Ást í meinum, ást í leynum, ást á allla kanta, ásamt athyglisverðri ástríðu á tyggjói og andstyggð á frunsum er meðal þess sem tæpt er á í söng- og gleðileiknum Epli og eikur, sem frumsýndur var hjá Hugleik í Möguleikhúsinu um helgina. Höfundur verksins er Þórunn Guðmundsdóttir, Hugleikari með meiru, en Þórunn hefur heldur betur komið áður við sögu félagsins, en síðasta verk hennar með félaginu, Systur, fékk afbragsviðbröð.

Hér bregður Þórunn upp mynd af átta einstaklingum, ástum þeirra og örlögum og vægast sagt fyndnum samskiptum. Milli þess sem persónur játa ást sína, flækja málin út í hið óendanlega, bresta þær í í söng með aðstoð frábærrar hljómsveitar og söngtríósins Hjálp í viðlögum og syngja óð um ormamorð, um endur, glæpona og aðra óra.

epliogeikur.gifLeikur að orðum er aðalsmerki Þórunnar og fatast henni ekki flugið í þessu verki, kímnin drýpur af hverri setningu og spurning hvort undirrituð þarf ekki að fara aftur til þess að ná að grípa allan textann, en það tekst ekki í fyrstu tilraun þar sem ekki er hægt að hlæja að öllu í einu.
Leikstjórinn, Oddur Bjarni Þorkelsson, nær að halda vel utan um verkið og nýtir takmarkað sviðsrými Möguleikhússins vel, sérstaklega voru söngatriði skemmtilega útfærð og framsett af miklu hugmyndaauðgi.

Leikhópurinn er sterkur og stendur sig allur með prýði, en vert er að minnast sérstaklega á leik Baldurs Ragnarssonar í hlutverki Lárusar, Baldur býr til mjög sannfærandi persónu, tvístígandi, klaufalega gungu með gullhjarta. Einnig var Anna Bergljót Thorarensen afar skemmtileg sem hin ævintýragjarna Rakel, sem sér glæpi í hverju horni.

Tónlistin var skemmtileg, vel útsett og samstilling söngs og leiks góð.

Er lífið eins og rauðu ástarsögurnar? Er allt hægt í ástum? Fellur eplið langt eða stutt frá eikinni? Það veit ég ekki, en kíkið í Möguleikhúsið og gáið, kannski verðið þið einhvers vísari. Sannkölluð Hugleikssápuópera sem mæla má með.

Guðfinna Gunnarsdóttir

{mos_fb_discuss:2}