Ármann Guðmundsson skellti sér í Borgarleikhúsið á frumsýningu laugardaginn 21. september og horfði gagnrýnum augum á þennan breska barnasöngleik. Lesið hvað hann hafði að segja um verkið.
Fyrsta frumsýning haustsins í Borgarleikhúsinu er breski barnasöngleikurinn Honk! Ljóti andarunginn eftir George Stiles og Anthony Drewe. Þetta er tiltölulega nýr söngleikur, byggður á sögunni af Litla ljóta andarunganum eftir H.C. Andersen. Söngleikurinn hlaut ein virtustu leiklistarverðlaun Breta, Oliver verðlaunin árið 2000 og því engin furða að hann hafi vakið áhuga Borgarleikhúsmanna þegar velja átti barnaleikrit vetrarins. Höfundar verksins, George Stiles höfundur tónlistar og Anthony Drewe textahöfundur, hafa samið saman fjóra söngleiki, Tutankhamon, Just So, Peter Pan og svo Honk!. Þá munu þeir vera með tvo til viðbótar í smíðum.

Eins og flestir vita þá er megin þemað í Ljóta andarunganum einelti og Ljóti, aðalsöguhetjan í Honk!, fær svo sannarlega að kenna á því. Hann er allt öðruvísi en andarungar eiga að vera og allir í Andríki leggjast á eitt við að níðast á honum ef frá er talin andamamma. Faðir hans og systkini ganga hve harðast fram í að ofsækja hann og hrekja í klærnar á óberminu Kisa sem hefur það eitt í huga að éta hann. Það má því segja að boðskapurinn verksins sé í raun að það sé ljótt að leggja þá sem eru á einhvern hátt minnimáttar og/eða öðruvísi í einelti en hins vegar alveg sjálfsagt að viðkomandi fyrirgefi umhugsunarlaust þeim sem ofsóttu hann um leið og staða hans breytist og hann er ekki lengur minnimáttar. Afar fallegur og kristilegur boðskapur það.
Honk!4
Höfundar Honk! eru sögu Andersens að langmestu leyti trúir en leyfa sér þó að krydda hana aðeins með nýjum karakterum sem auðvitað er dramatísk nauðsyn þar sem upprunalega sagan er örstutt. Persónunni Kisa er þannig bætt við til að skapa hættu og er það ágætlega til fundið. Einnig fá persónur sem rétt bregður fyrir í upprunalegu sögunni að njóta sín, gæsahópurinn er t.d. stórskemmtilegur og atriðið með honum eitt það skemmtilegasta í verkinu.

Tónlist verksins er aftur á móti frekar litlaus en þjónar verkinu svo sem ágætlega. Mörg laganna eru þó óþarflega löng. Eftirminnilegustu söngatriðin eru söngur frosksins, dúett hænunnar Rassskellu og læðunnar Snotru og gæsaskátasöngurinn.

Það verður ekki sagt að mikil áhætta hafi verið tekin þegar skipað var í aðalhlutverkin. Felix Bergsson sem Ljóti og Edda Heiðrún Backmann sem Andrea andamóðir eru á meðal flinkustu og reyndustu söngleikurum landsins og gerðu hlutverkum sínum óaðfinnaleg skil.

Aðrir leikarar fóru með nokkur hlutverk hver og af þeim átti Ólafur Darri Ólafsson skemmtilegustu sprettina. Fór hann sérstaklega á kostum í söngnúmeri frosksins Geirs Vartan sem hann söng af Tom Waitsískri innlifun. Jóhann G. Jóhannsson átti líka fína spretti sem illyrmið Kisi og rataði meðalveginn á milli ógnar og húmors. Guðmundur Ólafsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Katla Margrét Þorgeirsdóttir gerðu öll misskemmtilegum persónum sínum prýðileg skil. Ungu stúlkurnar sem léku systkini Ljóta stóðu sig líka prýðilega.

Honk!5Leikstjórn Maríu Sigurðardóttur virkar áreynslulaus, sýningin flæðir vel og leikarar virðast skemmta sér hið besta (sem maður saknar stundum á barnasýningum). Leikmynd og búningar voru hvort tveggja skemmtilega leyst, flestir búningar alveg lausir við að vera “dýrabúningar“, aðeins lítilega ýað að því í litum og sniði og síðan í látbragði leikara.

Þýðing Gísla Rúnars ber öll helstu höfundaeinkenni hans, linnulausa (en misfyndna) orðaleiki, tvíræðni (ætlaða þeim fullorðnu) og lifandi, skemmtilegan texta sem Gísli þýðir af hæfilegri virðingu fyrir frumtextanum.

Honk! Ljóti andarunginn er tvímælalaust með skemmtilegri barnaleikritum sem sést hafa á sviðum stóru leikhúsanna undanfarin misseri og alveg óhætt að spá honum góðu lífi í vetur.

Höfundur texta: Anthony Drewe
Höfundur tónlistar: George Stiles
Þýðing: Gísli Rúnar Jónsson.
Dans: Ólöf Ingólfsdóttir.
Hljóð: Jakob Tryggvason.
Tónlistarstjórn: Jón Ólafsson.
Lýsing: Lárus Björnsson.
Leikmynd og búningar: Helga I. Stefánsdóttir.
Leikstjórn: María Sigurðardóttir.

Leikarar: Felix Bergsson, Edda Heiðrún Backman, Guðmundur Ólafsson, Jóhann G. Jóhannsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Ólafur Darri Ólafsson, Álfrún Perla Baldursdóttir/Unnur Sara Eldjárn, Nína Sigríður Hjálmarsdóttir/Hildur Björk Möller, Hildur Vala Baldursdóttir/Katrín Þóra Sigurbjörnsdóttir og  Hrefna Marín Sigurðardóttir/Berta Guðrún Ólafsdóttir.