Það var með nokkurri tilhlökkun að ég fór á frumsýningu hjá Hugleik um helgina. Það átti að frumsýna nýtt verk eftir þau fjórmenninga Ármann Guðmundsson, Hjördisi Hjartardóttur, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Þótt Það séu ein 10 ár síðan þau skemmtu mér með Fáfnismönnum hafa sum þeirra, með öðrum eða ein sér skrifað bráðskemmtileg verk í gegnum tíðina. Það var því eftirvænting í farteskinu þegar sest var niður í Tjarnarbíó og beðið eftir að ljósin kæmu upp.


Og ljósin komu upp, Sirkus byrjaði og það verður að segjast að vonbrigðin voru ansi mikil. Í þetta skiptið hefur þessum ágætu leikritahöfundum fatast heldur betur flugið og bjóða manni upp á þunna nagalasúpu sem hvorki er áhugaverð eða fyndin. Það var á einstöku stað sem leiftrandi kímninni og orðaleikjunum sem einkennir þessa höfunda brá fyrir en alltof oft voru samtöl og kringumstæður stirðlegar og hreint út sagt pínlegar. Sagan sjálf er bæði leiðinleg og fyrirsjáanleg og hátindur verksins er svo fáránlegur að maður vissi ekki hvort maður ætti að hlæja eða gráta. Persónur voru flestar algerar klisjur en án þess að vera nokkuð áhugaverðar.

Til allrar hamingju hefur Hugleikur á að skipa þvílíku úrvalsfólki að þeim tókst ásamt leikstjóranum Viðari Eggertssyni að gera þokkalega sýningu úr þessum afar rýra efnivið. Leikstjórinn, leikmyndateiknarinn og búningahönnuðurinn fara þá leið að skapa sýningunni sinn eigin heim með flottri umgjörð og búningum og ýktum leikstíl. Viðar hefði þó mátt sýna meiri djörfung við að skera niður texta og persónur og stytta sýninguna um leið. Sérkennilegt var líka að sjá senur í sýningunni þar sem leikendur röðuðu sér í einfalda röð og léku síðan. Sýningin er brotin upp reglulega með ágætum söngnúmerum og fjörlegri tónlist hljómsveitarinnar Rass Pútíns. Flestir leikaranna stóðu sig vel innan þeirra takmarkana sem persónur þeirra sköpuðu þeim. Það verður þó að minnast á óborganlega frammistöðu Huldu Hákonardóttur í hlutverki skúringakonunnar Þuríðar. Hennar persóna er sú best skrifaða frá hendi höfundanna og Hulda brást ekki frekar en fyrri daginn og lét mann grenja úr hlátri í hvert skipti sem hún var á sviðinu. Einar Þór Einarsson og Björn Sigurjónsson voru líka skemmtilega aulalegir í hlutverkum Skjaldar og Njarðar en leikstjórinn hefði mátt útfæra betur þrjú bíó slapstikkssenurnar þeirra.

Eins og sést á þessari umfjöllun er undiritaður ekki mjög hrifinn af þessari nýjustu afurð Hugleiks og sérstaklega er ég undrandi á því að höfundar verksins skuli ekki skila betri smíð. En öllum getur nú mistekist og þau Ármann, Hjördís, Sævar og Toggi koma örugglega tvíefld eða fjórefld aftur síðar. Aðrir aðstandendur sýningarinnar geta vel við unað enda gerðu þau hið besta úr vondu handriti og skiluðu sýningu sem er allt í lagi að eyða tíma sínum í. Ég ætlaði að vera soldið nískur og gefa ekki sýningunni nema eina og hálfa stjörnu en fyrir frammistöðuna hjá Huldu Hákonar, sem ein og sér er þess virði að fara á sýninguna, ætla ég bæta einni stjörnu við og gef því Sirkus hjá Hugleik 2 og 1/2 stjörnu.

Lárus Vilhjálmsson