Leikár Kómedíuleikhússins er bæði ferskt og klassískt. Alls verða sex sýningar á fjölum leikhússins á nýju leikári þar á meðal frumsýnir Kómedíuleikhúsið nýjan Íslenskan einleik,  Auðun og ísbjörninn, sem er byggður á samnefndum Íslendingaþætti sem er án efa sá besti og vandaðasti Íslendingaþátta. Í Auðun og ísbjörninn halda Elfar Logi og Soffía Vagnsdóttir áfram farsælu samstarfi sínu en áður hafa þau unnið að tveimur vinsælum Kómedíuleikjum. Tveir kunnir listamenn vinna einnig að sýningunni en það eru þau Hrólfur Vagnsson sem semur tónlist sérstaklega fyrir uppfærsluna og Marsibil G. Kristjánsdóttir sem gerir leikmynd og búninga. Bæði hafa þau áður unnið fyrir Kómedíuleikhúsið með frábærum árangri.

Seinni frumsýning leikársins er Forleikur ’09 sem er samstarfsverkefni við Litla leikklúbbinn á Ísafirði. Hér er á ferðinni fersk og fjörug syrpa af einleikjum. Fjögur verk frá fyrri árum verða einnig í boði á leikárinu. Einleikurinn Pétur og Einar var frumsýndur í sumar við frábærar undirtektir og verður leikurinn sýndur áfram í Einarshúsi í Bolungarvík. Jólasveinar Grýlusynir fara aftur á stjá í lok nóvember og verða á fjölunum bæði fyrir vestan og sunnan. Dimmalimm hefur nú sitt fjórða leikár og verða sýningar um land allt. Síðast en ekki síst verður verðlaunaleikurinn Gísli Súrsson á fjölunum fimmta árið í röð en leikurinn hefur verið sýndur hátt í 200 sinnum.

Kómedíuleikhúsið hefur ávallt sinnt einleiknum af mikilli ástríðu og í vetur mun leikhúsið bjóða uppá einleikna leiklestra. Fluttir verða valinkunnir og ókunnir íslenskir einleikir annan hvern mánuð í vetur. Fyrsti leiklesturinn verður í nóvember en þá verður fluttur einleikurinn Knall eftir Jökul Jakobsson en í ár eru 75 ár frá fæðingu leikskáldsins. Áfram með lesturinn því Kómedíuleikhúsið mun halda áfram samstarfi sínu við Safnahúsið á Ísafirði og bjóða mánaðarlega uppá Vestfirska húslestra í vetur.

Kómedíuleikhúsið hefur haslað sér völl í hljóðbókaútgáfu og mun á leikárinu gefa út tvær nýjar hljóðbækur en óhætt er að segja að bækurnar hafi slegið í gegn. Act alone leiklistarhátíðin verður haldin í sjötta árið í röð 1. – 5. júlí 2009 og að vanda sér Kómedíuleikhúsið um listræna stjórnun hátíðarinnar. Fjölmargt annað verður í boði hjá Kómedíuleikhúsinu í vetur og því um að gera að fylgjast vel með Kómedíunni á heimasíðu leikhússins www.komedia.is sem er opin allan sólarhringinn! Á heimasíðunni færð þú allar upplýsingar um leikhúsið og sýningar okkar. Þar getur þú keypt miða eða pantað leiksýningu fyrir hópa. Einnig getur þú verslað hljóðbækur og síðast en ekki síst lesið Kómískar fréttir reglulega. Hægt er að gerast áskrifandi að Kómedíufréttum og þá missir þú af engu. Kómedíuleikhúsið verður semsagt á ferð og flugi allt leikárið en að lokum má geta þess að þetta stóra vestfirska leikhús sýnir yfir 120 sýningar á ári bæði hér heima og erlendis.

Hlökkum til að sjá ykkur í leikhúsinu

Sýningar Kómedíuleikhússins 2008-9:

Auðun og ísbjörninn
Höfundar: Elfar Logi Hannesson, Soffía Vagnsdóttir Leikstjóri: Soffía Vagnsdóttir Leikari: Elfar Logi Hannesson Leikmynd, búningar: Marsibil G. Kristjánsdóttir
Tónlist: Hrólfur Vagnsson
Sýningartímabil: Frumsýnt í mars/apríl 2009 og út leikárið
Sýningarstaður: Tjöruhúsið Ísafirði og um land allt

Auðunar þáttur vestfirzka er einn besti og vandaðist allra Íslendinga þátta. Hér segir af bóndastrák að vestan sem leggst í víking og á vegi hans verður ísbjörn. Auðun ákveður að færa Danakonungi björninn og hefst þá ævintýralegt ferðalag piltsins og bjarnarins.

Dimmalimm
Eftir Mugg
Höfundar: Elfar Logi Hannesson, Sigurþór A. Heimisson Leikstjóri: Sigurþór A. Heimisson Leikari: Elfar Logi Hannesson Leikmynd: Kristján Gunnarsson, Marsibil G. Kristjánsdóttir, Sigurþór A. Heimisson Búningar: Alda Veiga Sigurðardóttir Brúður: Alda Veiga Sigurðardóttir, Marsibil G. Kristjánsdóttir Tónlist: Jónas Tómasson ofl.
Sýningartímabil: Allt leikárið
Sýningarstaður: Tjöruhúsið Ísafirði og um land allt

Leikurinn er byggður á samnefndu ævintýri eftir Mugg og hefur notið gífurlegra vinsælda enda sýnt fjórða leikárið í röð.

Forleikur ‘09
Í samstarfi við Litla leikklúbbinn
Höfundar: Ýmsir Leikarar: Félagar í Litla leikklúbbnum Leikstjórn: Elfar Logi Hannesson
Sýningartímabil: Vetur og vor 2009
Kómedíuleikhúsið og Litli leikklúbburinn halda áfram með samstarfið frá síðasta leikári þegar settir voru á svið valdir einleikir. Sýningin ber nafnið Forleikur ’09 og verða sýndir nokkrir stuttir einleikir. Nánari upplýsingar um uppfærsluna og sýningarstað liggur fyrir eftir áramótin á heimasíðunni.

Gísli Súrsson
Höfundar: Elfar Logi Hannesson, Jón Stefán Kristjánsson Leikstjóri: Jón Stefán Kristjánsson Leikari: Elfar Logi Hannesson Leikmynd: Jón Stefán Kristjánsson
Leikmunahönnun: Marsibil G. Kristjánsdóttir Búningar: Alda Veiga Sigurðardóttir
Sýningartímabil: Allt leikárið
Sýningarstaður: Tjöruhúsið Ísafirði og um land allt

Verðlaunasýningin og vinsælasta leikrit allra tíma á Vestfjörðum verður nú sýnt fimmta leikárið í röð en leikurinn hefur verið sýndur hátt í 200 sinnum.

Jólasveinar Grýlusynir
Höfundar: Elfar Logi Hannesson, Soffía Vagnsdóttir Leikstjóri: Soffía Vagnsdóttir
Leikari: Elfar Logi Hannesson Leikmynd, brúður, grímur: Marsibil G. Kristjánsdóttir
Ljósahönnun: Jóhann Daníel Daníelsson Tónlist: Hrólfur Vagnsson
Sýningartímabil: Nóvember – desember 2008
Sýningarstaður: Tjöruhúsið Ísafirði og um land allt

Hér er á ferðinni sprellfjörugur leikur um gömlu íslensku jólasveinanna og ýmsum spurningum reynt að svara um þessa skrítnu kalla. Hvers vegna er Stúfur minnstur jólasveinanna? Af hverju er Stekkjastaur svona hár til hnésins? Var fjórtándi jólasveinninn til? Eru Askasleikir og Bjúgnakrækir tvíburar? Allt þetta og miklu meira fáum við að heyra um í sýningunni um Grýlusynina. Því inní ævintýrið fléttast allt annað ævintýri um nútíma unglingspilt sem hefur verið sendur til fjalla að leita að kúnni Búkollu. Jólasveinar Grýlusynir er bráðfjörugur jólaleikur með mikið af tónlist og almennu jólasveinasprelli að hætti gömlu íslensku jólasveinanna.
Jólasveinar Grýlusynir hefur fengið frábærar viðtökur barna á öllum aldri og er leikurinn nú að hefja sitt annað leikár.

Pétur og Einar
Höfundur, leikstjóri: Soffía Vagnsdóttir Leikari: Elfar Logi Hannesson
Tónlist: Hrólfur Vagnsson ofl
Sýningartímabil: September, nóvember 2008. Mars – agúst 2009
Sýningarstaður: Einarshús Bolungarvík

Elfar Logi túlkar líf og störf þeirra manna sem settu hvað mestan svip á Bolungarvík á miklum uppgangstímum og sveipar sögu þeirra ævintýraljóma. Frumkvöðlarnir Pétur Oddsson og Einar Guðfinnsson voru miklir athafnamenn hvor á sínum tíma og stjórnuðu stórveldum sínum af skörungsskap. Þeir bjuggu báðir í húsi harma og hamingju, Péturshúsi sem síðar var nefnt Einarshús. Leikurinn hefur fengið frábærar viðtökur áhorfenda enda er hér á ferðinni vandað verk og stórmerkileg saga úr sjávarþorpi.

Vestfirskur húslestur
Í samstarfi við Safnahúsið Ísafirði
Bókmenntadagkrá í umsjón Elfars Loga Hannessonar og Jónu Símoníu Bjarnadóttur
Sýningartímabil: Nóvember 2008 – maí 2009
Sýningarstaður: Gamla sjúkrahúsið (Safnahúsið) Ísafirði
Aðgangur ókeypis
Mánaðarlega í vetur stendur Kómedíuleikhúsið í samstarfi við Safnahúsið á Ísafirði fyrir Vestfirskum húslestri. Tekið verður fyrir eitt eða fleiri skáld hverju sinni sem tengjast Vestfjörðum á einn eða annan máta.

Leiklestrar – Íslenskir einleikir
Sýningartímabil: Nóvember 2008 – maí 2009
Sýningarstaður: Tjöruhúsið
Aðgangur ókeypis
Kómedíuleikhúsið mun á leikárinu standa fyrir nokkrum leiklestra kvöldum. Fluttir verða valinkunnir og ókunnir íslenskir einleikir. Flytjendur verða leikarar á Ísafirði. Leiklestrarnir verða haldnir annan hvern mánuð og verður sá fyrsti í nóvember og sá síðasti í maí. Nánari upplýsingar um leiklestrana á heimasíðunni.

Act alone leiklistarhátíð
Sýningartímabil: 1. – 5. júlí á Ísafirði
Sýningarstaður: Ísafjörður og nágrenni
Heimasíða: www.actalone.net
Aðgangur ókeypis
Act alone leiklistarhátíðin verður haldin sjötta árið í röð árið 2009 á Ísafirði en Kómedíuleikhúsið sér um listrænastjórnun hátíðarinnar. Act alone er helguð einleikjum og er eina hátíð sinnar tegundar á Íslandi. Hátíðin hefur notið fádæma vinsælda og hafa fjölmargir listamenn komið fram á hátíðinni má þar nefna Eric Bogosian, Felix Bergsson, Guðrúnu Ásmundsdóttur, Hallveigu Thorlacius, Hörð Torfa, Ilmi Kristjánsdóttur, Kristján Ingimarsson, Ole Brekke og marga marga fleiri. Á Act alone 2009 verður boðið uppá fjölda innlendra og erlendra einleikja og að vanda er aðgangur ókeypis. Allar upplýsingar og dagskrá Act alone er að finna á heimasíðu hátíðarinnar.

Hljóðbækur Kómedíuleikhússins
Kómedíuleikhúsið gefur út tvær hljóðbækur á leikárinu. Fyrri hljóðbókin kemur út fyrir jól og nefnist Þjóðsögur af Ströndum og er það fimmta hljóðbók leikhússins. Í vor verður síðan gefin út hljóðbókin Þjóðsögur frá Súðavík. Hljóðbækur Kómedíuleikhússins fást í vefverslun leikhússins www.komedia.is og í verslunum um land allt.

Hurðaskellir og Stúfur mála bæinn rauðann
Kómedíuleikhúsið hefur endurnýjað samstarfssamning við jólasveinana Hurðaskelli og Stúf. Leikhúsið hefur síðustu árin séð um að skipuleggja ferðlag þeirra til byggða með góðum árangri og er óhætt að segja að sveinarnir hafi málað bæinn rauðann. Sveinarnir koma í skóla, á jólaböll og bara allsstaðar þar sem fólk kemur saman.

{mos_fb_discuss:3}