðist út til áhorfendanna.

Elín Gunnlaugsdóttir