Leikfélag Akureyrar hefur nú kynnt dagskrá leikársins 2007-2008. Áfram er unnið eftir sömu stefnu og sérstök áhersla er lögð á að ná ekki síður til yngri leikhúsgesta en þeirra sem eldri eru. Sem fyrr einbeitir leikhúsið sér að uppsetningu nútímaverka, íslenskra og erlendra. Fyrsta frumsýning vetrarins er á fjölskylduleikritinu Óvitar! eftir Guðrúnu Helgadóttur í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar. Jón Ólafsson var fenginn til að semja tónlist fyrir uppsetninguna og ætti það að gera gott verk enn betra. Jólafrumsýningin er glæný leikgerð Gísla Rúnars Jónssonar á einum vinsælasta farsa allra tíma, Fló á skinni. Nýlegt bandarískt verðlaunaverk, Ökutímar eftir Paulu Vogel verður frumsýnt í byrjun nóvember en tónlistarkonan Lay Low semur og flytur tónlistina í sýningunni. Eftir áramót verður nýtt íslenskt leikrit, Dubbeldusch eftir Björn Hlyn Haraldsson frumsýnt en það er sett upp í samstarfi við Vesturport.
Nýtt leikár kynnt hjá Leikfélagi Akureyrar
Í vetur verður efnt til leiklestrarraðar undir nafninu Krónuleikhús en þar verður íslenskri leikhúsklassík gerð góð skil. Flutt verða leikritin Skugga Sveinn, Fjalla Eyvindur og Piltur og Stúlka. Einnig verður leiklesin ný leikgerð upp úr ævi og sögum Nonna sem skrifuð hefur verið fyrir LA. Fjöldi gestasýninga verður á fjölum LA í vetur og má þar nefna sýningu Íslenska dansflokksins, nýja sýningu Kristjáns Ingimarssonar, Frelsarinn, Killer Joe, Þú ert nú meiri jólasveinninn auk óvissusýningar úr höfuðborginni. Settur verður á laggirnar leiklistarskóli í samstarfi við Sönglist, farið í leikhúsferð til London og áfram verður boðið upp á leikhúslíf sem valgrein í grunnskólum Akureyrar. Nú er unnið að þróun fjögurra nýrra íslenskra leikrita á vegum leikhússins sem munu birtast á fjölum LA á næstu árum.
Óvitar – Frábær fjölskyldusýning
Í Óvitum er allt á hvolfi. Þar minnkar maður með aldrinum, fullorðnir leika börn og börnin leika þá fullorðnu. Það er þó ekki fyrr en Finnur strýkur að heiman sem allt fer endanlega í háaloft. Lögreglan og hjálparsveitirnar hefja leit, pabbi og mamma eru miður sín og jafnvel skólastjórinn brestur í grát. En í miðjum látunum eignast Finnur nýjan vin og uppgötvar ýmislegt um lífið og hvernig það er að verða lítill. Þetta margrómaða leikrit Guðrúnar Helgadóttur er nú loks sýnt á Akureyri og nú með tónlist sem Jón Ólafsson hefur samið af sinni alkunnu snilld. Leikarinn ástsæli Sigurður Sigurjónsson leikstýrir glæsilegum hópi atvinnuleikara og hæfileikaríkra barna. Frábær skemmtun fyrir afa og ömmur, pabba og mömmur og börn – stór og smá. Frumsýnt 15. september í Samkomuhúsinu. Höfundur: Guðrún Helgadóttir. Leikstjórn: Sigurður Sigurjónsson. Söngtextar: Davíð Þór Jónsson. Tónlist og tónlistarstjórn: Jón Ólafsson. Leikmynd: Finnur Arnar Arnarsson. Búningar: María Ólafsdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Hreyfingar: Ástrós Gunnarsdóttir. Gervi: Ragna Fossberg. Hljóðhönnun: Gunnar Sigurbjörnsson. Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Þráinn Karlsson og margir fleiri. 24 leikarar taka þátt í sýningunni. Óvitar eru settir upp í samstarfi við Flugfélag Íslands, Norðurorku og KEA hótel.
Ökutímar – Saga um forboðna ást með tónlist eftir Lay Low
Fjölskylda Lillu er allt annað en venjuleg. Mamma og amma keppast við að leggja henni lífsreglurnar. En er Peck bara góður frændi þegar hann býðst til að kenna henni á bíl? Ökutímar er áleitið leikrit sem fjallar um svik, ást og fyrirgefningu og tekur á viðkvæmu máli á óvenjulegan hátt. Hér er á ferðinni margbrotin þroska- og fjölskyldusaga sem fær áhorfendur til að súpa hveljur en er þó drifin áfram af heillandi húmor. Ökutímar er margverðlaunað verk sem farið hefur sigurför um heiminn. Leikritið vann meðal annars hin virtu Pulitzer verðlaun þegar verkið var frumsýnt í Bandaríkjunum. Tónlistarkonan Lay Low, sem hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2006, semur tónlist við sýninguna og tekur þátt í flutningi verksins. Þetta er verk sem enginn leikhúsáhugamaður ætti að láta framhjá sér fara. Frumsýnt 2. nóvember 2007 í Rýminu. Rýmið er samstarfsverkefni LA og TM. Höfundur: Paula Vogel. Þýðing: Sigtryggur Magnason. Leikstjórn: María Reyndal. Leikmynd og búningar: Filippía Elísdóttir. Tónlist: Lay Low. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Leikarar: Þröstur Leo Gunnarsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Hallgrímur Ólafsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir.
Fló á skinni – Besti farsi allra tíma!
Er það rétt að í annálaðri fegurð Eyjafjarðar sé sveitasetrið Sveinbjarnargreiði griðastaður elskenda á laun? Hefur Saga Ringsted ástæðu til að gruna eiginmanninn um græsku eða hefur hún sjálf eitthvað að fela? Hver var konan sem bað forstjórann um blint stefnumót? Hélt Elli við konu Jóhannesar eða hélt hann bara upp á hana? Er Helmut Edelstein manískur kvennamaður eða bara þýskur ferðamaður? Er afbrýðisemi Miroslav á rökum reist? Og er ást Tínu sönn? Ást og afbrýðisemi, misskilningur á misskilning ofan og allt í dásamlegri steik. Fló á skinni er einn besti og eitraðasti gamanleikur allra tíma. Nú eru 100 ár frá því að þessi óborganlegi farsi Feydeau kitlaði fyrst hláturtaugar áhorfenda og hóf sannkallaða sigurför um heiminn. LA fagnar tímamótunum með sinni fyrstu uppsetningu á þessu vinsæla verki og í glænýrri leikgerð Gísla Rúnars Jónssonar.
Jólafrumsýning 2007. Frumsýnt 29. desember í Samkomuhúsinu. Höfundur upprunalegs verks: George Feydeau. Leikgerð og íslenskun: Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjórn: Magnús Geir Þórðarson. Leikmynd og búningar: Snorri Freyri Hilmarsson. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Meðal leikara: Guðjón Davíð Karlsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson, Hallgrímur Ólafsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Viktor Már Bjarnason, Atli Þór Albertsson, Linda Ásgeirsdóttir, Þráinn Karlsson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Tinna Lind Gunnarsdóttir, Magnús Ólafsson og fleiri. Sett upp í samstarfi við Mastercard, Höldur og Eimskip.
Dubbeldusch – Glænýtt ljúfsárt verk í samstarfi við Vesturport
Nokkrum sinnum á lífsleiðinni gerast atburðir í lífi okkar sem breyta öllu. Í kvöld kemur einkasonurinn í sumarbústað fjölskyldunnar og kynnir nýja unnustu fyrir foreldrum sínum. Smátt og smátt rennur upp fyrir föðurnum að með komu stúlkunnar knýr ljúfsár fortíðin dyra, þrjátíu ára gamalt leyndarmál sem hann hefur reynt að gleyma. Þá stóð hann frammi fyrir erfiðu vali og enn þann dag í dag veit hann ekki hvort hann valdi rétt, hvað ef…? Dubbeldusch er leikrit um ástina, lífið, tilviljanir og erfiða valkosti. Leikritið er frumraun leikarans Björns Hlyns Haraldssonar sem leikskáld. Sýninguna vinnur LA í samstarfi við leikhópinn Vesturport sem vakið hefur verðskuldaða athygli víða um heim á undanförnum árum. Meðal uppsetninga Vesturports eru Rómeó og Júlía, Brim, Woyzeck og Ást. Ekki missa af spennandi íslenskri leikritun. Frumsýnt um miðjan mars í Rýminu. Rýmið er samstarfsverkefni LA og TM. Höfundur og leikstjóri: Björn Hlynur Haraldsson. Leikmynd og búningar: Börkur Jónsson. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist og hljóðmynd: Frank Hall. Leikarar: Ólafur Darri Ólafsson, Víkingur Kristjánsson, Harpa Arnardóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og fleiri. Sett upp í samstarfi við Flugfélag Íslands.
Gestasýningar og önnur starfsemi:
Auk fjögurra nýrra frumsýninga verður boðið upp á a.m.k. fimm gestasýningar auk fjölbreyttrar annarrar starfsemi.
Íslenski dansflokkurinn – Kraftmikill nútímadans
Íslenski dansflokkurinn hefur vakið verðskuldaða athygli um víða veröld á undanförnum árum en nú sækir flokkurinn Akureyri heim áður en hann heldur í þriggja vikna sýningarferðalag um Bandaríkin. Sýnd verða þrjú af bestu verkum dansflokksins undanfarið, en þau gefa góða mynd af þeirri fjölbreytni sem einkennir þetta flaggskip íslenskra danslista. Verkin þrjú eru Maðurinn er alltaf einn eftir Ólöfu Ingólfsdóttur, Elsa eftir Láru Stefánsdóttur og Critic´s choice? eftir Peter Anderson. Sýningin er í senn aðgengileg og kraftmikil og við hæfi allrar fjölskyldunnar. Viðburður sem enginn dans- eða leikhúsunnandi ætti að láta framhjá sér fara. Sýnt í Samkomuhúsinu 14. október
Þú ert nú meiri jólasveinninn! -skemmtileg jólasýning á aðventunni
Það er ekki auðvelt að vera orðinn eldgamall en búa samt ennþá heima hjá mömmu. Allra síst þegar mamma heitir Grýla og skammar mann fyrir að syngja, segja sögur og hjálpa til í eldhúsinu. En Stúfur deyr ekki ráðalaus og dettur snjallræði í hug: að fara snemma til byggða þetta árið, því þar er svo skemmtilegt. Og hann leggur af stað
Mikill fjöldi barna hefur heimsótt jólasveinana í Dimmuborgir í Mývatnssveit síðustu árin. Nú gefst jólabörnum á öllum aldri tækifæri til að njóta gleðistundar með Stúfi á Akureyri á aðventunni. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir. Útlit hannar Katrín Þorvaldsdóttir. Aðrir aðstandendur sýningarinnar eru Sævar Sigurgeirsson, Oddur Bjarni Þorkelsson og Arnar Sigurðsson. En sérstakur vinur Stúfs er Margrét Sverrisdóttir.
Frelsarinn – ný sýning Kristjáns Ingimarssonar
Er heimsendir í nánd? Og kemur frelsarinn þá? Eða kemur heimsendir í kjölfar frelsarans? Hver er þessi frelsari? George W. Bush? Osama Bin Laden? Eða spilar hann fótbolta með LA Galaxy? Aðalsöguhetjan í þessu verki fær þau skilaboð að hann sé frelsarinn og þar með gæddur einstökum hæfileikum. Með slík völd og trú á sjálfum sér virðast allir vegir færir svo lengi sem múgurinn fylgir. Kristján Ingimarsson hefur hlotið verðskuldaða athygli hér heima og erlendis á undanförnum árum fyrir líkamlegar, áræðnar og bráðfyndnar sýningar. Nýjasta sýning hans, Frelsarinn, var frumsýnd í Danmörku í vor og var hún lofuð hástert. Jón Páll Eyjólfsson leikstýrir sýningunni, en hann er Akureyringum að góðu kunnur fyrir uppsetningar sínar á Maríubjöllunni og Herra Kolbert. Sýnt í Samkomuhúsinu, 24. og 25. nóvember. Höfundur og sviðshreyfingar: Kristján Ingimarsson. Leikstjórn: Jón Páll Eyjólfsson. Leikarar: Kristján Ingimarsson, Bo Madvig, Camilla Marienhof.
Killer Joe – margrómuð og verðlaunuð sýning
Killer Joe hlaut afburðardóma þegar hún var frumsýnd í Borgarleikhúsinu og var svo tilnefnd til átta Grímuverðlauna í vor. Hér er á ferðinni mögnuð sýning á leikriti sem hreyfir við þér. LA mælir eindregið með þessari ekki láta hana framhjá ykkur fara! Höfundur: Tracy Letts. Leikstjóri: Stefán Baldursson. Leikmynd: Vytautas Narbutas. Búningar Filippía Elísdóttir. Lýsing: Lárus Björnsson. Tónlist: Pétur Ben
Leikendur: Björn Thors, Jörundur Ragnarsson, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Þröstur Leo Gunnarsson.
Krónuleikhús – Röð sviðsettra leiklestra
Á síðasta ári bauð LA upp á sviðsettan leiklestur á Ævintýri á gönguför í tilefni 100 ára afmælis Samkomuhússins. Miðaverð var ein króna eins og fyrir 100 árum. Mæltist uppátækið afar vel fyrir. Af þeim sökum hefur verið ákveðið að halda áfram á sömu braut. Fyrir áramót verður nýtt verk um Nonna leiklesið en það var skrifað sérstaklega fyrir LA og Nonnahús. Eftir jól verður leiklestrarröð þar sem nokkur sígild verk íslenskrar leikritunar verða kynnt, verkin sem flutt verða eru Skugga Sveinn, Fjalla Eyvindur og Piltur og stúlka. Miðaverð er áfram aðeins ein króna og boðið er upp á pönnukökur í hléi.
Óvissusýning
Eins og á síðasta ári mun LA á móti gestasýningu sem frumsýnd hefur verið á leikárinu í höfuðborginni. Valin verður sýning sem okkur þykkir eiga erindi við Norðlendinga að vori og vakið hefur athygli á leikárinu. Á síðastliðnum þremur leikárum höfum við tekið á móti Brimi, Hárinu, Græna landinu, Belgíska Kongó, Edith Piaf, Ævintýrinu um Augastein, Mike Attack, Best í heimi, Skoppu og Skrítlu, Les Kunch og fleiri.
Unga fólkið mikil fjölgun í hópi yngri leikhúsgesta
Á síðustu þremur árum hefur mikil áhersla verið lögð á að laða nýja og yngri leikhúsgesti að leikhúsinu. Hefur verkefnaval og val á listamönnum tekið mið af því. Að auki tók LA og Landsbankinn upp samstarf fyrir þremur árum til að vinna sameiginlega að þessu marki. Landsbankinn greiðir nú eins og síðustu ár, niður áskriftarkort fyrir námsmenn og alla sem eru yngri en 25 ára. Með þessu á að vera tryggt að allir geti verið flottir á því og verið fastagestir í leikhúsinu. Er skemmst frá því að segja að fjöldi yngri leikhúsgesta hefur margfaldast á tímabilinu og nú er meðalaldur kortagesta og almennra leikhúsgesta hjá LA undir 35 árum, sem er mjög óvenjulegt í leikhúsum í Evrópu og hér á landi. Verð á áskriftarkorti sem gildir á fjórar sýningar nú er aðeins 3.950 kr.
LA stendur fyrir ýmissi annarri starfsemi sem beint er að unga fólkinu. Reglulega er boðið upp á opin leiklistarnámskeið, við tökum á móti skólum, leikskólum og hópum í heimsóknir í leikhúsið og síðast en ekki síst stendur LA fyrir valgreinakennslu í leiklist í samstarfi við Grunnskóla Akureyrar. Valgreinakennslan hófst sem tilraunaverkefni fyrir tveimur árum en hefur nú fest sig í sessi. Nemendur geta þá valið leiklist sem valgrein og koma í leikhúsið einu sinni í viku í heilt misseri. Þar eru þau frædd um lífið í leikhúsinu og ferlið frá leikriti á blaði að sýningu á sviði. Sem eðlilegt framhald af leiklistarnámskeiðunum vinsælu hefur nú verið settur á stofn söng- og leiklistarskóli í samstarfi við Sönglist en fyrstu nemendur verða teknir inn eftir áramót.
Leikhúsferð til London
Í fyrra fór LA í fyrsta skipti í leikhúsferð til London í beinu flugi frá Akureyri. Mikil ásókn var í ferðina og komust færri að en vildu. Því hefur verið ákveðið að endurtaka leikinn og nú verður ferðin um miðjan nóvember. Farið verður á tvær leiksýningar, m.a. verður farið á hinn glæsilega söngleik, Mary Poppins. LA stendur fyrir ferðinni í samstarfi við Expressferðir. Kortagestir LA fá 7.000 kr afslátt af ferðinni.
Áskriftarkort
Að venju býður LA upp á áskriftarkort. Þrjár sýningar eru fastar í kortinu, Ökutímar, Fló á skinni og Dubbeldusch. Sem fjórðu sýningu í kortum geta korthafar valið milli hinna fimm sýninga vetrarins, Óvitar, Íslenski dansflokkurinn, Frelsarinn, Þú ert nú meiri jólasveinninn, Killer Joe eða óvissusýning. Verð áskriftarkortsins er 7.900 kr en Landsbankinn niðurgreiðir áskriftarkort fyrir námsmenn og alla yngri en 25 ára. Þeim býðst kortið því á hálfvirði og greiða aðeins 3.950 kr fyrir fjórar sýningar.
Leikskáld að störfum fyrir LA
Það er LA sérstakt ánægjuefni að geta nú sinnt íslenskri nýsköpun í meira mæli en nokkru sinni fyrr. Nú er unnið að ritun fjögurra nýrra íslenskra leikrita fyrir LA. Stefnt er að uppsetningu verkanna á næstu misserum.