Hópur leikara Þjóðleikhússins starfar þessa dagana í vinnusmiðju kenndri við eina þekktustu hetju Shakespeares, sjálfan Makbeð. Þessi hópur mun sýna afraksturinn af vinnumiðjunni í haust en að þessu sinni er farin fremur nýstárleg leið að þessari merku leikhúshetju Shakespeares. Vinnusmiðjuna leiðir Stefán Hallur Stefánsson leikari en varnarþing hennar er á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins. Vinnan hefur þó teygt anga sína víðar, upp á þak Þjóðleikhússins, niður á torg og eru málin tekin að þróast í forvitnilegar en blóðugar áttir.

Leikritið um Makbeð er meðal þekktustu harmleikja Shakespeares og því ræðst þessi ungi og áræðni hópur ekki á garðinn þar sem hann er lægstur en vinna sem þessi er ekki síst afhjúpandi fyrir aðstandendurna. Hópurinn kryfur hugmyndina, jafnt í sagnfræðilegu sem menningarlegu tilliti, um Makbeð – þennan valdagráðuga og ofurbreyska mann, og mun síðan miðla rannsóknum sínum með aðferðum leikhússins. Vinna hópsins byggir þannig á tilraunum með leikhúsformið og möguleika leiklistarinnar. Markmiðið er að endurspegla innihald verksins á nokkrum stigum með tilraunum sem varða samband áhorfenda, leikara og sýningar. Völdum áhorfendum verður boðið að taka þátt í sköpunarferlinu með því að koma einu sinni eða oftar á kynningu á verkefninu á vinnslustigi og taka þátt í umræðum um þróun þess. Stefnt er að nokkrum sýningum fyrir almenna áhorfendur á verkinu í lok september.
 
Þess má geta að „skoska leikritið“ svokallaða hefur ekki verið sett upp í Þjóðleikhúsinu áður.
 
Meðal þátttakenda í verkefninu auk Stefáns Halls Stefánssonar eru Tobias Munthe, Baldur Trausti Hreinsson, Karl Þorbergsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Vignir Rafn Valþórsson.

{mos_fb_discuss:2}