Hráskinna hjá Hugleik
Höfundar: Ármann Guðmundsson, Ásta Gísladóttir, Sigríður B. Steinþórsdóttir og Þorgeir Tryggvason
Leikstjórn: Rúnar Guðbrandsson

Það var dálítið snúið að finna innganginn að nýju húsnæði Hugleiks á Langholtsveginum. Reyndi fyrst að fara inn um aðaldyrnar en mætti þar fjölda manns sem sögðust vera að koma frá söngæfingu. En góður vegfarandi benti mér fljótlega á að inngangur Hugleiksleikhússins væri bakatil. Þar var vel tekið á móti manni og fljótlega fann maður sæti í nýjum og hráum húsakynnum þeirra Hugleikara. Og leikurinn hófst.
Strax frá frábæru upphafslagi Hráskinnu er maður komin á 17 öld, veröld ofríkis kirkju, biskups og presta og einnig veröld galdrabrenna, galdramanna, drauga og fátækra bænda og vinnuhjúa. Saga þeirra Ármanns Guðmundssonar, Ástu Gísladóttur, Sigríðar Báru Steinþórsdóttur og Þorgeirs Tryggvasonar er frábærlega vel ofin aldarfarslýsing, hryllingssaga, ástarsaga og spennufrásögn með gamansömu ívafi og frábærum persónum. Eins er tilvísunum í misskiptingu og ofríki elítu nútímans snilldarlega komið fyrir á mörgum stöðum í verkinu.
Leikmynd og lýsing Ingva Guðna Brynjólfssonar og Guðmundar Erlingssonar var vel útfærð á breiðu sviði og færði sýninguna til galdraaldar ásamt flottum búningum þeirra Dýrleifar Jónsdóttur, Maríu Bjartar Ármannsdóttur, Guðrúnar Eysteinsdóttur og Áslaugu Jónsdóttur. Förðun og hár Ninnu Körlu Katrínardóttur var og einnig áhrifamikil. Tónlist og hljóðmynd Ármanns Guðmundssinar, Lofts S. Loftssonar, Þorgeirs Tryggvasonar og leikhópsins er einstaklega vel heppnaður hluti sýningarinnar og ég má hundur heita ef hljómsveitin Nýdauð verður ekki valin bjartasta vonin á Tónlistarverðlaununum 2019.
Það verður að segja að Hugleikur hefur á að skipa einstaklega góðum hópi leikara og söngvara. Þar má nefna þær Maríu Björt Ármannsdóttur og Selmu Rán Lima sem áttu stjörnuleik í hlutverkum Skarlottu og Heiðveigar. Og ekki voru þeir síðri þeir Ingvar Örn Arngeirsson og Halldór Sveinsson í hlutverkum Guðmanns og Guðsteingríms sem létu salinn oft veltast um í hlátri. Þau Anna Birta Lionraki og Eyjólfur Kristjánsson áttu glimrandi leik sem biskupshjónin og Anna átti líka magnaða innkomu þegar hún brá sér í hlutverk Kölska. Hrafnhildur Þórólfsdóttir átti og stórleik sem Kjartan Galdrakerling. Ekki má gleyma draugunum sem voru einhverjir þeir ógurlegustu og fyndnu sem ég hef séð á sviði í langan tíma. Þar fór fremstur í flokki Flosi Þorgeirsson sem dró upp ógleymanlega mynd af frægasta draugi Íslands, Móra og Sjafnar Björgvinsson sem túlkaði vel grimman og reiðan draug Guðlaugs bónda. Allur leikhópurinn var vel með á nótunum og náði að skila vel bæði draugum og sveitafólki.
Utan um allt þetta heldur síðan Rúnar Guðbrandsson sem enn einu sinni sýnir að hann er einn besti leikstjóri landsins. Rúnar nær vel að draga fram anda og húmor verksins í hnökralausu flæði og lætur hvern og einn leikara og söngvara njóta sín. Hann nýtir og vel nálægð leikara við áhorfendur sem eykur til muna áhrifamátt verksins.
Hugleikur er eitt metnaðarfyllsta áhugaleikfélag landsins þegar kemur að nýjum íslenskum verkum og að venju bregst þeim ekki bogalistin. Hráskinna er alveg frábær sýning sem dregur upp mynd af myrkum kafla í íslenskri sögu með gamni, dáraskap og nokkrum hrylllingi en samt þó með samúð og samkennd með þeim sem minna mega sín.
Til hamingju Hugleikur með fimm stjörnu sýningu og nýtt leikhús á Langholtsveginum sem ég óska velfarnaðar á komandi árum.

Lárus Vilhjálmsson