Þriðjudaginn 3. maí kl. 13.00 verður opinn samlestur á nýju verki Bjarna Jónssonar, Sending. Þetta er liður í því að opna leikhúsið og skapa skemmtilegan formála að væntanlegum sýningum. Fyrsta skrefið í æfingum leikrita er svokallaður samlestur. Þá kemur starfsfólk saman, ásamt listrænum stjórnendum og leikurum og lesa leikritið upphátt. Auk þess kynna leikstjóri, leikmynda- og búningahöfundar hugmyndir sínar og fyrir vikið er fyrsti samlestur oft eins konar hátíðarsamkoma. Þetta er upphaf langrar ferðar sem lýkur með pompi og prakt á frumsýningunni. Allir velkomnir og heitt kaffi verður á könnunni.
Árið er 1982. Sjómannadagurinn er framundan. Það er barist í Palestínu og Bubbi Morthens túrar með Egó um landið til þess að kynna nýjustu plötu sveitarinnar Breyttir tímar. Ungur drengur hefur verið sendur í fóstur til barnalausra hjónaleysa vestur á fjörðum. Konan tekur drengnum opnum örmum en tilfinningar mannsins eru flóknari og ekki líður á löngu þar til líf hjónanna umturnast. Veruleiki drengsins og hjónaleysanna virðist á einhvern undarlegan hátt hanga saman. Hver er þessi drengur og til hvers er hann kominn? Verkið er leikur með tíma og rými og gerir bjargarleysi og útskúfun að meginviðfangsefni sínu.
Spennandi nýtt íslenskt verk um áhrifaríkt efni sem snertir og vekur til umhugsunar.
Bjarni Jónsson er eitt af okkar öflugustu leikskáldum og hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Grímuverðlaunin, Norrænu útvarpsleikhúsverðlaunin auk þess sem hann hefur verið tilnefndur í tvígang til Norrænu Leikskáldaverðlaunanna.