Stúdentaleikhúsið frumsýndi frumsamda leikverkið AUKA fimmtudaginn 4. apríl  í Norðurpólnum. Leikstjórn er í höndum Bjartmars Þórðarsonar en undir stjórn hans hefur hópurinn sem skipaður er ungu og efnilegu sviðslistafólki skapað kraftmikla og gamansama spunasýningu þar sem farið er út fyrir öll mörk og áhorfendum er ögrað. Ekki aðeins af efnistökum leikritsins heldur einnig af nálægð þeirra við leikarana.

Morð, pyntingar og ást í meinum! Eins óeftirsóknarvert og þetta þykir í hinu raunverulega lífi þá er þetta meðal þess sem áhorfendur afþreyingarefnis heimta. Cheeriosát á köldum vetrarmorgni eða prump við sjónvarpsáhorf er ekki líklegt til vinsælda, enda vilja fáir horfa á raunsanna eftirlíkingu af eigin lífi á sviði eða skjánum. Sviðs- og skjálíf er ýkt líf, æsilegra hliðarlíf þar sem allt getur gerst. Þar er hægt að stíga út fyrir regluverk hins raunsanna og endurskrifa allt eftir hentugleika. En ef hið ýkta og æsilega er normið þegar lifað er á sviði, hafa þá persónur og leikendur ekki þörf fyrir að endurskoða og búa til enn æsilegri útgáfur af sjálfum sér? Af aðstæðum? Eru þau ekki hungruð í meira, alveg eins og áhorfandinn? Hversu oft er hægt að endurskoða endurskoðun á raunveruleikanum þar til dramað verður að skopstælingu á sjálfu sér? Hvenær verður meira miklu meira en nóg?

Leikhóp Stúdentaleikhússins skipa þau Andrés Pétur Þorvaldsson, Ari Freyr Ísfeld Óskarsson, Gunnar Smári Jóhannesson, Ingvar Örn Arngeirsson, Iona Sjöfn Huntington-Williams, Laufey Haraldsdóttir, María Dögg Nelson og Þuríður Davíðsdóttir.

Sýningin verður önnur af tveimur síðustu leiksýningunum á Norðurpólnum en leikhúsið missir húsnæði sitt í byrjun sumars. Starfsemi Norðurpólsins hefur verið gríðarlega mikilvæg fyrir íslenskt leikhús- og listalíf og er sýningin AUKA eitt hinnsta tækifæri leikhúsunnenda til að upplifa leikhústöfra innan veggja Norðurpólsins á Sefgörðum 3.

Miðasala fer fram á studentaleikhusid@gmail.com og í síma 868-9721.