ImageLeikhúsin gera hlé á sýningum síðustu dagana fyrir jól en leikhúsunnendur geta ennþá fundið eitt og annað áhugavert á fjölunum.

Hugleikur sýnir Jólaævintýrið í Tjarnarbíói á laugardag og sunnudag og Leikfélag Hafnarfjarðar verður með aukasýningu á Hinni endanlegu hamingju í gamla Lækjarskóla á föstudginn.

Image

Leikfélag Akureyrar sýnir þrjár sýningar á Fullkomnu brúðkaupi um næstu helgi, í Þjóðleikhúsinu er Leitin að jólunum sýnt á næstum hverjum degi til 22. desember og þar verður einnig Edit Piaf-dagskrá mánudaginn 19. Í Borgarleikhúsinu er sýning Nemendaleikhússins á Þrem systrum sýnd tvisvar um helgina og í Iðnó sýnir Hilmir Snær Ég er mín eigin kona þrisvar frá fimmtudegi til sunnudags. Leikhópurinn Á senunni sýnir Ævintýrið um Augastein í Tjarnarbíói fimm sinnum frá miðvikudegi til sunnudags og Möguleikhúsið ferðast þessa dagana milli leik- og grunnskóla með hina gamalkunnu sýningu Smiður jólasveinanna. Stoppleikhópurinn ferðast líka um þessar mundir milli skóla með jólaleikritið Síðasta stráið.

Leiklistarvefurinn hefur ekki upplýsingar um fleiri leiksýningar til jóla en ef þú, lesandi góður, veist meira, endilega sendu okkur þá línu á info@leiklist.is.

Heimildir: viðburðadagatalið á leiklist.is og Mbl.
Efri myndin er af Freysteini, hinum framliðna guðsmanni úr Hinni endanlegu hamingju Leikfélags Hafnarfjarðar en sú neðri úr Jóladagatali Hugleiks.