Aukasýningar á Gutta um helgina

Aukasýningar á Gutta um helgina

Tvær aukasýningar verða á Gutta og félögum hjá Leikfélagi Kópavogs nú um helgina. Þegar er uppselt á sýningu sun. 7. apríl og miðum fer óðum fækkkandi lau. 6. apríl. Uppselt hefur verið á allar sýningar frá byrjun. Gutti og félagar er byggt á Guttavísum og fleiri kvæðum Stefáns Jónssonar. Flestir sem komnir eru á fullorðinsár þekkja vísurnar um óþekktarangann Gutta og prakkarastrik hans en Gutti er einmitt aðalpersónan í leiksýningunni ásamt félögum sínum úr hverfinu. Nánari upplýsingar á www.kopleik.is.

Verkið er eftir Örn Alexandersson en hann er jafnframt leikstjóri. Auk Gutta eru aðrar persónur úr kveðskap Stefáns sem allir þekkja, svo sem Óli Skans og Vala kona hans, Ranka sem var rausnarkerling, Pennastokkur læknir og fleiri koma einnig við sögu í verkinu. Stefán Jónsson er einn ástsælasti rithöfundur þjóðarinnar og sögur hans og ljóð hafa lifað með okkur um áratugaskeið. Sögurnar um Hjalta litla auk ljóða hans og vísna um Gutta, Ara og fleiri minnisstæða karaktera eiga ríkan hljómgrunn meðal landsmanna. Um Stefán hefur verið sagt: „Hann leitaðist við að segja börnum sögur sem gerðu þau að þenkjandi manneskjum og að sama skapi höfða til barnsins í þeim“

Gutti og félagar henta sérstaklega börnum á aldrinum 4-104 ára. Ákveðið hefur verið að miðaverð geri fjölskyldunni kleift að koma saman á sýninguna án þess að stórsjái á buddunni og miðinn kostar því aðeins 1.200 kr. Hægt er að kaupa miða á www.midakaup.is/kopleik en einnig er hægt að senda miðapöntun á midasala@kopleik.is .

0 Slökkt á athugasemdum við Aukasýningar á Gutta um helgina 441 05 apríl, 2013 Allar fréttir apríl 5, 2013

Áskrift að Vikupósti

Karfa