Rympa í Stafholtstungum

Rympa í Stafholtstungum

Leikdeild Umf. Stafholtstungnafrumsýndi Rympu á ruslahaugnum eftir Herdísi Egilsdóttur síðastliðinn laugardag í Félagsheimilinu Þinghamri. Verkið er barna- og fjölskylduleikrit sem gerist á ruslahaug þar sem Rympa býr ásamt honum Volta sínum. Óhætt er að segja að Rympa sé persónugervingur óæskilegs félagsskapar og finnst henni hrekkir og þjófnaðir lítið mál og raunar hin mesta skemmtun. En þegar allt kemur til alls er Rympa umkomulaus stúlka sem fæstir vilja vita af. Kvöld eitt koma svo á ruslahauginn persónur sem sennilegast flokkast sem meira „venjulegar“ og fjallar verkið um samskipti Rympu við þær. Með hlutverk Rympu fer Sigurlaug Kjartansdóttir á Hamraendum sem áður hefur getið sér gott orð á leiksviðinu í Þinghamri. 

Leikstjóri er Þröstur Guðbjartsson en hann hefur áður starfað með félaginu, síðast árið 2014. „Nú auglýstum við eftir áhugasömum leikurum og svo ánægjulega vildi til að nokkrir krakkar úr Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi lýstu áhuga á að taka þátt. Það var svo í ljósi þessa áhuga unga fólksins sem Þröstur stakk upp á að fært yrði á fjalirnar verkið um Rympu. Þau eru því um helmingur leikhópsins sem alls telur þrettán auk annarra verkefna baksviðs. Hafsteinn Þórisson var fenginn til að vera tónlistarstjóri í verkinu og stýra bæði einsöng og hópsöng.

Miðapantanir í síma 8241988 og eg@vesturland.is og er miðaverð kr. 3.000 – Aldraðir og öryrkjar kr. 2.500 – 15 ára og yngri kr. 1.500.

0 Slökkt á athugasemdum við Rympa í Stafholtstungum 426 05 mars, 2019 Allar fréttir, Fréttir, Fréttir, Frumsýningar, Vikupóstur mars 5, 2019

Áskrift að Vikupósti

Karfa