Loksins geta leikhúsunnendur barið augum sýninguna dularfullu sem hreppti titilinn Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins í árlegri samkeppni Þjóðleikhússins. Sýningar verða tvær, fimmtudag 7. júní og föstudag 8. júní og er þegar uppselt á fyrri sýninguna. Miðapantanir eru hjá miðasölu Þjóðleikhússin.

Listin að lifa var sett upp í tilefni af 40 ára afmæli Leikfélags Fljótsdalshéraðs. Í tilefni þessa merkisafmælis ákvað stjórn félagsins að láta skrifa fyrir sig leikrit. Til þess var ráðið eitt af afsprengjum leikfélagsins.

Þetta er í fyrsta sinn sem Leikfélag Fljótsdalshéraðs verður fyrir valinu í vali Þjóðleikhússins á Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins.

Höfundur verksins, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, er frá Egillsstöðum og steig sín fyrstu skref á leiksviði með Leikfélagi Fljótsdalshéraðs á unglingsárum. Síðan hefur hún getið sér gott orð sem leikskáld með skrifum sínum fyrir Hugleik og fleiri félög. Annað verk eftir hana, Ungir menn á uppleið sem Stúdentaleikhúsið setti upp árið 2001 var einnig valin athygliverðasta áhugaleiksýning ársins það ár.

Leikstjóri sýningarinnar er Oddur Bjarni Þorkelsson. Hann er einn mikilvirkasti leikstjóri landsins þessi árin. Hann er orðinn héraðsmönnum að góðu kunnur, en hefur á undanförnum árum leikstýrt fjölda verka hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs og Leikfélagi Menntaskólans á Egilsstöðum. Má þar nefna My Fair Lady, Leikfélag Fljótsdalshéraðs 1998, Þrek og tár, Leikfélag Fljótsdalshéraðs 2002, Stútungasaga, Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum 2003 og Sex í sveit sem sló eftirminnilega í gegn hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs í fyrra. Margar þessara sýninga hafa einnig komið sterklega til greina í vali Þjóðleikhússins á undanförnum árum.

Frumsamin tónlist er í sýningunni, en hana samdi Hjalti Jón Sverrisson og útsetti. Hann er einnig annar höfunda verksins Súper Maríó sem Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum var með á fjölunum í vetur. Leikmynd hannaði Unnur Sveinsdóttir, myndlistarmaður, sem hefur mikið fengist við leikmyndagerð, m.a. hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs og Hugleik. Margrét Sverrisdóttir, leikkona hannaði búninga, en hún hefur starfað við leik, leikstjórn og fleira leikhústengt víða um land, meðal annars með Leikfélagi Húsavíkur og leikhópnum Kláusi. Um ljósahönnun sá Guðrún Lilja Magnúsdóttir en hún hefur áralanga reynslu af ljósahönnun í ýmis konar sýningum og starfar nú sem ljósamaður við Borgarleikhúsið. Fjóla Egedía Sverrisdóttir hannaði leikmuni, en hún hefur komið að útlitshönnun sýninga Leikfélags Fljótsdalshéraðs nú um nokkurra ára skeið, auk þess að leika bæði með Leikfélagi Fljótsdalshéraðs og Leikfélagi Reyðarfjarðar.

listin.jpgÞrír leikarar fara með hlutverk í sýningunni. Þar ber fyrstan að nefna Þráinn Sigvaldason sem einnig gegnir formennsku í leikfélaginu um þessar mundir. Hann hefur starfað með félaginu um árabil, auk þess sem hann hefur komið nálægt starfsemi annarra félaga, svo sem Leikfélags Rangæinga og Hugleiks. Oddný Ólafía Sævarsdóttir fer einnig með hlutverk í sýningunni. Hún hefur leikið með Leikfélagi Fljótsdalshéraðs og Leikfélagi Menntaskólans á Egilsstöðum auk þess sem hún hefur nýlokið eins árs leiklistarnámi í Kanada. Þriðji leikarinn er síðan Eygló Daníelsdóttir. Hún hefur komið sterk inn í starfsemi félagsins í vetur, en þetta er frumraun hennar á leiksviði.

Valnefnd Þjóðleikhússins rökstuddi valið á sýningunni sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins, svo:

Í Listinni að lifa fer saman góð tilfinning höfundar fyrir því sem gerir texta áhugaverðan til flutnings á leiksviði sem og skapandi og frumleg úrvinnsla leikstjórans á efnivið höfundar. Leikritið lýsir lífi þriggja einstaklinga nánast frá vöggu til grafar og er margslungið í einfaldleika sínum. Höfundur fjallar m.a.um ást og vináttu, framhjáhald og svik og gefur okkur leikræna mynd af þeim línudansi sem lífið stundum er. Leikendurnir þrír skila þessum línudansi af sannfæringu og skapa þannig eftirminnilega sýningu. Í uppfærslunni hefur leikstjórinn unnið meðvitað með leikmynd, liti, ljós og hljóð, allt til að ná fram áhrifum leiktextans og sérkennum persónanna í verkinu. Í heildina er Listin að lifa verulega athyglisverð leiksýning þar sem leiktexti mætir leiksviði í frjóu og fallegu sampili.