Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga verður haldinn á Seyðisfirði dagana 7. og 8. maí 2016.
Í tengslum við aðalfundinn verður haldinn einþáttungahátíð í Félagsheimilinu Herðubreið föstudaginn 6. maí.

Einþáttungahátíðin verður sennilega sett kl. 20.00 föstudagskvöldið 6. maí.
Aðalfundurinn verður settur laugardagsmorguninn 7. maí kl. 9.00 og honum slitið um hádegisbil sunnudaginn 8. maí.

Val Þjóðleikhússins á Athyglisverðustu áhugasýningu leikársins verður að venju kynnt á hátíðakvöldverðinum laugardaginn 7. maí. Frestur til að senda Þjóðleikhúsinu umsóknir rennur út miðvikudaginn 27. apríl. Sækja skal um í hinu nýja umsóknarkerfi á Leiklistarvefnum.

Gisting verður á vegum Hótelsins Öldunnar á Seyðisfirði, þó ekki öll herbergi í sama húsinu en mjög stutt er á milli gististaða.
Allur matur, einþáttungahátíð, aðalfundur og hátíðarkvöldverður verður í Félagsheimilinu Herðubreið.

Boðið er uppá eftirtalda pakka frá föstudegi til sunnudags:
1.    Gisting í tveggja manna herbergi; 2 nætur, 2 x morgunverður, 2 x hádegisverður, hátíðakvöldverður og fundarseta kr. 24.000 á mann
2.    Án gistingar; 2 x morgunverður, 2 x hádegisverður og hátíðakvöldverður og fundarseta kr. 9.000 á mann

Möguleiki er á einbýli, stærri herbergjum eða jafnvel íbúðum á vegum hótelsins, látið okkur vita um óskir ykkar og við sjáum hvað hægt er að gera.

Tilkynnið þátttöku fyrir 20. apríl og takið fram hvern af ofantöldum pökkum þið viljið kaupa. Vinsamlegast greiðið þátttökugjaldið um leið inn á reikning 0334-26-5463, kt. 440169-0239 og látið bankann senda kvittun á netfangið info@leiklist.is

Nánari upplýsingar:

Dagskrá:

Föstudagur 6. maí :
Flugrúta er í tengslum við öll flug til Egilsstaða, fargjald kostar 1.000
Kvöldverður á eigin vegum
20.00 Einþáttungahátíð sett í Herðubreið
22.00 Umræður og samvera

Laugardagur 7. maí:
08.00-09.00 Morgunverður í Herðubreið
09:00-12.00 Aðalfundur settur í Herðubreið
12:00-13.00 Hádegisverður í Herðubreið
13:00-17.00 Framhald aðalfundar
17:00 Fundarhlé
20:00 Hátíðarkvöldverður í Herðubreið – Skemmtidagskrá og samvera

Sunnudagur 8. maí:
08.00-09.00 Morgunverður í Herðubreið
09:00-12.00 Framhald aðalfundar í Herðubreið og fundarslit
12:00 Hádegisverður og heimferð að honum loknum.

Einþáttungahátíð á Seyðisfirði 6. maí 2016:

Hátíðin verður með tiltölulega hefðbundu sniði, hámarkslengd þátta er 30 mínútur. Frestur til að tilkynna þátttöku á hátíðinni er til 20. apríl. Ekki verða gerð sérstök eyðublöð fyrir þátttökutilkynningar heldur skal senda þær með tölvupósti á info@leiklist.is

Lengd hátíðarinnar og það hversu snemma hún hefst ræðst af fjölda sýninga og verður það nánar auglýst síðar. Öll aðildarfélög Bandalagsins geta sent þætti, eins marga og þau vilja. Ef sýnt þykir að hátíðin verði of löng verða þau félög sem flest verk hyggjast senda beðin um að fækka sínum verkum uns hæfilegri lengd er náð. Þeir sem hyggjast senda einþáttunga eru hvattir til að hafa leikmynd, ljós og alla umgjörð sem einfaldasta.

Eftirfarandi þarf að koma fram þegar tilkynnt er um þátttöku:
Nafn leikfélags
Tengiliður sýningar (Nafn, sími, netfang)
Nafn verks
Nafn höfundar (og þýðanda, eigi það við)
Nafn leikstjóra
Nöfn persóna og leikenda
Nöfn annarra aðstandenda (og hvað þeir gera)
Lengd verks í mín.

ATH: Sendið skráningu á hverju verki í sérpósti, ekki margar skráningar í sama pósti og setjið nafn þáttarins sem „subject“.