Kómedíuleikhúsið frumsýnir nýtt íslenskt leikverk Auðun og ísbjörninn miðvikudaginn 1. apríl kl. 20 í Tjöruhúsinu á Ísafirði. Leikurinn er byggður á Íslendingaþættinum Auðunar þáttur vestfirzka sem er án efa besti og vinsælasti allra Íslendingaþátta. Hér segir frá bóndastrák frá Vestfjörðum sem leggst í víking og á vegi hans verður taminn ísbjörn. Auðun ákveður að gefa Sveini Danakonungi ísbjörninn og hefst þá ævintýralegt ferðalag piltsins og bjarnarins.

Höfundur og leikstjóri er Soffía Vagnsdóttir og leikari er Elfar Logi Hannesson. Tónlistin í leiknum er eftir Hrólf Vagnsson en Bára Grímsdóttir og Steindór Andersen flytja söngvana. Höfundar leikmyndar eru Kristján Gunnarsson og Marsbil G. Kristjánsdóttir en hún hannar einnig ísbjörninn, leikmuni og leikgerfi. Búninga gerir Alda Veiga Sigurðardóttir. Uppselt er á frumsýningu en önnur sýning verður laugardaginn 4. apríl kl. 14. Einnig verður leikurinn sýndur tvívegis um páskana á Ísafirði í tengslum við Skíðaviku og Leikhúspáska á Ísó sem eru nú haldnir í fyrsta sinn. Eftir páska verður haldið í leikferð með Auðun og Ísbjörninn um Vestfirði og jafnvel víðar.

Kómedíuleikhúsið er fyrsta og eina atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum. Leikhúsið hefur starfað fyrir vestan með miklum blóma síðan um síðustu aldamót og sett á svið fjölmörg leikverk. Síðan 2001 hefur Kómedía helgað sig einleiknum og hefur orðið nokkuð ágengt á því sviði og verið í fararbroddi þessarar sérstöku listgreinar hér á landi. Þekktasti leikur Kómedíu er án efa Gísli Súrsson sem hefur verið sýndur um 200 sinnum bæði hér heima og erlendis og unnið tvívegis til verðlauna á erlendum leiklistarhátíðum. Af öðrum einleikjum Kómedíu má nefna Muggur, Steinn Steinarr, Pétur og Einar, Dimmalmm og Jólasveinar Grýlusynir.

Kómedíuleikhúsið sér einnig um listræna stjórn leiklistarhátíðarinnar Act alone á Ísafirði sem er helguð einleikjum. Hátíðin var fyrst haldin árið 2004 og hefur vaxið og dafnað með ári hverju. Act alone fékk Menningarverðlaun DV árið 2008. Act alone verður haldin sjötta árið í röð dagna 14. – 16. ágúst nú í ár. Það er óhætt að segja að Kómedíuleikhúsið hafi poppað uppá menningarlífið á Vestfjörðum á síðustu árum enda hefur leikhúsið jafnan sinnt vestfirskum sagnaarfi sérstaklega.

{mos_fb_discuss:2}