Stjórn BÍL sendi út tilkynningu vegna Covid-19 veirunnar í gær þar sem því var beint til stjórna félaganna að fara yfir stöðuna og taka ákvarðanir í samræmi við tilmæli heilbrigðisyfirvalda. Í dag, eins og allir ættu að vita, hefur verið tilkynnt um  samkomubann frá og með 15. mars. Engu að síður hafa mörg félög þegar ákveðið að fresta yfirstandandi sýningum sem áttu að fara fram um helgina. Frestað hefur verið sýningum frá og með deginum í dag á Djöflaeyjunni hjá Leikfélagi Selfoss, Fjallinu hjá Leikfélagi Kópavogs og þá hefur Leikfélag Ölfuss sýnt lokasýningu á Kleinum. Leikfélag Fjallabyggðar sýndi síðustu sýningu á Þrek og tár í bili, í gær.
Leikfélag Vestmannaeyja, Leikfélag Mosfellssveitar og Leikflokkur Húnaþings vestra hafa þegar frestað frumsýningum á sýningum sem hafa verið í vinnslu. Fleiri félög eru að skoða sín mál og munu væntanlega tilkynna ákvarðanir sínar í kjölfarið.

Vert er að benda á að reglur um samkomubann geta einnig gilt um leikæfingar. Við hvetjum félögin til að huga vel að sínum málum og taka skynsamlegar ákvarðanir í ljósi tilmæla heilbrigðisyfirvalda.