LA frumsýnir Gullna hliðið

LA frumsýnir Gullna hliðið

Gullna hliðið eftir Davíð Stefánsson verður frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar 17. janúar n.k. Egill Heiðar Anton Pálsson leikstýrir verkinu en það er nú sett upp í fjórða sinn hjá LA. Sýningin er hátíðarsýning félagsins á 40 ára atvinnuafmæli þess. Verkið fjallar um uppgjör kerlingar við líf sitt og Jón mann sinn. Ferðalag hennar til hins gullna hliðs með sálartetur bónda síns í skjóðu er löngu orðið þekkt í íslenskum leikbókmenntum og leitast uppfærslan við að vera trú þessari reisu og varpa ljósi á hvaðan við komum.

Hljómsveitin Eva með þær Sigríði Eir Zophoníasardóttur og Jóhönnu Völu Höskuldsdóttur innanborðs semja nýja tónlist við verkið og taka þátt í uppfærslunni með lifandi tónlistarflutningi. Með hlutverk kerlingarinnar fer María Pálsdóttir sem eftir nokkuð hlé stígur aftur á fjalirnar hjá LA. Auk hennar leika Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, Hilmir Jensson og þrettán nemendur úr Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar í sýningunni.  Egill Ingibergsson hannar leikmynd og lýsingu, Helga Oddsdóttir hannar búninga, Ingibjörg Huld Haraldsdóttir er aðstoðarleikstjóri og Gígja Hólmgeirsdóttir aðstoðarkona er í starfsnámi hjá LA.

Úr formála Gullna hliðsins:

Hér verður grýttur götuslóði rakinn,
og gömul kynslóð upp frá dauðum vakin,
svo þeir, sem ungir eru, megi skilja,
hið innra stríð, sem liðnir tímar dylja.
Því þar á trú vor, ef að líkum lætur,
í leyndu djúpi sínar meginrætur.
Aldirnar líða. Kynslóðirnar hverfa.
En hvað er það, sem börnin erfa?

Davíð Stefánsson

0 Comments Off on LA frumsýnir Gullna hliðið 410 16 January, 2014 Allar fréttir January 16, 2014

Áskrift að Vikupósti

Karfa