Halaleikhópurinn hefur ráðið Pétur Eggerz til að leikstýra leikhópnum í vetur. Skrifað var undir samninginn á almennum félagsfundi í Halanum þann 26. sept. Verið er að skoða ýmis leikrit og verður það kynnt þegar það verður ákveðið. 

Pétur Eggerz er fæddur og uppalinn í Reykjavík, lengst af í Breiðholtinu. Eftir nám í bókmenntafræði við Háskóla Íslands nam hann leiklist í Lundúnum og útskrifaðist þaðan 1984. Hann hefur tekið þátt í leiksýningum hjá Leikfélagi Akureyrar, Þjóðleikhúsinu, Alþýðuleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur og víðar. Honum hefur einnig brugðið reglulega fyrir í kvikmyndum og sjónvarpi. Þá vann hann um hríð við dagskrárgerð á Rás 1.

Pétur var einn stofnenda Möguleikhússins árið 1990 og starfaði þar í nær þrjá áratugi sem leikari, leikstjóri og höfundur. Meðal verka sem hann vann fyrir Möguleikhúsið má t.d. nefna Eldklerkinn, einleik sem fjallar um séra Jón Steingrímsson. Þá hefur hann ásamt Guðna Franzsyni séð um heimsóknir íslensku jólasveinana í Þjóðminjasafnið allt frá árinu 1995.

Pétur er einnig menntaður leiðsögumaður og hefur gegnum tíðina þvælst talsvert með ferðamenn um landið.