Greinargerð valnefndar:
Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í tuttugasta sinn. Að þessu sinni sóttu alls sautján leikfélög um að koma til greina við valið, með jafn margar sýningar. Það var afar ánægjulegt að skoða þessar fjölbreyttu sýningar, víðsvegar að af landinu og verða enn á ný vitni að gróskunni í starfi áhugaleikfélaganna. Til þess að gæta jafnræðis milli leikfélaganna voru allar sýningar skoðaðar af upptöku á DVD, og rétt er að nota tækifærið og minna á mikilvægi þess að mynd- og hljóðgæði séu nægileg.
Í dómnefnd í ár sátu Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri, Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leiklistarráðunautur Þjóðleikhússins og leikararnir Edda Arnljótsdóttir og Ævar Þór Benediktsson.
Eftirtalin leikfélög sóttu um með þessar sýningar:
1. Borgarbörn, barna- og unglingaleikhús: Jólaævintýrið eftir Erlu Ruth Harðardóttur sem jafnframt leikstýrir. Í Jólaævintýrinu fá fjölmörg börn fá að njóta sín vel í söng og dansi, og taka út mikinn þroska á sviði leiklistarinnar.
2. Freyvangsleikhúsið: Dagatalsdömurnar eftir Tim Firth. Leikstjóri: Sigrún Valbergsdóttir. Félagar í Freyvangsleikhúsinu skila vel bæði gamansemi og dramatík í þessu mikilvæga verki.
3. Halaleikhópurinn: Rympa á ruslahaugnum eftir Herdísi Egilsdóttur. Leikstjóri: Herdís Ragna Þorgeirsdóttir. Halaleikhópurinn gæðir þetta verk, sem miðlar á skemmtilegan hátt góðum boðskap, einstöku lífi. Leikhópurinn stóð sig vel og það gerði líka hinn bráðskemmtilegi ruslahaugur!
4. Leikdeild Ungmennafélags Gnúpverja: Saumastofan eftir Kjartan Ragnarsson. Leikstjóri: Svandís Dóra Einarsdóttir. Félagar í leikdeildinni skiluðu líflegri sýningu á leikritinu, sem má segja að sé orðið sígilt í íslensku áhugaleikhúsi.
5. Leikfélag Dalvíkur: Eyrnalangir og annað fólk eftir Kristínu og Iðunni Steinsdætur. Leikstjóri: Saga Jónsdóttir. Mikill kraftur og leikgleði einkenndi þessa hressilegu og skemmtilegu sýningu fyrir alla fjölskylduna, sem vekur til umhugsunar um ýmsa mikilvæga hluti.
6. Leikfélag Fljótsdalshéraðs og Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum: Kardemommubærinn eftir Thorbjörn Egner. Leikstjóri: Gunnar Björn Gunnarsson. Gaman var að sjá þennan stóra hóp af ungu fólki skila vel hinu kunna leikriti Egners, í fallegri leikmynd.
7. Leikfélag Hafnarfjarðar: Sjóræningjaprinsessan eftir Ármann Guðmundsson. Leikstjóri: Lárus Vilhjálmsson. Leikfélag Hafnarfjarðar sýndi kraftmikla sýningu á þessu skemmtilega verki.
8. Leikfélag Hörgdæla: Djákninn á Myrká eftir Jón Gunnar Þórðarson sem jafnframt leikstýrir. Leikfélag Hörgdæla setti á svið afar metnaðarfulla sýningu þar sem skáldað var upp úr hinni kunnu þjóðsögu úr héraðinu og mikið lagt í umgjörð og tónlist.
9. Leikfélag Keflavíkur: Með vífið í lúkunum eftir Ray Cooney. Leikstjóri: Oddur Bjarni Þorkelsson. Leikfélag Keflavíkur sýndi fjöruga sýningu á þessum kunna gamanleik.
10. Leikfélag Kópavogs: Gutti og félagar eftir Örn Alexandersson sem jafnframt leikstýrir. Leikfélag Kópavogs frumflutti hér nýtt verk fyrir börn, þar sem skemmtilega var unnið með efni eftir Stefán Jónsson.
11. Leikfélag Mosfellssveitar: Kántrý Mos eftir Maríu Guðmundsdóttur. Leikstjóri: Þórunn Lárusdóttir. Leikfélag Mosfellssveitar sýndi fjörugt verk sem samið var sérstaklega fyrir félagið, og félagar nutu sín vel í leik og tónlistarflutningi.
12. Leikfélag Ólafsfjarðar og Leikfélag Siglufjarðar: Stöngin inn eftir Guðmund Ólafsson sem jafnframt leikstýrir. Hin nýsameinuðu leikfélög í Fjallabyggð fluttu af krafti nýtt og bráðskemmtilegt gamanleikrit.
13. Leikfélag Sauðárkróks: Tifar tímans hjól eftir Guðbrand Ægi Ásbjörnsson og Árna Gunnarsson. Leikstjóri. Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson. Leikfélag Sauðarkróks sinnir frumsköpun af miklum metnaði í þessu nýja verki með skemmtilegri tónlist eftir Geirmund Valtýsson.
14. Leikfélag Selfoss: Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarson. Leikstjóri: Lilja Nótt Þórarinsdóttir. Leikfélag Selfoss setti upp skemmtilega sýningu á þessu vinsæla verki.
15. Leikfélag Vestmannaeyja: Grease. Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir. Leikfélag Vestmannaeyja setti upp fjöruga sýningu á þessum margreynda söngleik, þar sem leikarar, tónlist, dansar og lýsing nutu sín vel þrátt fyrir smæð rýmisins.
16. Leikfélag Ölfuss: Rummungur ræningi eftir Otfried Preussler. Leikstjóri: Ármann Guðmundsson. Sýning Leikfélags Ölfuss er sýning með stórt hjarta, en hún einkenndist af mikilli hlýju og leikararnir sátu vel í hlutverkum sínum.
17. Stúdentaleikhúsið: Nashyrningarnir eftir Eugene Ionesco. Leikstjóri: Árni Kristjánsson. Sýning Stúdentaleikhússins á þessu merkingarþrungna verki var myndræn og kraftmikil og vel var unnið með líkamsbeitingu leikara.
Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja að þessu sinni sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2012-2013 sýningu Leikfélags Ólafsfjarðar og Leikfélags Siglufjarðar á Stöngin inn.
Umsögn dómnefndar um sýninguna:
Leikfélag Ólafsfjarðar og Leikfélag Siglufjarðar sameinuðu krafta sína í uppsetningunni á þessu skemmtilega nýja íslenska verki eftir Guðmund Ólafsson með frábærum árangri. Það er greinilega mikill kraftur í hinum sameinuðu leikfélögum, sem láta sig ekki muna um að brjótast í gegnum skaflana í Héðinsfirði til að skapa skemmtilega og fjöruga leiklist sem hefur hitt rækilega í mark í heimahéraði.
Leikritið vísar í forngríska gamanleikinn Lýsiströtu þar sem konurnar reyna að fá karlana til að láta af stríðsrekstri með því að setja þá í kynlífsbann, en hér eru það konurnar í litlu bæjarfélagi sem freista þess að fá karlana til að sýna sér meiri athygli, og hætta að horfa á fótbolta í tíma og ótíma, með kynsvelti. Hugmyndin virkar þrælvel og er vel heppnað og gamansamt innlegg í umræðuna um samskipti kynjanna.
Verkið hentar leikhópnum vel, leikgleðin er mikil og leikararnir ná að móta bráðskemmtilegar persónur. Skýr framsögn, góð tilfinning fyrir tímasetningum og ákveðin hlýja gagnvart persónunum og viðfangsefninu skilar bráðfyndinni og skemmtilegri leiksýningu.
Þjóðleikhúsið óskar leikfélögunum á Siglufirði og Ólafsfirði til hamingju og býður þeim að koma og sýna Stöngin inn á Stóra sviði Þjóðleikhússins sunnudagskvöldið 16. júní.