ImageSeinni hluti leikárs Leikfélags Akureyrar hefur verið stokkaður upp og sýningartími Fullkomins brúðkaups framlengdur vegna fjölda áskorana.
Frumsýningu Maríubjöllunnar verður flýtt og nýtt leikrými verður tekið í notkun en frumsýningu Litlu hryllingsbúðarinnar verður seinkað.
 

Vegna gríðarlegrar eftirspurnar eftir miðum á Fullkomið brúðkaup og fjölda áskorana hefur seinni hluti leikársins 2005-2006 hjá LA verið endurskipulagður og stokkaður upp. Ákveðið hefur verið að halda áfram sýningum á Fullkomnu brúðkaupi í janúar og febrúar. Til að gera þessa breytingu möglega þarf að fresta frumsýning á söngleiknum Litla hryllingsbúðin en hún verður frumsýnd þann 23. mars. Frumsýningu á Maríubjöllunni er á hinn bóginn flýtt til 17. febrúar en sú sýning verður frumsýnd í nýju leikrými sem LA tekur í notkun og getur því gengið samhliða sýningum á Fullkomnu brúðkaupi.
 
Sýningum á Fullkomnu brúðkaupi átti að ljúka um áramótin enda sýnir LA nú eftir nýju sýningarfyrirkomulagi, þar sem hvert verk er sýnt þétt í tiltekinn tíma en aukasýningum bætt við eftir því sem þörf er á. Í tilfelli Fullkomins brúðkaups hefur þetta þó ekki nægt, því troðfullt hefur verið á allar sýningar og aukasýningar sem bætt hefur verið við hafa allar selst upp jafnóðum. Sýningin hefur verið sýnd allt að fimm sinnum í viku hverri en ekkert lát er á aðsókn. Til að mæta óskum áhorfenda er því brugðist við með því að hliðra til dagskrá eftir áramót sem gerir leikhúsinu kleift að halda áfram sýningum á hinum vinsæla gamanleik.
 
Aukasýningarnar á Fullkomið brúðkaup í janúar og febrúar voru settar í sölu í morgun. Forsala á Maríubjölluna hefst 25. janúar en forsala á Litlu hryllingsbúðina hefst þann 20. febrúar. Rétt er að ítreka hvatningu til leikhúsunnenda að tryggja sér miða í tíma, enda hefur það ítrekað gerst í vetur að færri komist að en vilja. Miðasala er opin alla virka daga frá kl. 13-17 og allan sólarhringinn á netinu. Miðasölusíminn er 4 600 200.