Leikfélagið Hugleikur og Leikfélag Kópavogs hafa sameinað krafta sína og setja nú upp leikritið Bingó eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.

Í leikritinu Bingó hittast fimm manneskjur reglulega og spila Bingó. Eins og leikurinn er í eðli sínu einfaldur og segir sig nánast sjálfur, er eitthvað með tölurnar sem tengir okkur nánar persónum verksins, ekki ósvipað og tölurnar gera sig í Lost á mánudagskvöldum. Persónurnar bregðast við þeim tölum sem bingóstjórinn kallar upp, berast fram og aftur í tíma og leynt og ljóst er takmarkið bundið við stóra vinninginn.

Hefur þú bragðað Bingóte? Séð Bingóbók? Dreymir þig stóra vinninginn? Hefur þú leikið þennan leik? Hvaða tölu viltu helst fá? Hvaða tölur eiga að vera á bingóspjaldinu þínu? Ef þú vandar þig eins og þú getur muntu þá örugglega vinna – eða kannski ekki … Vinnurðu eða taparðu?

Bingó var leiklesið í Þjóðleikhúsinu 2004.

Hugleikur og Leikfélag Kópavogs eru með atorkusömustu áhugaleikfélögum landsins og hafa þau vakið athygli fyrir frumlegar og kraftmiklar sýningar og öflugt starf. Þetta er í annað sinn sem þessi félög taka höndum saman og setja upp verk eftir Hrefnu í leikstjórn Ágústu. Sýningin Memento Mori var sett upp árið 2004 og var hún valin besta sýning á fjölþjóðlegri leiklistarhátíð sem Bandalag íslenskra leikfélaga hélt á Akureyri 2005. Sýningin var valin fulltrúi Íslands á fjórðu alþjóðlegu leiklistarhátíð Norður-Evrópska áhugaleikhússambandsins, NEATA, í Færeyjum 2006 og var boðin þátttaka á alþjóðlegri leiklistarhátíð sem haldin er í Suður-Kóreu í ágúst 2007 á vegum alþjóðaáhugaleiklistarhreyfingarinnar, IATA (International Amateur Theatre Association).

Miðaverð er kr. 1.500 og miðapantanir eru á hugleikur.is og í síma 823 9700.
Sýnt verður í Hjáleigunni í Kópavogi, en ljóst er að þetta verður síðasta sýning Leikfélags Kópavogs í því húsnæði.

Þegar er uppselt á frumsýningu, en næstu sýningar eru:
Sun. 15/04 kl. 20:30
Fim. 19/04 kl. 20:30
Sun. 22/04 kl. 20:30
Mið. 25/04 kl. 20:30
Mán. 30/04 kl. 20:30

{mos_fb_discuss:2}