Leiklistarsamband Íslands og Leiklistardeild Listaháskóla Íslands boða til Leiklistarþings mánudaginn 31.mars kl.20 á Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, 2. hæð. Fjórir frummælendur munu velta fyrir sér hlutverki leikhússins í samtímanum og opnað verður fyrir almennar umræður. Frummælendurnir eru þau Sveinn Einarsson, María Kristjánsdóttir, Jón Páll Eyjólfsson og Björk Jakobsdóttir og munu þau velta fyrir sér spurningunni um hlutverk leikhússins.
Ef við tökum mark á kenningum Aristótelesar um kaþarsis, þá hreinsun sem áhorfendur gengu í gegnum andspænis örlögum hinna tragísku hetja, verður ekki um það villst að hlutverk leikhússins í Grikklandi til forna var samfélagslegt. En hvert er samfélagslegt hlutverk leikhússins í okkar samtíma? Hefur leikhúsið látið hreinsunarhlutverk sitt öðrum miðlum eftir? Er það aðeins hámenningarleg afþreying, ætlað þröngum hópi menningarlegrar elítu eða staður til að gleyma daglegu amstri eina og eina kvöldstund? Markmið hins hreinsandi kaþarsis var tvímælalaust að gera áhorfendur að betri manneskjum, en hvernig lítum við á það í dag? Felur það í sér að gera áhorfendur meðvitaða um stöðu sína innan samfélagsins, að fylla þá löngun til breytinga eða sætta þá við ríkjandi ástand? Þess vegna spyrjum við: Hvað varð um kaþarsis? Hvert er hlutverk leikhússins fyrir samfélagið?
Leiklistarþingið er hluti af vorfyrirlestraröð um sviðslistir sem hófst í byrjun mars og verður á dagskrá fram eftir vori.
Boðið verður upp á léttar veitingar.