Laugardaginn, 18. janúar, eftir sýningu á leikritinu Lúkas, munu leikendur og leikstjóri setjast niður með áhorfendum og ræða leikritið. Sýningin hefst kl. 20.00 en verður lokið um 21.30. Þá munu Stefán Hallur Stefánsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir og Friðrik Friðriksson, sem fara með hlutverk í leikritinu, og Marta Nordal, leikstjóri, setjast niður á kaffihúsi Tjarnarbíós og ræða við áhorfendur og aðra gesti um sýninguna. Þau munu svara spurningum, sem áhorfendur kunna að hafa, og segja frá sinni upplifun af verkinu.

Leikritið Lúkas eftir Guðmund Steinsson var frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu þann 28. desember síðastliðinn og hlaut mikið lof gagnrýnenda og áhorfenda. Lísa Pálsdóttir gaf sýningunni fullt hús á Rás 2, Hlín Agnarsdóttir gaf henni 4 stjörnur á DV, Jón Viðar Jónsson talaði um leiksigur og gagnrýnandi Víðsjár sagði þetta eina bestu sýningu ársins.

Leikritið fjallar um kúgun og meðvirkni og segir frá hjónunum Sólveigu og Ágústi sem taka reglulega á móti matargestinum Lúkasi en líf þeirra virðist snúast um þessar heimsóknir. Þau dýrka hann og leggja sig í líma við að gera honum til hæfis en Lúkas er hverflyndur og leikur sér að þeim líkt og köttur að mús og þau lifa í stanslausum ótta við refsingu.

Sérstök tilboð verða í boði á barnum meðan á leikhússpjalli stendur, en það mun standa milli 21.30 og 22.30.

Miðar eru seldir á Miði.is, en einnig má panta í midasala@tjarnarbio.is og í síma 527-2100.