Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi Hina endanlegu hamingju, nýtt íslenskt leikrit eftir Lárus Húnfjörð, laugardaginn 26. nóvember síðastliðinn.

Leikfélag Hafnarfjarðar hefur staðið öðrum félögum framar undanfarin ár í að leika sér með skilin á milli leikara og áhorfenda og sett upp nokkrar eftirminnilegar slíkar sýningar.

Leikfélag Hafnarfjarðar

Hin endanlega hamingja eftir Lárus Húnfjörð
Leikstjórn: Lárus Húnfjörð
Sýnt í Lækjarskóla

Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi Hina endanlegu hamingju, nýtt íslenskt leikrit eftir Lárus Húnfjörð, laugardaginn 26. nóvember síðastliðinn. Höfundur er jafnframt leikstjóri. Hin endanlega hamingja snýst um sértrúarsöfnuð sem nýverið hefur misst andlegan leiðtoga sinn, Freystein. Safnaðarmeðlimir minnast leiðtoga síns með vitnisburði og áhorfendur fá smám saman skýrari mynd af trúarleiðtoganum og söfnuði hans. Ýmislegt áhugavert og óvænt kemur upp á yfirborðið eftir því sem líður á en ekki verður upplýst um það hér.

freysteinn2.jpgMeðan á sýningu stendur líður áhorfendum eins og þeir séu eins og hverjir aðrir safnaðarmeðlimir enda ýmislegt gert til að skapa þau áhrif allt frá því áhorfendur mæta í leikhúsið og þar til yfir lýkur. Leikfélag Hafnarfjarðar hefur staðið öðrum félögum framar undanfarin ár í að leika sér með skilin á milli leikara og áhorfenda og sett upp nokkrar eftirminnilegar slíkar sýningar. Þar má t.d. nefna Þið eruð hérna sem Lárus Húnfjörð átti helmingshlut í sem höfundur og leikstjóri og þá ekki síður Sölku miðil sem var afar vel heppnuð og eftirminnileg sýning. Slíkar tilraunir eru ekki auðveldar viðfangs og umtalsverð hætta á að misstíga sig. Það er þó smekklega gert í Hinni endanlegu hamingju og hvergi farið yfir strikið.

LH hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár og ný andlit orðin áberandi í hópnum. Leikhópurinn er nokkuð misjafn í HInni endanlegu hamingju en á heildina litið kemst hann vel frá sínu. Halldór Magnússon leikur Freystein og er traustur að vanda þó stundum hafi hann tekið meira til sín á sviði. Kristín Rós Birgisdóttir var afar sannferðug í hutverki Siðaverndarans og eftirtektarvert hve vel hún hvíldi í hlutverki sínu frá upphafi til enda án þess nokkurn tíma að ofgera. Þorkell Þórðarson átti skemmtilega týpu í Herlaugi þó stundum hafi framsögnin mátt vera betri. Þórunn Gréta Sigurðardóttir sér um tónlistarflutning á samkomunni auk þess að vitna af mikilli röggsemi.

Í leikskrá segir höfundurinn um verkið að þar megi finna „… klisjur og kúvendingar, drama og dauðans alvöru, söng og grín ásamt smáskammti af fíflaskap hins daglega lífs.“ Lárus hittir naglann á höfuðið með þessari lýsingu en því miður er þetta um leið helsti galli sýningarinnar. Verkið fer nefnilega nokkuð út og suður og áhorfendur vita lengi vel ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Margar góðar og skemmtilegar hugmyndir sjást en sýningin hefði getað orðið áhrifameiri ef höfundur hefði tekið meira afgerandi stefnu með verkið. Eins og hann segir sjálfur í leikskránni virðist þar þó vera um meðvitað val að ræða og hinn endanlegi mælikvarði þess hvernig til tekst hlýtur að vera hvernig það skilar sér í sýningunni sjálfri. Eins og fyrr segir hefði hún að mati undirritaðs notið þess ef höfundur og leikstjóri hefðu „komið sér saman“ um hnitmiðaðri efnistök og stíl. Bestu atriðin eru þegar meðlimir safnaðarins stíga fram og vitna um hinn látna leiðtoga og hefði höfundur jafnvel mátt leggja meira upp úr þeim þætti.

Ytri umgjörð er ágæt og leikmyndin er mjög vel heppnuð og skapar skemmtilega stemmningu fyrir sýninguna. Hinni endanlegu hamingju tekst að viðhalda áhuga áhorfenda enda kraumar undir einhver spenna sem heldur athyglinni allan tímann. Það má gera margt verra við tímann en leggja leið sína á samkomu hjá Helgidómi hinnar endanlegu hamingju.

Hörður Sigurðarson